Friday, August 28, 2009

Það er byrjað aftur...

Ég get ekki séð betur en að Reykjavíkurborg sé byrjuð aftur, á fullkomlega óréttlætanlegum lóðaúthlutunum. Lóðaverðið tekur mið af heildarkostnaði við uppbyggingu hverfa, líkt og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru að gera eftir að lánsfé flaut yfir íslenskan efnahag og sökkti honum að lokum. Þýðir að lóðakaupendur eru látnir borga fyrir göngubrýr, heildarkostnað við götumyndun, skólauppbyggingu og þess háttar þjónustu, sem nánast allir aðrir Reykvíkingar hafa greitt fyrir með útsvarsgreiðslum í gegnum áratugi. Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa sloppið vel í þeirri hörðu og réttlátu gagnrýni sem stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa reynt að svara fyrir. Sveitarstjórnarmenn útveguðu pláss undir einhverja mestu fasteignabólu sem myndast hefur nokkru sinni, með því skipta um aðferðarfræði þegar kemur að nýbyggingum og skipulagsvinnu. Hún felst í hinu fyrrnefnda; að láta lóðakaupendur standa undir heildaruppbygginu nýrra hverfa. Þetta hafði tvær alvarlegar afleiðingar. a) Grunnkostnaður við byggingu húsnæðis hækkaði mikið og leiddi því til beinnar hækkunar á húsnæði. b) Ný markmið voru sett um hraða uppbyggingu hverfa, sem leiddi til mikillar þenslu sem byggði öðru fremur á lántökum, lóðakaupenda annars vegar og svo hins opinbera hinsvegar. Ekki síst vegna lagningu veitulagna og raflína. Auk leiddi þessi mikli uppbyggingarhraði til þess að greining á húsnæðisþörf varð verri. Að lokum standa eftir tóm hverfi.

Ef það á virkilega að vera þannig - núna - eftir að mesta efnhagsbóla allra tíma sprakk í loft upp - m.a. vegna þess hvernig hið opinbera og bankarnir blésu í fasteignabóluna - að lóðir eigi að seljast á grunni þess að lóðakaupendur borgi beint fyrir skóla, sundlaugar, göngubrýr og aðra þjónustu í nýjum hverfum, þá hafa sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ekkert lært. Reyndar hefur borið á því að sveitarstjórnarmenn í sumum sveitarfélögum, einkum Seltjarnesbæ og Garðabæ, stæri sig af því að ávinningurinn af sölu á byggingarrétti fullkomlega tómra hverfa sé núna inn á bankabók. Þetta á meðal annars við um Hrólfskálamelssvæðið á Seltjarnesi, þar sem lúxusíbúðablokk er inn í miðjum kjarna bæjarins. ÍAV greiddi tæplega 1,5 milljarða fyrir. Ein kona bjó síðast þegar ég vissi í fjölbýlishúsinu, Hildur Guðmundsdóttir. Skuldir ÍAV hins vegar, vegna þess láns sem fyrirtækið tók til að greiða Seltjarnesbæ fyrir byggingarréttinn hafa verið þjóðnýttar eftir hrunið. Skattborgarar sitja því uppi með þetta tóma hverfi á Seltjarnarnesi, þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn á Seltjarnesi geti ráðstafað þeim peningum sem ÍAV tók að láni. Reyndar eru skuldir ÍAV vegna þessa svæðis miklu hærri en 1,5 milljarðar þar sem lánið var upphaflega í erlendri mynt. Ályktunin sem af þessu má draga er eftirfarandi, í einföldum orðum; tóm hverfi eru þjóðhagslega óhagkvæm, alltaf, og að lokum lendir kostnaðurinn við að halda hverfunum úti, þ.e. að reka lagnir, rafmagn og þjónustu, á skattgreiðendum. Það sama má segja um Urriðaholt í Garðabæ, þar sem skuldir einkafyrirtækis vegna uppbyggingar í hverfinu hafa verið þjóðnýttar. Þær eru nú umtalsvert hærri en sem nemur þeim ávinningi sem Garðabær hefur stært sig af, og hefur til ráðstöfunar inn á bók.

Wednesday, August 26, 2009

"Greiðslugeta" og "veðrými"

Eins og við mátti búast er umræðan um afskriftir húsnæðislána, einkum þeirra sem bundin voru við dagsgengi erlendra mynta, komin að nýju á fullt skrið. Strax í kjölfar þess að bankarnir, mótaðilar tugþúsunda í húsnæðislánasamningunum, hrundu fór umræðan á fullt. Þá gátu stjórnmálamenn ekki leitt málið til lykta auk þess sem nýju bankarnir voru því sem næst óstarfhæfir. Þeir eru nú að fá tilverugrundvöll, þ.e. efnahagsreikning og mat á eignum og skuldum, sem hægt er að miða við í rekstrinum. Nokkur atriði þarf að skýra fyrir almenningi, til þess að mögulegt verði að, í það minnsta, nálgast sæmilegt jafnvægi í umræðu um þetta mál sem augljóslega er eitt það stærsta í Íslandssögunni.
1. Fjármagnseigendur fengu hjálp þegar hrunið varð, meðal annars með því að ráðherrar í ríkisstjórn, kjörnir fulltrúar, beittu sér fyrir því að peningagreiðslur frá ríkinu myndu renna í áhættufjárfestingasjóði bankanna. Þetta gerðu m.a. ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Þetta hefur nokkuð ítarlega verið rakið í Morgunblaðinu, og meðal annars birtar fundargerðir bankanna sem sýna bein afskipti ráðherra af þessum hlutum. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki sýnt málinu áhuga, nema þá helst blaðamenn DV sem hafa verið á góðu skriði að undanförnu. Álitamálið hvað þetta varðar, er vitaskuld jafnræðið. Hvers vegna var þetta gert, og hvers eiga þeir að gjalda sem ekki fengu aðstoð? Útvöld sveitarfélög og einstaklingar, fengu með þessu hjálp frá ríkinu sem öðrum bauðst ekki. Þetta mál er að öllu leyti vanreifað að hálfu stjórnmálamanna. Botn þarf að fást í þetta, helst fyrir dómi. Allt bendir til þess að þessi augljósa mismunun að hálfu ríkisins sé lögbrot. Ef svo er ekki, þá er hún vítaverð spilling, þar sem útvöldum hópi samfélagsins er veitt fjárhagsaðstoð á kostnað annarra þegna, í nær fordæmalausu fjárhagshruni þjóðarinnar.
2. Vegna þessarar augljósu mismununar, sem innspýtingin á ríkisfénu í peningamarkaðssjóðina er, þá þyngist krafa skuldara um aðgerðir. Spurningin; Af hverju er þeim bjargað en ekki mér? brennur á fólki (Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra DV, gerði frábærlega grein fyrir vanmætti stjórnmálamanna við að takast á við þessi mál í leiðara í gær). Í svarinu við þessari spurningu kemur fram krafan um leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána. Leiðréttingin byggist m.a. á því, að stjórnvaldsákvarðanir hafa verið teknir um að hjálpa útvöldum hópi með fjármunum skattgreiðenda. Á sama tíma hafa lán fólks hækkað, þau verðtryggðu um meira en 20 prósent en gengistryggðu lánin hafa meira tvöfaldast í sumum tilvikum.
3. Afskriftin kostar peninga, og IMF, sjóðurinn í brúnni, er á móti afskriftum. Um það hefur margoft verið upplýst, nú síðast af Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra. Mikil þörf er á því að fá niðurstöðu í það fyrir dómstólum hvort forsendubrestur hafi orðið í lánasamningum hjá fólki. Þó ekki nema fyrir þá augljósu ástæðu að viðsemjendur fólks, bankarnir, eru farnir á hausinn og lánasamningarnir hafa verið seldir á slikk til nýrra banka, sem ríkið kom á fót, án þess að mótaðilinn í samningunum, fólkið, hafi fengið nokkru um það ráðið. Þetta skapar augljóslega svigrúm til lækkunar á höfuðstólnum. (Því betur virðast bankarnir vera að útfæra þessar afskriftahugmyndir, eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Íslandsbanki þrýstir á um að málið verði sett á dagskrá og aðgerðir samræmdar). En bara það, að mögulegt sé að lækka - og þar með leiðrétta - höfuðstól lána er ekki nóg. Það þarf að taka ákvarðanir. Sporin sem ráðherrar í ríkisstjórn skilja eftir sig í þessum málum hræða. Fyrrnefndur Árni Páll sagði á dögunum, í uppsláttarfrétt á forsíðu Fréttablaðsins, að afskrifa ætti hluta af lánum þeirra sem væru "umfram greiðslugetu og veðrými". Þetta var meðhöndlað sem nokkur tíðindi af Fréttablaðinu og reyndar líka fréttastofu RÚV um tíma. Í reynd er þetta ekki-frétt. Auðvitað þarf að afskrifa hluta láns, sem ekki er mögulegt að fá til baka! Árni Páll er ekki að segja neitt annað en það. Og reyndar er það nú svo að þetta hugtak "veðrými" er svo vítt hér á landi, að vandséð er hvernig hægt er að komast í þá aðstöðu að fá afskrift nema að litlu leyti. Lögin gera ráð fyrir því að bankar, sem keypt hafa lánasamninga frá ónýtu bönkunum á afslætti, geti gengið að öðrum eignum en fasteigninni til þess að freista þess að ná upp í skuldir. Þeir hafa "rými" til þess í dag. Aðstæður í landinu hafa vitaskuld gjörbreyst þar sem fasteignaverð er að hrynja - hefur lækkað um 31 prósent frá því 2007 að raunvirði - en höfuðstóll lána hefur hækkað á móti. Þetta þýðir að hætta er á því að tugþúsundir verði sett varanlega í neikvæða eiginfjárstöðu, og hluti af þeim beint í gjaldþrot, ef engar ákvarðanir verða teknar. Meira síðar.

