Thursday, March 19, 2009
"Margt hefur breyst"
Eins og alltaf þegar og ævintýraleg offjárfesting á fasteignamarkaði er gagnrýnd, grípa einhverjir til varna. Í fréttatilkynningu frá félaga meistara-iðnnema í Hafnarfirði segir meðal annars: "Mánudaginn 16. mars birtist grein í Mbl. þar sem stuðst var við talningu Ara Skúlasonar sem er frá mánaðamótum júní/júlí 2008. MIH telur alveg fráleitt að svo gömul talning stýri umræðunni um stöðu íbúðamarkaðarins. Margt hefur breyst á þeim tæplega níu mánuðum sem liðnir eru." Þetta er alveg rétt hjá MIH. Þessar tölur stýra ekki umræðunni, og gerðu það alls ekki í Morgunblaðinu. En þær eru nákvæmasta rannsókn sem gerð hefur verið á markaðnum, og til þess að varpa ljósi á hvernig staðan var áður en mestu efnahagshremmingar Íslandssögunnar gengu yfir, eru þær góð heimild. Það sem hefur í megindráttum gerst í millitíðinni er 1. að bankakerfi landsins, sem var tíu sinnum stærra en landsframleiðsla, hrundi í heild sinni á einni viku. 2. Lánsfjármarkaðir lokuðust og 3. gjaldmiðillinn, krónan, hætti að vera markaðsvara og er aðeins varin algjöru hruni með gjaldeyrishöftum. Þessu hefur fylgt nánast fordæmalaus breyting á atvinnumarkaði til hins verra og almenn óvissa um rekstur fyrirtækja. Hvort að þetta er breyting til batnaðar eða til hins verra verður hver og einn að meta. Og ef það er mat einhvers, að um þessa alvarlegu stöðu - sem augljóslega er á fasteignamarkaði - megi ekki tala þá verður sá að eiga það við sjálfan sig. Ég held að flestir séu sammála um að tími alltof lítillar gagnrýni á offjárfestingar á Íslandi - meðal annars á fasteignamarkaði - sé liðinn. Ég er að minnsta kosti á því að hann sé það.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment