Tuesday, March 10, 2009

Málþóf vegna deilu um málþóf

Alþingi Íslendinga logaði í gærkvöldi - og að einhverju leyti í nótt - vegna deilna um hvort stjórnarandstöðuflokkarnir stæðu fyrir málþófi eða ekki. Vinstri græn gagnrýndu menn harðlega fyrir málþóf. Það er sami flokkur og beitti því sem röksemd gegn breytingum á þingsköpum, sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stóðu fyrir, að ekki væri hægt að beita málþófi með sama árangri og áður næðu breytingarnar fram að ganga.

Á meðan þessar deilur eiga sér stað heldur atvinnulífið áfram að safna fyrir næstu mánaðarmótum, þegar það þarf að borga 25 prósent vexti af lánum í því sem næst eftirspurnarlausu hagkerfi. Og þá nálgast gjalddagar á jöklabréfum óðum, á sama tíma og Sparisjóðabankinn bíður þess að verða leystur upp, eins og reyndar Icelandair, Eimskip og fleiri fyrirtæki. Þá eru bankarnir auðvitað án efnahagsreiknings. Sem er þokkalega mikilvæg forsenda þess að stýra bankastarfsemi.