Monday, March 2, 2009

Topp tíu: Kreppan endurvekur

Topp tíu yfir atriði sem kreppan getur endurvakið til lífs:
1. Sveitaböllin. - Sé fyrir mér þéttsetna Ýdali. Helgi Björns. "Mér finnst rigningin góð..."
2. Þungarokkið. - Kreppan fær menn til að hlusta á skilyrðislaust þungarokk. Sepultura kemur upp í hugann.
3. Landsbyggðina. - Höfuðborgarsvæðisbólan er náttúrulega sprungin. Um að gera að fara út á land, sem lengst og oftast. Þar er landsframleiðsla á mann miklu meiri en hér. Það er til dæmis ekkert sérstaklega mikil landsframleiðsla í Úlfarsárdal.
4. Landsmótin, með öllu tilheyrandi. - Keppt í pönnukökubakstri og þrautum á Traktor. Kreppa í því.
5. Ungmennafélögin. - Allir krakkar æfa frjálsar. Ég ætla ekki að útskýra af hverju það er kreppa í því. Þetta er meira svona huglægt mat hjá mér.
6. Fjöruhlaup. - Engin yfirbyggð knattspyrnuhús. Bara fjaran, hvernig sem viðrar.
7. Pajero og Patrol. - Einu sinni voru þetta flottustu jepparnir. Vaxtamunarviðskiptin færðu okkur mörg hundruð Range Rover-a, og Audi jeppa og BMW-jeppa.
8. Gildi þess að standa á sveitajörðum, óháð því hvað þær kostuðu þegar Jóhannes í Fons keypti þær. - Verðmæti sveitajarða má helst ekki berast í tal aftur. Sumt verður ekki metið til fjár.
9. Rútuferðir milli landshluta. - Frábær skemmtun. Staðarskáli er Ísland, og það allt. Örnefni og hvar er maðurinn. Jafnvel Sjálfstætt fólk og Góði dátinn Sveijk.
10. Skiptimarkaðir. - Notuð gasgrill, skíði og skór. Allir á markaðina. Habitat er í sölumeðferð. Sem er ellefta orðið á listanum.

No comments: