Friday, October 16, 2009

Maradona var ekki orðinn 14

Maradona er mættur aftur. Ég kann ekki rómönsk tungumál en mér skilst að hann hafi sagt eftir sigurinn á Úrúgvæ á miðvikudaginn, sem tryggði HM-sætið, að þeir sem hafi gagnrýnt hann megi sjúga á honum typpið. Hann hafði meðal annars fyrir því að segja; "afsakið dömur", áður en hann lét orðin falla. Íslenskir þýðendur hafa ekki fengist til þess að þýða þetta beint.

Þetta var ekki eini sigur Maradona á Úrúgvæ, fjarri því. Í júlímánuði árið 1971 mætti 14-landslið Argentínu liði Úrúgvæ í höfuðborginni Montevideo. Þar fór fram keppni ungliðaliðanna frá Suður-Ameríku. Þarna voru samankomnir hæfileikaríkustu 14 ára drengir álfunnar. Fyrir keppnina höfðu verið settar reglur um að liðin mættu aðeins vera skipuð leikmönnum á 14anda aldursári. Reglurnar voru sniðnar að því að koma í veg fyrir þátttöku Maradona í mótinu. Hann var þá 10 ára að verða 11, 30. október. Hæfileikar hans höfðu þá þegar spurst út fyrir landamæri Argentínu og yfirleitt voru vellirnir í fátækrarhverfum í Bounes Aires, þar sem Maradona átti heima, umkringdir áhorfendum þegar hann lék lystir sínar.

Þjálfara argentíska liðsins tókst að smygla Maradona með í liðið undir dulnefni. Hann byrjaði þó ekki inn á. Flautað var til leiks. Argentínumenn áttu í vök að verjast gegn sprækum Úrúgvæum. Staðan í hálfleik var 2-0 heimamönnum í vil. Þegar komið var fram í seinni hálfleik voru góð ráð dýr. Þjálfarinn hóaði í Maradona. Hann kom inn og slátraði liði Úrúgvæa með sex einleiksmörkum. Leikurinn endaði 3-6.

Þjálfari Úrúgvæa sagði eftir leikinn að hann hefði aldrei séð annað eins. Hann hefði ekki haft í sér að láta stöðva leikinn þó hann hafi vitað mæta vel að þarna hefði Maradona verið á ferð og hinar umdeildu reglu verið brotnar. Þjálfari Brasilíu, sem var áhorfandi að leiknum, varð hins vegar æfur og krafðist þess að Maradona yrði rekinn úr mótinu.

Eftir mikið fjaðrafok og rifrildi varð það ofan á Maradona fengi að spila með Argentínu en aðeins annan hálfleikinn í hverjum leik. Úrslitaleikur mótsins var gegn Brasilíu. Eins og ævinlega voru Argentínumenn undir í fyrri hálfleik en leikurinn kúventist með innkomu Maradona í síðari hálfleik. Brasilíumenn réðu ekkert við hraða og leikni Maradona. Hann tryggði Argentínu sigur á Brasilíu með fjórum mörkum, öll upp á eigin spýtur eingöngu. Þjálfari Brasilíu var æfur eftir leik og sagði þetta svindl. Maradona væri alls ekki 14 ára.

Heimild: The Hand of God eftir Jimmy Burns og pistlar sem skrifaðir hafa verið um hann í erlend blöð. Bók sem eingöngu var unnin með samtölum við samferðamenn Maradona þar sem hann sjálfur neitaði höfundinum um viðtal. Bókin er margverðlaunuð, en um leið umdeild. Maradona gaf sjálfur út hina hörmulegu El Diego nokkru eftir The Hand of God. Að því er virðist til þess að reyna að leiðrétta það sem honum líkaði ekki við í bók Burns. Sérstaklega fóru kaflar í bókinni um leti Maradona á æfingum í taugarnar á honum. Rakið er nákvæmlega í bókinni hvernig ferill Maradona fór út um þúfur eftir því sem kókaínfíkn hans dýpkaði. Hann æfði lítið sem ekkert með Napoli eftir vormánuði 1988, þegar tímabilinu 1987-1988 lauk. Hann var þó á þeim tíma, langbesti knattspyrnumaður heims. Hélt þeim status í raun fram að HM á Ítalíu 1990. Þá fór Matthaus að gera sig gildandi. Eflaust mun enginn leika það eftir þegar Maradona fór til smáliðs Napoli á Ítalíu og breytti því í besta félagslið heims á innan við þremur árum. Menn eins og Zidane, standa enn á gati yfir hæfileikum hans.

Hér er ágætt The Best of Maradona myndband. Mæli sérstaklega með ótrúlegu "tötsi" (4 mín og 17 sek búnar) í leik gegn AC Milan, þar sem hin fræga varnarlína Milan liðsins er yfirbuguð.

Friday, August 28, 2009

Það er byrjað aftur...

Ég get ekki séð betur en að Reykjavíkurborg sé byrjuð aftur, á fullkomlega óréttlætanlegum lóðaúthlutunum. Lóðaverðið tekur mið af heildarkostnaði við uppbyggingu hverfa, líkt og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru að gera eftir að lánsfé flaut yfir íslenskan efnahag og sökkti honum að lokum. Þýðir að lóðakaupendur eru látnir borga fyrir göngubrýr, heildarkostnað við götumyndun, skólauppbyggingu og þess háttar þjónustu, sem nánast allir aðrir Reykvíkingar hafa greitt fyrir með útsvarsgreiðslum í gegnum áratugi. Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa sloppið vel í þeirri hörðu og réttlátu gagnrýni sem stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa reynt að svara fyrir. Sveitarstjórnarmenn útveguðu pláss undir einhverja mestu fasteignabólu sem myndast hefur nokkru sinni, með því skipta um aðferðarfræði þegar kemur að nýbyggingum og skipulagsvinnu. Hún felst í hinu fyrrnefnda; að láta lóðakaupendur standa undir heildaruppbygginu nýrra hverfa. Þetta hafði tvær alvarlegar afleiðingar. a) Grunnkostnaður við byggingu húsnæðis hækkaði mikið og leiddi því til beinnar hækkunar á húsnæði. b) Ný markmið voru sett um hraða uppbyggingu hverfa, sem leiddi til mikillar þenslu sem byggði öðru fremur á lántökum, lóðakaupenda annars vegar og svo hins opinbera hinsvegar. Ekki síst vegna lagningu veitulagna og raflína. Auk leiddi þessi mikli uppbyggingarhraði til þess að greining á húsnæðisþörf varð verri. Að lokum standa eftir tóm hverfi.

Ef það á virkilega að vera þannig - núna - eftir að mesta efnhagsbóla allra tíma sprakk í loft upp - m.a. vegna þess hvernig hið opinbera og bankarnir blésu í fasteignabóluna - að lóðir eigi að seljast á grunni þess að lóðakaupendur borgi beint fyrir skóla, sundlaugar, göngubrýr og aðra þjónustu í nýjum hverfum, þá hafa sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ekkert lært. Reyndar hefur borið á því að sveitarstjórnarmenn í sumum sveitarfélögum, einkum Seltjarnesbæ og Garðabæ, stæri sig af því að ávinningurinn af sölu á byggingarrétti fullkomlega tómra hverfa sé núna inn á bankabók. Þetta á meðal annars við um Hrólfskálamelssvæðið á Seltjarnesi, þar sem lúxusíbúðablokk er inn í miðjum kjarna bæjarins. ÍAV greiddi tæplega 1,5 milljarða fyrir. Ein kona bjó síðast þegar ég vissi í fjölbýlishúsinu, Hildur Guðmundsdóttir. Skuldir ÍAV hins vegar, vegna þess láns sem fyrirtækið tók til að greiða Seltjarnesbæ fyrir byggingarréttinn hafa verið þjóðnýttar eftir hrunið. Skattborgarar sitja því uppi með þetta tóma hverfi á Seltjarnarnesi, þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn á Seltjarnesi geti ráðstafað þeim peningum sem ÍAV tók að láni. Reyndar eru skuldir ÍAV vegna þessa svæðis miklu hærri en 1,5 milljarðar þar sem lánið var upphaflega í erlendri mynt. Ályktunin sem af þessu má draga er eftirfarandi, í einföldum orðum; tóm hverfi eru þjóðhagslega óhagkvæm, alltaf, og að lokum lendir kostnaðurinn við að halda hverfunum úti, þ.e. að reka lagnir, rafmagn og þjónustu, á skattgreiðendum. Það sama má segja um Urriðaholt í Garðabæ, þar sem skuldir einkafyrirtækis vegna uppbyggingar í hverfinu hafa verið þjóðnýttar. Þær eru nú umtalsvert hærri en sem nemur þeim ávinningi sem Garðabær hefur stært sig af, og hefur til ráðstöfunar inn á bók.

Wednesday, August 26, 2009

"Greiðslugeta" og "veðrými"

Eins og við mátti búast er umræðan um afskriftir húsnæðislána, einkum þeirra sem bundin voru við dagsgengi erlendra mynta, komin að nýju á fullt skrið. Strax í kjölfar þess að bankarnir, mótaðilar tugþúsunda í húsnæðislánasamningunum, hrundu fór umræðan á fullt. Þá gátu stjórnmálamenn ekki leitt málið til lykta auk þess sem nýju bankarnir voru því sem næst óstarfhæfir. Þeir eru nú að fá tilverugrundvöll, þ.e. efnahagsreikning og mat á eignum og skuldum, sem hægt er að miða við í rekstrinum. Nokkur atriði þarf að skýra fyrir almenningi, til þess að mögulegt verði að, í það minnsta, nálgast sæmilegt jafnvægi í umræðu um þetta mál sem augljóslega er eitt það stærsta í Íslandssögunni.
1. Fjármagnseigendur fengu hjálp þegar hrunið varð, meðal annars með því að ráðherrar í ríkisstjórn, kjörnir fulltrúar, beittu sér fyrir því að peningagreiðslur frá ríkinu myndu renna í áhættufjárfestingasjóði bankanna. Þetta gerðu m.a. ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Þetta hefur nokkuð ítarlega verið rakið í Morgunblaðinu, og meðal annars birtar fundargerðir bankanna sem sýna bein afskipti ráðherra af þessum hlutum. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki sýnt málinu áhuga, nema þá helst blaðamenn DV sem hafa verið á góðu skriði að undanförnu. Álitamálið hvað þetta varðar, er vitaskuld jafnræðið. Hvers vegna var þetta gert, og hvers eiga þeir að gjalda sem ekki fengu aðstoð? Útvöld sveitarfélög og einstaklingar, fengu með þessu hjálp frá ríkinu sem öðrum bauðst ekki. Þetta mál er að öllu leyti vanreifað að hálfu stjórnmálamanna. Botn þarf að fást í þetta, helst fyrir dómi. Allt bendir til þess að þessi augljósa mismunun að hálfu ríkisins sé lögbrot. Ef svo er ekki, þá er hún vítaverð spilling, þar sem útvöldum hópi samfélagsins er veitt fjárhagsaðstoð á kostnað annarra þegna, í nær fordæmalausu fjárhagshruni þjóðarinnar.
2. Vegna þessarar augljósu mismununar, sem innspýtingin á ríkisfénu í peningamarkaðssjóðina er, þá þyngist krafa skuldara um aðgerðir. Spurningin; Af hverju er þeim bjargað en ekki mér? brennur á fólki (Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra DV, gerði frábærlega grein fyrir vanmætti stjórnmálamanna við að takast á við þessi mál í leiðara í gær). Í svarinu við þessari spurningu kemur fram krafan um leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána. Leiðréttingin byggist m.a. á því, að stjórnvaldsákvarðanir hafa verið teknir um að hjálpa útvöldum hópi með fjármunum skattgreiðenda. Á sama tíma hafa lán fólks hækkað, þau verðtryggðu um meira en 20 prósent en gengistryggðu lánin hafa meira tvöfaldast í sumum tilvikum.
3. Afskriftin kostar peninga, og IMF, sjóðurinn í brúnni, er á móti afskriftum. Um það hefur margoft verið upplýst, nú síðast af Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra. Mikil þörf er á því að fá niðurstöðu í það fyrir dómstólum hvort forsendubrestur hafi orðið í lánasamningum hjá fólki. Þó ekki nema fyrir þá augljósu ástæðu að viðsemjendur fólks, bankarnir, eru farnir á hausinn og lánasamningarnir hafa verið seldir á slikk til nýrra banka, sem ríkið kom á fót, án þess að mótaðilinn í samningunum, fólkið, hafi fengið nokkru um það ráðið. Þetta skapar augljóslega svigrúm til lækkunar á höfuðstólnum. (Því betur virðast bankarnir vera að útfæra þessar afskriftahugmyndir, eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Íslandsbanki þrýstir á um að málið verði sett á dagskrá og aðgerðir samræmdar). En bara það, að mögulegt sé að lækka - og þar með leiðrétta - höfuðstól lána er ekki nóg. Það þarf að taka ákvarðanir. Sporin sem ráðherrar í ríkisstjórn skilja eftir sig í þessum málum hræða. Fyrrnefndur Árni Páll sagði á dögunum, í uppsláttarfrétt á forsíðu Fréttablaðsins, að afskrifa ætti hluta af lánum þeirra sem væru "umfram greiðslugetu og veðrými". Þetta var meðhöndlað sem nokkur tíðindi af Fréttablaðinu og reyndar líka fréttastofu RÚV um tíma. Í reynd er þetta ekki-frétt. Auðvitað þarf að afskrifa hluta láns, sem ekki er mögulegt að fá til baka! Árni Páll er ekki að segja neitt annað en það. Og reyndar er það nú svo að þetta hugtak "veðrými" er svo vítt hér á landi, að vandséð er hvernig hægt er að komast í þá aðstöðu að fá afskrift nema að litlu leyti. Lögin gera ráð fyrir því að bankar, sem keypt hafa lánasamninga frá ónýtu bönkunum á afslætti, geti gengið að öðrum eignum en fasteigninni til þess að freista þess að ná upp í skuldir. Þeir hafa "rými" til þess í dag. Aðstæður í landinu hafa vitaskuld gjörbreyst þar sem fasteignaverð er að hrynja - hefur lækkað um 31 prósent frá því 2007 að raunvirði - en höfuðstóll lána hefur hækkað á móti. Þetta þýðir að hætta er á því að tugþúsundir verði sett varanlega í neikvæða eiginfjárstöðu, og hluti af þeim beint í gjaldþrot, ef engar ákvarðanir verða teknar. Meira síðar.

Tuesday, August 25, 2009

Þáttastjórnandinn Björn Bjarnason

Ég tók mig til í gær og horfði á fyrsta þátt Björns Bjarnasonar á ÍNN, frá 19.ágúst, þar sem hann spjallaði við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Björn er skínandi góður spyrill og mér finnst þetta hlutverk henta honum vel. Einhver kann að hafa fundið fyrir því að Björn hafi verið óskaplega hrifinn af verkum Hönnu Birnu, og ekki haldið hlutleysi sínu þannig sem pólitískur samherji, en það truflaði mig ekkert. Hver hefur sinn stíl í þessu. Þetta var yfirvegað og upplýsandi viðtal. Vonandi tekur Björn smá áhættu í þessum þáttum í framtíðinni og fær til sín pólitíska andstæðinga, og spyr þá spjörunum úr. Það gæti orðið athyglisvert.

Friday, August 21, 2009

Vörn gegn landflóttanum

Landflóttinn, sem var óumflýjanlegur, er hafinn. Margir hafa nefnt að kreppan í Færeyjum, þegar 20 til 25 prósent íbúa fluttu frá eyjunum, ætti að vera víti til þess að varast. Ísland er að mörgu leyti í verri stöðu, þar sem það er fyrst og fremst millistéttin sem er að fara úr landi. Iðn- og háskólamenntað fólk sem getur fengið tækifæri í öðru landi sem býðst ekki hér, vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins.

Að mínu mati er eitt áhrifamesta tækið sem stjórnmálamenn hafa til þess að sporna gegn þróuninni, eitthvað sem of lítið hefur verið rætt um. Það er að lögfesta, með lagabreytingu, að lánastofnanir geti aðeins gengið að húsnæði fólks vegna fasteignaveðlána. Eins og staðan er í dag geta lánastofnanir strípað fólk af eignum og fé uppi í skuldir.

Gallarnir við þetta eru þeir, að hugsanlegt er að einhverjir muni skila lyklunum af heimilum sínum sem ráða við af greiða af lánum sínum. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til hraðara verðfalls á húsnæði. En þar með eru gallarnir upptaldir.

Kostirnir eru þeir að fólk er ekki sett í tugþúsundavís í gjaldþrot, eða neikvæða eiginfjárstöðu í áratugi. Fólk hefur það úrræði að skila inn lyklunum ef það telur sig ekki geta greitt áfram vegna stöðu sinnar. Í sjálfu sér er ekki um mikla breytingu að ræða. Hinir gjaldþrota bankar, og Íbúðalánasjóður stjórnvalda - höfundar mestu húsnæðisbólu mannkynssögunnar - lánuðu til fasteignakaupa öðru fremur með veði í húsnæðinu sem keypt var. Forsenda lánsins var kaupin á húsnæðinu. Áhættunni er deilt á sanngjarnan hátt með fyrrnefndri lagabreytingu.
Svo er annað atriði, að kostnaðurinn við að elta eignir og fé uppi í afganginn af skuldunum, þ.e. þegar búið er að taka húsnæðið, er í mörgum tilfellum meiri en ávinningurinn af því. Auk þess er nú ekki víst að fólk muni í umvörpum yfirgefa heimili sín ef það hefur á annað borð möguleika á því að vera þar áfram.

Þetta fyrirkomulag er ekkert nýtt. Í Bandaríkjunum, þar sem bankar og einkareknir íbúðalánasjóðir lánuðu til fasteignakaupa, hefur fyrrnefnt fyrirkomulag verið við lýði árum saman. Þetta er skynsamlegt fyrirkomulag, því lánastofnanir bera stærri hluta af áhættunni heldur en fólkið. Þetta gerir það einnig að verkum að sveiflur á fasteignamarkaði verða sársaukaminni fyrir almenning. Bankarnir fara í þrot í versta falli, en fólkið er ekki sett í nauðungarstöðu eins og verður staðan hér, ef ekkert verður að gert.

Fyrrnefnd breyting er ekki síst mikilvæg hér á landi vegna hinnar séríslensku verðtryggingar sem stjórnmálamenn í landinu hafa litið á sem sjálfsagðan hlut (Því miður þarf maður að taka það sérstaklega fram að Samfylkingarþingmenn eru líka í mengi "stjórnmálamanna". Þeir tóku við viðskipta- og félagsmálaráðuneytinu rétt áður en mesta eignabóla mannkynssögunnar náði hæsta punkti, og skiluðu svo þessum ráðuneytum af sér, úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, þegar allt var sprungið í tætlur. Það virðist full þörf á því að halda þessu til haga). Verðtryggingin hefur étið upp allar mánaðarlegar greiðslur fólks upp í húsnæðislán undanfarin þrjú ár, og að auki hefur hún valdið viðbótarmilljónum ofan á höfuðstól lána, þrátt fyrir greiðslurnar. Eini maðurinn sem ég veit um að er hrifinn af verðtryggingunni er Þorkell Helgason, fyrrverandi orkumálastjóri. Sá hinn sami og samdi kosningakerfið. Hann skrifaði grein til varnar verðtryggingunni í Moggann í vetur. Ég hef ekki fundið neinn annan.

Verðtryggingin getur líka orðið grunnurinn að því að neikvæð eiginfjárstaða verður varanleg staða hjá tugþúsundum Íslendinga út ævina, miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Breytingin á forsendum veðlána gerir það líka að verkum, að afskriftarumræðan, og útfærslan eftir atvikum, verður að mörgu leyti óþörf. Meiri þrýstingur myndast auk þess á lánastofnanir að létta greiðslubyrðina hjá fólki sem þarf á því að halda. Annaðhvort með afskriftum eða öðrum úrræðum. Nóg er að vita til þess að fólk verði ekki sett í gjaldþrot vegna húsnæðislána ríkisins og bankanna, sem hvoru tveggja brugðust almenningi í landinu svo ævintýralega að ekki eru nokkur dæmi um í þróuðu ríki á vesturlöndum eftir seinna stríð.

Saturday, June 20, 2009

Lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun

Í framhaldi af þessu.

Landsvirkjun og íslenska ríkið hafa gert með sér viðbúnaðarsamning til að róa greinendur lánshæfismatsfyrirtækja. Í honum felst að Seðlabanki Íslands er orðinn þrautavaralánveitandi fyrirtækisins. Bankinn leggur fyrirtækinu til allt að 300 milljónum dollara, gegn krónum eða skuldabréfum, komi til þess að fyrirtækið verði í vandræðum með að greiða vexti og afborganir af lánum. Samningurinn gildir til 1. júlí 2011.

Þrennt er nú einkum að valda vandræðum hjá Landsvirkjun. 1. Ekkert aðgengi að erlendu lánsfé, 2. hrun á hrávörumörkuðum sem hefur áhrif á álbransann, stærsta kúnna Landsvirkjunar, og 3. að íslenska ríkið eigi Landsvirkjun.
Hrun álbransans hefur leitt til þess að minni arðsemi hefur verið af sölu á raforku til álveranna en áður. Augljóst er að krafan um 11,9 prósent arðsemi eigin fjár vegna Kárahnjúkavirkjunar, sem var forsenda framkvæmdarinnar, er í uppnámi. Landsvirkjun endurmat arðsemina í byrjun árs í fyrra, þegar álverð var í hæstu hæðum, og var arðsemin þá reiknuð rúmlega 13 prósent. Forsendurnar fyrir endurmatinu, sem leiddu til hækkunar arðsemi, eru allar búnar að skolast burt og reyndar gott betur. Vandamál álbransans er stórt og mikið. Er því spáð að ekki muni ganga á birgðir, sem nema nú tæplega 4,5 milljónum tonna - sexfaldri ársframleiðslu á Íslandi - nema fyrr en framleiðslufyrirtæki hafa náð botninum. Ekkert bendir til þess að það hafi gerst.

Þó er það ekki svo, að viðskiptin séu botnlaust tap í augnablikinu. Landsvirkjun á um 90 milljónir dollara, 11,6 ma., í lausafé sem er dágóður slatti í því árferði sem nú ríkir. Þá hefur fyrirtækið haft til þess svigrúm til þess að borga niður skuldir. Þó ekki nema aðeins lítið brot af heildinni.
Skuldirnar eru kjarninn í áhyggjum matsfyrirtækja. Enda væri raforkusalan ævintýralega góður buisness ef Landsvirkjun skuldaði ekki neitt.

Í lok árs námu langtímaskuldir fyrirtækisins um 3 ma. dollara, eða sem nemur 383 milljörðum króna. Á bak við þessar skuldir eru hins vegar virkjanir og stöðugar tekjur til áratuga. Lánshæfismatsfyrirtækin hafa sagt íslenska ríkið vera ótrúverðugan eiganda fyrirtækisins í því árferði sem nú ríkir. Það muni ekki geta komið Landsvirkjun til bjargar ef allt fer á versta veg; þ.e. ef lánamarkaðir erlendis halda áfram að vera lokaðir fyrir Íslandi og öllu sem því tengist. Reyndar hefur Landsvirkjun aðgengi að 400 milljón dollara veltiláni til að mæta tímabundnum erfiðleikum við að nálgast dollara. Heimskreppan er hins vegar löngu búin sprengja skala yfir tímabundna erfiðleika, og ólíklegt að veltilánið muni ráða úrslitum ef lánamarkaðir verða varanlega lokaðir. Það mun smá saman þurrkast upp.

Því miður er það svo, að áhyggjur lánshæfismatsfyrirtækja eru á rökum reistar. Í versta falli gæti frekari lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar leitt til gjaldfellingar lána, eins og Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur bent á. Þá yrðu góð ráð dýr. 300 milljónirnar frá seðlabankanum myndu duga skammt á móti skuldum sem eru um tíu sinnum meiri. Þá kæmust bestu tekjustraumar á Íslandi í erlendri mynt í eigu erlendra banka. Þetta eru einfaldlega staðreyndir, og tengjast ekkert debate-inu um hvort auðlindir landsins geta verið í eigu útlendinga eða ekki, eins og Össur Skarphéðinsson hefur sagt. Veruleikinn er einfaldlega sá, að lánað var til Landsvirkjunar gegn veðum. Ríkisábyrgðin, sem áður var lykillinn að góðum lánakjörum - og þannig óbeint trygging fyrir reiknaðri arðsemi af orkusölunni - er nú orðin að helsta vanda Landsvirkjunar. Í næstum einni svipan.

Ég hef áður fjallað um hvers vegna það kann að vera óskynsamlegt að láta skattgreiðendur bera Landsvirkjun á herðum sínum. Ætla því ekki að gera það aftur.

En lausnin á þeim mikla vanda sem Landsvirkjun er í - hvað sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja út á við - kynni að vera sú að gera snöggar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar. Með því að selja það til lífeyrissjóðanna. Verðmiðinn; yfirtaka skulda. Sé horft til fyrri debate-a um virði Landsvirkjunar þá kann það verð að vera lágt. Hagsmunamatið er hins vegar það, að algjör nauðsyn er að tryggja stöðu Landsvirkjunar og fastra áratugalangra orkusölusamninga fyrirtækisins í erlendri mynt. Lífeyrissjóðirnir geta eignast fyrirtækið gegn þessu verði og greitt fyrir að hluta með því að færa erlendur eigur sínar heim, svo dæmi sé tekið. Í raun er Landsvirkjun "erlend" eign. Með efnahagsreikning að öllu leyti í dollurum þannig að ef menn hafa það sem prinsipp, að dreifa eignasafni lífeyrissjóða þannig að fyrirtæki sem byggja á erlendri mynt séu ákveðið hlutfall eignasafnsins, þá ætti það ekki að vera vandamál. Til framtíðar gæti þetta leitt til þess að áhrif orkusölunnar á fjárfestingastarfsemi í landinu yrði meiri en nú. Það hefur einmitt verið einn helsti galli þess að þjóðnýta orkusöluna til álvera, að margfeldisáhrifin á nýsköpun og fjárfestingar hafa ekki verið eins mikil og þau gætu verið. Fyrirvararnir eru vitaskuld þeir að arðsemin af orkusölunni haldist eða aukist- það er að lánakjör séu góð - við þessi eigendaskipti. Með þessu móti verður orkusalan áfram í eigu almennings en skuldir sem íslenska ríkið ábyrgist minnka. Hugsanlega væri hægt að grynnka verulega á skuldum Landsvirkjunar með því einfaldlega að borga hluta þeirra upp strax. Þetta gæti haft hliðaráhrif á traust erlendra banka á Íslandi, en meira um það síðar.

Íslenskir stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins hafa undanfarnar vikur setið sveittir við að greina þann gríðarlega vanda sem íslenskur efnahagur er í. Ég óttast að staða Landsvirkjunar hafi ekki verið greind ofan í kjölinn og um hana rætt út frá ólíkum sviðsmyndum. Ég reyndar veit að það hefur ekki verið gert, þar sem önnur atriði hafa haft forgang. Áður en menn taka ákvarðanir um að setja hundruðir milljarða af eignum lífeyrissjóða í byggingu húsa og vega, þá ættu menn að hugleiða eigendabreytingu á Landsvirkjun. Ég er viss um að það er þess virði. Og sú breyting myndi leysa ýmis vandamál, um leið og hagsmunir sjóðsfélaga lífeyrissjóða yrðu hafðir sem leiðarljós út úr vandanum.

Saturday, May 9, 2009

Time is ticking

Þetta birtist í Morgunblaðinu 2. apríl, og var tilvísun á miðopnu skýringu. Nú hefur Standard & Poor´s sett Landsvirkjun á athugunarlista og segir horfur fyrirtækisins neikvæðar. Þetta eru slæm tíðindi því Landsvirkjun þarf að endurfjármagna lán fyrir síðasta fjórðung næsta árs. Time is ticking.