Wednesday, August 26, 2009

"Greiðslugeta" og "veðrými"

Eins og við mátti búast er umræðan um afskriftir húsnæðislána, einkum þeirra sem bundin voru við dagsgengi erlendra mynta, komin að nýju á fullt skrið. Strax í kjölfar þess að bankarnir, mótaðilar tugþúsunda í húsnæðislánasamningunum, hrundu fór umræðan á fullt. Þá gátu stjórnmálamenn ekki leitt málið til lykta auk þess sem nýju bankarnir voru því sem næst óstarfhæfir. Þeir eru nú að fá tilverugrundvöll, þ.e. efnahagsreikning og mat á eignum og skuldum, sem hægt er að miða við í rekstrinum. Nokkur atriði þarf að skýra fyrir almenningi, til þess að mögulegt verði að, í það minnsta, nálgast sæmilegt jafnvægi í umræðu um þetta mál sem augljóslega er eitt það stærsta í Íslandssögunni.
1. Fjármagnseigendur fengu hjálp þegar hrunið varð, meðal annars með því að ráðherrar í ríkisstjórn, kjörnir fulltrúar, beittu sér fyrir því að peningagreiðslur frá ríkinu myndu renna í áhættufjárfestingasjóði bankanna. Þetta gerðu m.a. ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Þetta hefur nokkuð ítarlega verið rakið í Morgunblaðinu, og meðal annars birtar fundargerðir bankanna sem sýna bein afskipti ráðherra af þessum hlutum. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki sýnt málinu áhuga, nema þá helst blaðamenn DV sem hafa verið á góðu skriði að undanförnu. Álitamálið hvað þetta varðar, er vitaskuld jafnræðið. Hvers vegna var þetta gert, og hvers eiga þeir að gjalda sem ekki fengu aðstoð? Útvöld sveitarfélög og einstaklingar, fengu með þessu hjálp frá ríkinu sem öðrum bauðst ekki. Þetta mál er að öllu leyti vanreifað að hálfu stjórnmálamanna. Botn þarf að fást í þetta, helst fyrir dómi. Allt bendir til þess að þessi augljósa mismunun að hálfu ríkisins sé lögbrot. Ef svo er ekki, þá er hún vítaverð spilling, þar sem útvöldum hópi samfélagsins er veitt fjárhagsaðstoð á kostnað annarra þegna, í nær fordæmalausu fjárhagshruni þjóðarinnar.
2. Vegna þessarar augljósu mismununar, sem innspýtingin á ríkisfénu í peningamarkaðssjóðina er, þá þyngist krafa skuldara um aðgerðir. Spurningin; Af hverju er þeim bjargað en ekki mér? brennur á fólki (Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra DV, gerði frábærlega grein fyrir vanmætti stjórnmálamanna við að takast á við þessi mál í leiðara í gær). Í svarinu við þessari spurningu kemur fram krafan um leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána. Leiðréttingin byggist m.a. á því, að stjórnvaldsákvarðanir hafa verið teknir um að hjálpa útvöldum hópi með fjármunum skattgreiðenda. Á sama tíma hafa lán fólks hækkað, þau verðtryggðu um meira en 20 prósent en gengistryggðu lánin hafa meira tvöfaldast í sumum tilvikum.
3. Afskriftin kostar peninga, og IMF, sjóðurinn í brúnni, er á móti afskriftum. Um það hefur margoft verið upplýst, nú síðast af Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra. Mikil þörf er á því að fá niðurstöðu í það fyrir dómstólum hvort forsendubrestur hafi orðið í lánasamningum hjá fólki. Þó ekki nema fyrir þá augljósu ástæðu að viðsemjendur fólks, bankarnir, eru farnir á hausinn og lánasamningarnir hafa verið seldir á slikk til nýrra banka, sem ríkið kom á fót, án þess að mótaðilinn í samningunum, fólkið, hafi fengið nokkru um það ráðið. Þetta skapar augljóslega svigrúm til lækkunar á höfuðstólnum. (Því betur virðast bankarnir vera að útfæra þessar afskriftahugmyndir, eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Íslandsbanki þrýstir á um að málið verði sett á dagskrá og aðgerðir samræmdar). En bara það, að mögulegt sé að lækka - og þar með leiðrétta - höfuðstól lána er ekki nóg. Það þarf að taka ákvarðanir. Sporin sem ráðherrar í ríkisstjórn skilja eftir sig í þessum málum hræða. Fyrrnefndur Árni Páll sagði á dögunum, í uppsláttarfrétt á forsíðu Fréttablaðsins, að afskrifa ætti hluta af lánum þeirra sem væru "umfram greiðslugetu og veðrými". Þetta var meðhöndlað sem nokkur tíðindi af Fréttablaðinu og reyndar líka fréttastofu RÚV um tíma. Í reynd er þetta ekki-frétt. Auðvitað þarf að afskrifa hluta láns, sem ekki er mögulegt að fá til baka! Árni Páll er ekki að segja neitt annað en það. Og reyndar er það nú svo að þetta hugtak "veðrými" er svo vítt hér á landi, að vandséð er hvernig hægt er að komast í þá aðstöðu að fá afskrift nema að litlu leyti. Lögin gera ráð fyrir því að bankar, sem keypt hafa lánasamninga frá ónýtu bönkunum á afslætti, geti gengið að öðrum eignum en fasteigninni til þess að freista þess að ná upp í skuldir. Þeir hafa "rými" til þess í dag. Aðstæður í landinu hafa vitaskuld gjörbreyst þar sem fasteignaverð er að hrynja - hefur lækkað um 31 prósent frá því 2007 að raunvirði - en höfuðstóll lána hefur hækkað á móti. Þetta þýðir að hætta er á því að tugþúsundir verði sett varanlega í neikvæða eiginfjárstöðu, og hluti af þeim beint í gjaldþrot, ef engar ákvarðanir verða teknar. Meira síðar.

No comments: