Thursday, March 12, 2009

Vonandi

Rannsóknarnefnd Alþingis ætlar að kanna tengsl eigenda fjölmiðla við starfsmenn fjölmiðlafyrirtækja. Þar á meðal blaðamenn, og sérstaklega hvort þeir kunni að hafa fengið einhverja fjárhagslega fyrirgreiðslu frá eigendunum. Það er gott að rannsóknarnefndin rannsaki þetta. Það er nauðsynlegt. Ég held að það hafi tekist vel upp með það hvernig rannsóknarnefndin er mönnuð.

Vonandi mun nefndin einnig skoða tengsl Ríkisútvarpsins við þá stjórnmálaflokka sem stýrðu landinu á síðustu árum - Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn þá helst. Ef það kemur í ljós að RÚV hafi ekki notið algers sjálfstæðis þegar kemur að mannaráðningum, t.d. þegar var verið að ráða fólk til þess að segja fréttir, þá er það auðvitað áfall og nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að það gerist ekki aftur. Það er ekki lítið mál þegar ríkisútvarpið, eini fjölmiðillinn sem er skilyrðislaust í eigu almennings og því með innbyggt nánast 100 prósent traust, er misnotað pólitískt. Það hafa lengi verið uppi grunsemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn væri með puttann í því að ráða fólk til að segja fréttir. Fyrrverandi starfsmenn RÚV hafa greint frá þessu opinberlega. Ritgerð sem Ólafur Helgi Kristinsson prófessor birti í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla 2006, sýnir meðal annars að 52 prósent starfsmanna RÚV (bls. 26) voru á því að ekki væri vandað til ráðninga og ekki "fyllstu hlutlægni gætt". Ólafur Helgi segir í ritgerðinni að svo virðist sem stjórnmálamenn álíti það mikilvægt að vera með "pólitískt tangarhald" á RÚV. Það þarf að komast til botns í þessu. Nú er lag.

No comments: