Friday, August 28, 2009

Það er byrjað aftur...

Ég get ekki séð betur en að Reykjavíkurborg sé byrjuð aftur, á fullkomlega óréttlætanlegum lóðaúthlutunum. Lóðaverðið tekur mið af heildarkostnaði við uppbyggingu hverfa, líkt og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru að gera eftir að lánsfé flaut yfir íslenskan efnahag og sökkti honum að lokum. Þýðir að lóðakaupendur eru látnir borga fyrir göngubrýr, heildarkostnað við götumyndun, skólauppbyggingu og þess háttar þjónustu, sem nánast allir aðrir Reykvíkingar hafa greitt fyrir með útsvarsgreiðslum í gegnum áratugi. Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa sloppið vel í þeirri hörðu og réttlátu gagnrýni sem stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa reynt að svara fyrir. Sveitarstjórnarmenn útveguðu pláss undir einhverja mestu fasteignabólu sem myndast hefur nokkru sinni, með því skipta um aðferðarfræði þegar kemur að nýbyggingum og skipulagsvinnu. Hún felst í hinu fyrrnefnda; að láta lóðakaupendur standa undir heildaruppbygginu nýrra hverfa. Þetta hafði tvær alvarlegar afleiðingar. a) Grunnkostnaður við byggingu húsnæðis hækkaði mikið og leiddi því til beinnar hækkunar á húsnæði. b) Ný markmið voru sett um hraða uppbyggingu hverfa, sem leiddi til mikillar þenslu sem byggði öðru fremur á lántökum, lóðakaupenda annars vegar og svo hins opinbera hinsvegar. Ekki síst vegna lagningu veitulagna og raflína. Auk leiddi þessi mikli uppbyggingarhraði til þess að greining á húsnæðisþörf varð verri. Að lokum standa eftir tóm hverfi.

Ef það á virkilega að vera þannig - núna - eftir að mesta efnhagsbóla allra tíma sprakk í loft upp - m.a. vegna þess hvernig hið opinbera og bankarnir blésu í fasteignabóluna - að lóðir eigi að seljast á grunni þess að lóðakaupendur borgi beint fyrir skóla, sundlaugar, göngubrýr og aðra þjónustu í nýjum hverfum, þá hafa sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ekkert lært. Reyndar hefur borið á því að sveitarstjórnarmenn í sumum sveitarfélögum, einkum Seltjarnesbæ og Garðabæ, stæri sig af því að ávinningurinn af sölu á byggingarrétti fullkomlega tómra hverfa sé núna inn á bankabók. Þetta á meðal annars við um Hrólfskálamelssvæðið á Seltjarnesi, þar sem lúxusíbúðablokk er inn í miðjum kjarna bæjarins. ÍAV greiddi tæplega 1,5 milljarða fyrir. Ein kona bjó síðast þegar ég vissi í fjölbýlishúsinu, Hildur Guðmundsdóttir. Skuldir ÍAV hins vegar, vegna þess láns sem fyrirtækið tók til að greiða Seltjarnesbæ fyrir byggingarréttinn hafa verið þjóðnýttar eftir hrunið. Skattborgarar sitja því uppi með þetta tóma hverfi á Seltjarnarnesi, þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn á Seltjarnesi geti ráðstafað þeim peningum sem ÍAV tók að láni. Reyndar eru skuldir ÍAV vegna þessa svæðis miklu hærri en 1,5 milljarðar þar sem lánið var upphaflega í erlendri mynt. Ályktunin sem af þessu má draga er eftirfarandi, í einföldum orðum; tóm hverfi eru þjóðhagslega óhagkvæm, alltaf, og að lokum lendir kostnaðurinn við að halda hverfunum úti, þ.e. að reka lagnir, rafmagn og þjónustu, á skattgreiðendum. Það sama má segja um Urriðaholt í Garðabæ, þar sem skuldir einkafyrirtækis vegna uppbyggingar í hverfinu hafa verið þjóðnýttar. Þær eru nú umtalsvert hærri en sem nemur þeim ávinningi sem Garðabær hefur stært sig af, og hefur til ráðstöfunar inn á bók.

No comments: