Monday, March 9, 2009

Nokkur atriði um afleiðuviðskipti

Rannveig Rist segir að umræðan - og gagnrýnin - um raforkusölu hins opinbera til álvera - í skjóli skattaafslátta - hafi verið drifin áfram á trúnni á því að hér gæti ekki skapast atvinnuleysi, verðbólga og skuldasöfnun hins opinbera. Ég held að þetta sé að hluta til rétt hjá Rannveigu. Það er hins vegar áhyggjuefni að ekki hafi verið hægt að ræða raforkusöluna á vitrænum grunni öðruvísi en að vera stimplaður Vinstri grænn, Framsóknar- eða Sjálfstæðismaður. Ástæðurnar fyrir því eru einkum tvær. 1. Skortur á upplýsingum sem skipta höfuðmáli þegar framlegðin er til umfjöllunar. 2. Öfgakennd viðbrögð álfyrirtækja, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar, og Samorku í næstum hvert einasta skipti sem það birtist gagnrýnin umfjöllun um þessi mál.
------ Áhyggjuefnin eru nokkur.
Skattgreiðendur bera ábyrgð á raforkusölunni sem í reynd eru afleiðuviðskipti. Þessi viðskipti eru að vissu leyti í uppnámi vegna heimskreppunnar. Áliðnaðurinn í heiminum er hruninn og heimsmarkaðsverðið, sem stýrir framlegð raforkusölunnar, hefur tekið fordæmalausa dýfu niður á við. Um 70 prósent á sjö mánuðum. Þá er talið að offramboð á áli í heiminum sé á þriðja milljón tonn, sem nemur allri framleiðslu hér á landi í meira en fimm ár. Í fréttaskýringu í The Economist fyrir skemmstu var því haldið fram að stærstu álfyrirtæki heims, Alcoa og Rio Tinto, sem bæði eru með starfsemi hér, væru að grípa til hagræðingaraðgerða sem væru svo umfangsmiklar að ekki væri hægt að líta á þær öðruvísi en sem neyðaraðgerðir til að bjarga félögunum.

Orkusalan frá Kárahnjúkavirkjun var - svo dæmi sé tekið - talin geta skilað 11,9 prósent arðsemi eigin fjár miðað við að heimsmarkaðsverð á áli væri um 1.550 dollarar á tonnið að meðaltali. Lögin um hana voru samþykkt á þeim grunni. Það var reyndar miðað við að kostnaður við virkjunina væri 96 milljarðar. Kostnaðurinn er þó töluvert hærri en áætlað var, meðal annars vegna miklu meiri kostnaðar við að bora göng. Umframkostnaðurinn nemur tugum milljarða. Þá er ekki ljóst enn hversu mikið Landsvirkjun skattgreiðenda þarf að borga eigendum vatnsréttinda á Kárahnjúkum mikið fyrir þau. Um það var ekki samið fyrir fram. Sem er séríslenskt og ætti að meðhöndla sem afglöp hjá stjórn Landsvirkjunar. Opinber rannsókn væri viðeigandi. Að lágmarki mun Landsvirkjun þurfa að greiða vel á annan milljarð, sem skattgreiðendur ábyrgjast.
Það er mér gjörsamlega hulið, hvers vegna hörðustu hægri menn landsins berjast oft með kjafti og klóm gegn því að það sé rætt á eðlilegum forsendum hvort þessi afleiðuviðskipti á ábyrgð skattgreiðenda séu skynsamleg eða ekki. Vinstri mönnum hættir síðan til að tala ekki um það sem máli skiptir.

Eitt er þó óumdeilt. Þessi afleiðuviðskipti eru bæði áhættusöm, og fara fram á samkeppnismarkaði skv. lögum. Með öðrum orðum; þá er ekki nauðsynlegt að skattgreiðendur taki á sig áhættuna af afleiðuviðskiptunum heldur gætu einkarekin fyrirtæki gert það gegn auðlindaleigu. En pólitísk umræða um auðlindanýtingu er ekki komið þangað enn. Hún liggur í skotgröfunum. Fyrir vikið þurfa íslenskir skattgreiðendur ekki aðeins að hafa áhyggjur af almennri niðursveiflu, heldur einnig af sértækum vandamálum sem The collapse of manufacturing - svo vitnað sé í forsíðufyrirsögn The Economist - getur haft á auðlindanýtingu.

Þá hef ég áhyggjur af einu enn. Og þá helst vegna þess að um það er ekkert talað. Stærstu lánveitendur Landsvirkjunar hafa að undanförnu verið þjóðnýttir, eða bjargað með öðrum hætti af skattgreiðendum annarra ríkja. Meðal þeirra eru Citigroup, Barclays og Sumitomo. Á svipstundu hefur áhættan á lánum þessara banka verið færð á herðar skattgreiðenda í Bretlandi, Bandaríkjunum og Japan. Póltíkusar í þessum löndum standa því frammi fyrir spurningum sem í besta falli eru óþægilegar fyrir okkur. Þær eru: 1. Getum við lagt áhættuna af afleiðuviðskiptunum á Íslandi, sem tengd eru áliðnaðinum, á herðar skattgreiðenda? 2. Getum við gert það, í ljósi þess að íslenskir skattgreiðendur - sem nú eru með þeim fátækustu í hinum vestræna heimi - eiga fyrirtækið sem stendur í þessum viðskiptum?

Þessar spurningar eru ekki síst óþægilegar, þegar horft er til þess að eigendur Landsvirkjunar hafa aldrei lagt fyrirtækinu til eigið fé. Heldur hefur það fjármagnað sig að fullu með erlendum lántökum. Aðgangur að þeim er enginn. Allra síst fyrir íslenska skattgreiðendur. En meira um það síðar.

4 comments:

Kalli Hr. said...

Frábær grein.

Unknown said...

Mögnuð grein

Svansson
www.svansson.net

Jakob Bjarnar said...

"Að lágmarki mun Landsvirkjun þurfa að greiða vel á annan milljarð, sem skattgreiðendur ábyrgjast."

Blessaður Magnús! Já, athyglisverð grein. En... þú athugar eitt að skattgreiðendur eða almenningur eru eigendur 70% vatnsréttar meðan Landsvirkjun er sérkennilegt ríki í ríkinu. Ég held reyndar að 2 milljarðar séu fjarri öllu lagi til eigenda vatnsréttar. Þetta er eingreiðsla. Verðmætin sem Jökla er að pródúsera í raforku eru margfalt miklu meiri og ef þetta gengur eftir er óhætt að kalla það þjófnað aldarinnar.
Kveðja,
Jakob

Sigfus said...

Ákaflega vel skrifað!