Saturday, June 20, 2009

Lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun

Í framhaldi af þessu.

Landsvirkjun og íslenska ríkið hafa gert með sér viðbúnaðarsamning til að róa greinendur lánshæfismatsfyrirtækja. Í honum felst að Seðlabanki Íslands er orðinn þrautavaralánveitandi fyrirtækisins. Bankinn leggur fyrirtækinu til allt að 300 milljónum dollara, gegn krónum eða skuldabréfum, komi til þess að fyrirtækið verði í vandræðum með að greiða vexti og afborganir af lánum. Samningurinn gildir til 1. júlí 2011.

Þrennt er nú einkum að valda vandræðum hjá Landsvirkjun. 1. Ekkert aðgengi að erlendu lánsfé, 2. hrun á hrávörumörkuðum sem hefur áhrif á álbransann, stærsta kúnna Landsvirkjunar, og 3. að íslenska ríkið eigi Landsvirkjun.
Hrun álbransans hefur leitt til þess að minni arðsemi hefur verið af sölu á raforku til álveranna en áður. Augljóst er að krafan um 11,9 prósent arðsemi eigin fjár vegna Kárahnjúkavirkjunar, sem var forsenda framkvæmdarinnar, er í uppnámi. Landsvirkjun endurmat arðsemina í byrjun árs í fyrra, þegar álverð var í hæstu hæðum, og var arðsemin þá reiknuð rúmlega 13 prósent. Forsendurnar fyrir endurmatinu, sem leiddu til hækkunar arðsemi, eru allar búnar að skolast burt og reyndar gott betur. Vandamál álbransans er stórt og mikið. Er því spáð að ekki muni ganga á birgðir, sem nema nú tæplega 4,5 milljónum tonna - sexfaldri ársframleiðslu á Íslandi - nema fyrr en framleiðslufyrirtæki hafa náð botninum. Ekkert bendir til þess að það hafi gerst.

Þó er það ekki svo, að viðskiptin séu botnlaust tap í augnablikinu. Landsvirkjun á um 90 milljónir dollara, 11,6 ma., í lausafé sem er dágóður slatti í því árferði sem nú ríkir. Þá hefur fyrirtækið haft til þess svigrúm til þess að borga niður skuldir. Þó ekki nema aðeins lítið brot af heildinni.
Skuldirnar eru kjarninn í áhyggjum matsfyrirtækja. Enda væri raforkusalan ævintýralega góður buisness ef Landsvirkjun skuldaði ekki neitt.

Í lok árs námu langtímaskuldir fyrirtækisins um 3 ma. dollara, eða sem nemur 383 milljörðum króna. Á bak við þessar skuldir eru hins vegar virkjanir og stöðugar tekjur til áratuga. Lánshæfismatsfyrirtækin hafa sagt íslenska ríkið vera ótrúverðugan eiganda fyrirtækisins í því árferði sem nú ríkir. Það muni ekki geta komið Landsvirkjun til bjargar ef allt fer á versta veg; þ.e. ef lánamarkaðir erlendis halda áfram að vera lokaðir fyrir Íslandi og öllu sem því tengist. Reyndar hefur Landsvirkjun aðgengi að 400 milljón dollara veltiláni til að mæta tímabundnum erfiðleikum við að nálgast dollara. Heimskreppan er hins vegar löngu búin sprengja skala yfir tímabundna erfiðleika, og ólíklegt að veltilánið muni ráða úrslitum ef lánamarkaðir verða varanlega lokaðir. Það mun smá saman þurrkast upp.

Því miður er það svo, að áhyggjur lánshæfismatsfyrirtækja eru á rökum reistar. Í versta falli gæti frekari lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar leitt til gjaldfellingar lána, eins og Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur bent á. Þá yrðu góð ráð dýr. 300 milljónirnar frá seðlabankanum myndu duga skammt á móti skuldum sem eru um tíu sinnum meiri. Þá kæmust bestu tekjustraumar á Íslandi í erlendri mynt í eigu erlendra banka. Þetta eru einfaldlega staðreyndir, og tengjast ekkert debate-inu um hvort auðlindir landsins geta verið í eigu útlendinga eða ekki, eins og Össur Skarphéðinsson hefur sagt. Veruleikinn er einfaldlega sá, að lánað var til Landsvirkjunar gegn veðum. Ríkisábyrgðin, sem áður var lykillinn að góðum lánakjörum - og þannig óbeint trygging fyrir reiknaðri arðsemi af orkusölunni - er nú orðin að helsta vanda Landsvirkjunar. Í næstum einni svipan.

Ég hef áður fjallað um hvers vegna það kann að vera óskynsamlegt að láta skattgreiðendur bera Landsvirkjun á herðum sínum. Ætla því ekki að gera það aftur.

En lausnin á þeim mikla vanda sem Landsvirkjun er í - hvað sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja út á við - kynni að vera sú að gera snöggar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar. Með því að selja það til lífeyrissjóðanna. Verðmiðinn; yfirtaka skulda. Sé horft til fyrri debate-a um virði Landsvirkjunar þá kann það verð að vera lágt. Hagsmunamatið er hins vegar það, að algjör nauðsyn er að tryggja stöðu Landsvirkjunar og fastra áratugalangra orkusölusamninga fyrirtækisins í erlendri mynt. Lífeyrissjóðirnir geta eignast fyrirtækið gegn þessu verði og greitt fyrir að hluta með því að færa erlendur eigur sínar heim, svo dæmi sé tekið. Í raun er Landsvirkjun "erlend" eign. Með efnahagsreikning að öllu leyti í dollurum þannig að ef menn hafa það sem prinsipp, að dreifa eignasafni lífeyrissjóða þannig að fyrirtæki sem byggja á erlendri mynt séu ákveðið hlutfall eignasafnsins, þá ætti það ekki að vera vandamál. Til framtíðar gæti þetta leitt til þess að áhrif orkusölunnar á fjárfestingastarfsemi í landinu yrði meiri en nú. Það hefur einmitt verið einn helsti galli þess að þjóðnýta orkusöluna til álvera, að margfeldisáhrifin á nýsköpun og fjárfestingar hafa ekki verið eins mikil og þau gætu verið. Fyrirvararnir eru vitaskuld þeir að arðsemin af orkusölunni haldist eða aukist- það er að lánakjör séu góð - við þessi eigendaskipti. Með þessu móti verður orkusalan áfram í eigu almennings en skuldir sem íslenska ríkið ábyrgist minnka. Hugsanlega væri hægt að grynnka verulega á skuldum Landsvirkjunar með því einfaldlega að borga hluta þeirra upp strax. Þetta gæti haft hliðaráhrif á traust erlendra banka á Íslandi, en meira um það síðar.

Íslenskir stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins hafa undanfarnar vikur setið sveittir við að greina þann gríðarlega vanda sem íslenskur efnahagur er í. Ég óttast að staða Landsvirkjunar hafi ekki verið greind ofan í kjölinn og um hana rætt út frá ólíkum sviðsmyndum. Ég reyndar veit að það hefur ekki verið gert, þar sem önnur atriði hafa haft forgang. Áður en menn taka ákvarðanir um að setja hundruðir milljarða af eignum lífeyrissjóða í byggingu húsa og vega, þá ættu menn að hugleiða eigendabreytingu á Landsvirkjun. Ég er viss um að það er þess virði. Og sú breyting myndi leysa ýmis vandamál, um leið og hagsmunir sjóðsfélaga lífeyrissjóða yrðu hafðir sem leiðarljós út úr vandanum.

2 comments:

Sigurgestur said...

Eru Lífeyrissjóðirnir undir það búnir að taka á sig uppgreiðslu stórs hluta skuldanna, sem verða gjaldfelldar við eigendabreytinguna?

Gera lánasamningarnir ekki ráð fyrir því að Landsvirkjun verði seld? Er ekki líklegt að samningarnir innihaldi áframhaldandi ríkisábyrgð ef svo fer?

Hvernig eru vextirnir í lánasamningum Landsvirkjunarákvarðaðir? Hefur opinbert eignarhald ekki áhrif á vextina?

Maggi Halldórs said...

Sælir

Í færslunni stendur m.a. þetta: "Fyrirvararnir eru vitaskuld þeir að arðsemin af orkusölunni haldist eða aukist- það er að lánakjör séu góð - við þessi eigendaskipti."

Það er ekki augljóst að lánin verði gjaldfelld við eigendabreytinguna.

Lífeyrissjóðirnir eru traustari eigandi en ríkið, í því árferði sem nú ríkir. Þó staða þeirra sé vond, eða verri en áður, þá ættu þeir að geta flutt erlendar eignir sínar heim og tekið yfir Landsvirkjun. Þær nema mun hærri upphæð en heildarskuldir Landsvirkjunar, þó þær séu "aðeins" um fjórðungur af eignum. Í sjálfu sér ættu það að vera góð skipti, eignast Landsvirkjun í stað erlendu eignanna. Geta jafnvel grynnkað á skuldum fyrirtækisins, fyrir hluta af því fé sem nú er bundið í erlendum eignum.
kv
MH