Saturday, March 14, 2009

Óhugnanleg og falleg í senn

Árið 1996 fékk Charles Porter, lánasérfræðingur í Oklahoma City banka, blaðamannaverðlaun Pulitzer fyrir mynd ársins. Hann var enginn ljósmyndari, en var einn af þeim sem var fyrir tilviljun staddur fyrir utan skrifstofubyggingu í miðborg Oklahoma, 19. apríl 1995. Rétt rúmlega níu að morgni, þegar hún var smekkfull af fólki, var hún sprengd í loft upp. Fólk inn í byggingunni dó og einnig fólk sem var á ferð fyrir utan. Samtals dóu um 200 manns og mörg hundruð særðust, margir alvarlega. Porter þessi hljóp til þegar hann heyrði gríðarlegar sprengingar, tók með sér myndavél og smellti af nokkrum myndum. Síðan hljóp hann inn í Wal-Mart í næsta nágrenni og framkallaði myndirnar. Þegar hann fékk myndirnar til baka var allt starfsfólkið í búðinni grátandi. Fyrst og fremst yfir einni mynd. Þeirri sem hér birtist til hliðar.

Porter þessi þræddi sjúkrahús með myndinni í leit að foreldrum barnsins. Hann hafði þá þegar selt myndina til Associated Press, sem síðan varð til þess að ritstjórnir dagblaða í Bandaríkjunum - og um allan heim - notuðu hana á forsíðu. Barnið reyndist vera Baylee Almon, dóttir einstæðrar móður, Aren Almon. Hún taldi sig þekkja dóttur sína af forsíðu The Washington Post. Hún hafði samband við ritstjórn blaðsins. Spurði hver hefði tekið myndina, og hvert hefði verið farið með Baylee. Ritstjórnin aðstoðaði konuna við að fá upplýsingar. Baylee lést skömmu áður en hún komst undir læknishendur. Þær fréttir fékk Aren frá ritstjóra The Washington Post.

Þetta var í annað skipti í sögu Pulitzer-verðlaunanna sem amatör ljósmyndari fékk verðlaunin. Það hafði áður gerst 1974. Með spontant mynd af vettvangi mannráns í LA.

Heimild: Bókin Moments. Frábær blaðamennskubók um nákvæmar sögur að baki myndum sem hafa verið verðlaunaðar og birst á forsíðum út um allan heim. Þá er einnig farið yfir debate-in sem áttu sér stað á ritstjórnum blaða vegna þeirra.

No comments: