Friday, August 21, 2009

Vörn gegn landflóttanum

Landflóttinn, sem var óumflýjanlegur, er hafinn. Margir hafa nefnt að kreppan í Færeyjum, þegar 20 til 25 prósent íbúa fluttu frá eyjunum, ætti að vera víti til þess að varast. Ísland er að mörgu leyti í verri stöðu, þar sem það er fyrst og fremst millistéttin sem er að fara úr landi. Iðn- og háskólamenntað fólk sem getur fengið tækifæri í öðru landi sem býðst ekki hér, vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins.

Að mínu mati er eitt áhrifamesta tækið sem stjórnmálamenn hafa til þess að sporna gegn þróuninni, eitthvað sem of lítið hefur verið rætt um. Það er að lögfesta, með lagabreytingu, að lánastofnanir geti aðeins gengið að húsnæði fólks vegna fasteignaveðlána. Eins og staðan er í dag geta lánastofnanir strípað fólk af eignum og fé uppi í skuldir.

Gallarnir við þetta eru þeir, að hugsanlegt er að einhverjir muni skila lyklunum af heimilum sínum sem ráða við af greiða af lánum sínum. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til hraðara verðfalls á húsnæði. En þar með eru gallarnir upptaldir.

Kostirnir eru þeir að fólk er ekki sett í tugþúsundavís í gjaldþrot, eða neikvæða eiginfjárstöðu í áratugi. Fólk hefur það úrræði að skila inn lyklunum ef það telur sig ekki geta greitt áfram vegna stöðu sinnar. Í sjálfu sér er ekki um mikla breytingu að ræða. Hinir gjaldþrota bankar, og Íbúðalánasjóður stjórnvalda - höfundar mestu húsnæðisbólu mannkynssögunnar - lánuðu til fasteignakaupa öðru fremur með veði í húsnæðinu sem keypt var. Forsenda lánsins var kaupin á húsnæðinu. Áhættunni er deilt á sanngjarnan hátt með fyrrnefndri lagabreytingu.
Svo er annað atriði, að kostnaðurinn við að elta eignir og fé uppi í afganginn af skuldunum, þ.e. þegar búið er að taka húsnæðið, er í mörgum tilfellum meiri en ávinningurinn af því. Auk þess er nú ekki víst að fólk muni í umvörpum yfirgefa heimili sín ef það hefur á annað borð möguleika á því að vera þar áfram.

Þetta fyrirkomulag er ekkert nýtt. Í Bandaríkjunum, þar sem bankar og einkareknir íbúðalánasjóðir lánuðu til fasteignakaupa, hefur fyrrnefnt fyrirkomulag verið við lýði árum saman. Þetta er skynsamlegt fyrirkomulag, því lánastofnanir bera stærri hluta af áhættunni heldur en fólkið. Þetta gerir það einnig að verkum að sveiflur á fasteignamarkaði verða sársaukaminni fyrir almenning. Bankarnir fara í þrot í versta falli, en fólkið er ekki sett í nauðungarstöðu eins og verður staðan hér, ef ekkert verður að gert.

Fyrrnefnd breyting er ekki síst mikilvæg hér á landi vegna hinnar séríslensku verðtryggingar sem stjórnmálamenn í landinu hafa litið á sem sjálfsagðan hlut (Því miður þarf maður að taka það sérstaklega fram að Samfylkingarþingmenn eru líka í mengi "stjórnmálamanna". Þeir tóku við viðskipta- og félagsmálaráðuneytinu rétt áður en mesta eignabóla mannkynssögunnar náði hæsta punkti, og skiluðu svo þessum ráðuneytum af sér, úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, þegar allt var sprungið í tætlur. Það virðist full þörf á því að halda þessu til haga). Verðtryggingin hefur étið upp allar mánaðarlegar greiðslur fólks upp í húsnæðislán undanfarin þrjú ár, og að auki hefur hún valdið viðbótarmilljónum ofan á höfuðstól lána, þrátt fyrir greiðslurnar. Eini maðurinn sem ég veit um að er hrifinn af verðtryggingunni er Þorkell Helgason, fyrrverandi orkumálastjóri. Sá hinn sami og samdi kosningakerfið. Hann skrifaði grein til varnar verðtryggingunni í Moggann í vetur. Ég hef ekki fundið neinn annan.

Verðtryggingin getur líka orðið grunnurinn að því að neikvæð eiginfjárstaða verður varanleg staða hjá tugþúsundum Íslendinga út ævina, miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Breytingin á forsendum veðlána gerir það líka að verkum, að afskriftarumræðan, og útfærslan eftir atvikum, verður að mörgu leyti óþörf. Meiri þrýstingur myndast auk þess á lánastofnanir að létta greiðslubyrðina hjá fólki sem þarf á því að halda. Annaðhvort með afskriftum eða öðrum úrræðum. Nóg er að vita til þess að fólk verði ekki sett í gjaldþrot vegna húsnæðislána ríkisins og bankanna, sem hvoru tveggja brugðust almenningi í landinu svo ævintýralega að ekki eru nokkur dæmi um í þróuðu ríki á vesturlöndum eftir seinna stríð.

2 comments:

Anonymous said...

Frumvarp um það sem þú talar um hefur nú þegar verið lagt fram og liggur nú í allherjarnefnd Alþingis. Sjá hér.

Annars leyfi ég mér að efast um að Færeyjar séu sambærilegt dæmi við Ísland. Atvinnuvegirnir hér eru þrátt fyrir allt miklu fjölbreyttari en þeir voru þar.

Anonymous said...

Áfram með smjörið. Þetta þarf þá að keyra í gegn. kv MH