Tuesday, August 25, 2009

Þáttastjórnandinn Björn Bjarnason

Ég tók mig til í gær og horfði á fyrsta þátt Björns Bjarnasonar á ÍNN, frá 19.ágúst, þar sem hann spjallaði við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Björn er skínandi góður spyrill og mér finnst þetta hlutverk henta honum vel. Einhver kann að hafa fundið fyrir því að Björn hafi verið óskaplega hrifinn af verkum Hönnu Birnu, og ekki haldið hlutleysi sínu þannig sem pólitískur samherji, en það truflaði mig ekkert. Hver hefur sinn stíl í þessu. Þetta var yfirvegað og upplýsandi viðtal. Vonandi tekur Björn smá áhættu í þessum þáttum í framtíðinni og fær til sín pólitíska andstæðinga, og spyr þá spjörunum úr. Það gæti orðið athyglisvert.

Friday, August 21, 2009

Vörn gegn landflóttanum

Landflóttinn, sem var óumflýjanlegur, er hafinn. Margir hafa nefnt að kreppan í Færeyjum, þegar 20 til 25 prósent íbúa fluttu frá eyjunum, ætti að vera víti til þess að varast. Ísland er að mörgu leyti í verri stöðu, þar sem það er fyrst og fremst millistéttin sem er að fara úr landi. Iðn- og háskólamenntað fólk sem getur fengið tækifæri í öðru landi sem býðst ekki hér, vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins.

Að mínu mati er eitt áhrifamesta tækið sem stjórnmálamenn hafa til þess að sporna gegn þróuninni, eitthvað sem of lítið hefur verið rætt um. Það er að lögfesta, með lagabreytingu, að lánastofnanir geti aðeins gengið að húsnæði fólks vegna fasteignaveðlána. Eins og staðan er í dag geta lánastofnanir strípað fólk af eignum og fé uppi í skuldir.

Gallarnir við þetta eru þeir, að hugsanlegt er að einhverjir muni skila lyklunum af heimilum sínum sem ráða við af greiða af lánum sínum. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til hraðara verðfalls á húsnæði. En þar með eru gallarnir upptaldir.

Kostirnir eru þeir að fólk er ekki sett í tugþúsundavís í gjaldþrot, eða neikvæða eiginfjárstöðu í áratugi. Fólk hefur það úrræði að skila inn lyklunum ef það telur sig ekki geta greitt áfram vegna stöðu sinnar. Í sjálfu sér er ekki um mikla breytingu að ræða. Hinir gjaldþrota bankar, og Íbúðalánasjóður stjórnvalda - höfundar mestu húsnæðisbólu mannkynssögunnar - lánuðu til fasteignakaupa öðru fremur með veði í húsnæðinu sem keypt var. Forsenda lánsins var kaupin á húsnæðinu. Áhættunni er deilt á sanngjarnan hátt með fyrrnefndri lagabreytingu.
Svo er annað atriði, að kostnaðurinn við að elta eignir og fé uppi í afganginn af skuldunum, þ.e. þegar búið er að taka húsnæðið, er í mörgum tilfellum meiri en ávinningurinn af því. Auk þess er nú ekki víst að fólk muni í umvörpum yfirgefa heimili sín ef það hefur á annað borð möguleika á því að vera þar áfram.

Þetta fyrirkomulag er ekkert nýtt. Í Bandaríkjunum, þar sem bankar og einkareknir íbúðalánasjóðir lánuðu til fasteignakaupa, hefur fyrrnefnt fyrirkomulag verið við lýði árum saman. Þetta er skynsamlegt fyrirkomulag, því lánastofnanir bera stærri hluta af áhættunni heldur en fólkið. Þetta gerir það einnig að verkum að sveiflur á fasteignamarkaði verða sársaukaminni fyrir almenning. Bankarnir fara í þrot í versta falli, en fólkið er ekki sett í nauðungarstöðu eins og verður staðan hér, ef ekkert verður að gert.

Fyrrnefnd breyting er ekki síst mikilvæg hér á landi vegna hinnar séríslensku verðtryggingar sem stjórnmálamenn í landinu hafa litið á sem sjálfsagðan hlut (Því miður þarf maður að taka það sérstaklega fram að Samfylkingarþingmenn eru líka í mengi "stjórnmálamanna". Þeir tóku við viðskipta- og félagsmálaráðuneytinu rétt áður en mesta eignabóla mannkynssögunnar náði hæsta punkti, og skiluðu svo þessum ráðuneytum af sér, úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, þegar allt var sprungið í tætlur. Það virðist full þörf á því að halda þessu til haga). Verðtryggingin hefur étið upp allar mánaðarlegar greiðslur fólks upp í húsnæðislán undanfarin þrjú ár, og að auki hefur hún valdið viðbótarmilljónum ofan á höfuðstól lána, þrátt fyrir greiðslurnar. Eini maðurinn sem ég veit um að er hrifinn af verðtryggingunni er Þorkell Helgason, fyrrverandi orkumálastjóri. Sá hinn sami og samdi kosningakerfið. Hann skrifaði grein til varnar verðtryggingunni í Moggann í vetur. Ég hef ekki fundið neinn annan.

Verðtryggingin getur líka orðið grunnurinn að því að neikvæð eiginfjárstaða verður varanleg staða hjá tugþúsundum Íslendinga út ævina, miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Breytingin á forsendum veðlána gerir það líka að verkum, að afskriftarumræðan, og útfærslan eftir atvikum, verður að mörgu leyti óþörf. Meiri þrýstingur myndast auk þess á lánastofnanir að létta greiðslubyrðina hjá fólki sem þarf á því að halda. Annaðhvort með afskriftum eða öðrum úrræðum. Nóg er að vita til þess að fólk verði ekki sett í gjaldþrot vegna húsnæðislána ríkisins og bankanna, sem hvoru tveggja brugðust almenningi í landinu svo ævintýralega að ekki eru nokkur dæmi um í þróuðu ríki á vesturlöndum eftir seinna stríð.