.jpg)
Þetta var ekki eini sigur Maradona á Úrúgvæ, fjarri því. Í júlímánuði árið 1971 mætti 14-landslið Argentínu liði Úrúgvæ í höfuðborginni Montevideo. Þar fór fram keppni ungliðaliðanna frá Suður-Ameríku. Þarna voru samankomnir hæfileikaríkustu 14 ára drengir álfunnar. Fyrir keppnina höfðu verið settar reglur um að liðin mættu aðeins vera skipuð leikmönnum á 14anda aldursári. Reglurnar voru sniðnar að því að koma í veg fyrir þátttöku Maradona í mótinu. Hann var þá 10 ára að verða 11, 30. október. Hæfileikar hans höfðu þá þegar spurst út fyrir landamæri Argentínu og yfirleitt voru vellirnir í fátækrarhverfum í Bounes Aires, þar sem Maradona átti heima, umkringdir áhorfendum þegar hann lék lystir sínar.
Þjálfara argentíska liðsins tókst að smygla Maradona með í liðið undir dulnefni. Hann byrjaði þó ekki inn á. Flautað var til leiks. Argentínumenn áttu í vök að verjast gegn sprækum Úrúgvæum. Staðan í hálfleik var 2-0 heimamönnum í vil. Þegar komið var fram í seinni hálfleik voru góð ráð dýr. Þjálfarinn hóaði í Maradona. Hann kom inn og slátraði liði Úrúgvæa með sex einleiksmörkum. Leikurinn endaði 3-6.
Þjálfari Úrúgvæa sagði eftir leikinn að hann hefði aldrei séð annað eins. Hann hefði ekki haft í sér að láta stöðva leikinn þó hann hafi vitað mæta vel að þarna hefði Maradona verið á ferð og hinar umdeildu reglu verið brotnar. Þjálfari Brasilíu, sem var áhorfandi að leiknum, varð hins vegar æfur og krafðist þess að Maradona yrði rekinn úr mótinu.
Eftir mikið fjaðrafok og rifrildi varð það ofan á Maradona fengi að spila með Argentínu en aðeins annan hálfleikinn í hverjum leik. Úrslitaleikur mótsins var gegn Brasilíu. Eins og ævinlega voru Argentínumenn undir í fyrri hálfleik en leikurinn kúventist með innkomu Maradona í síðari hálfleik. Brasilíumenn réðu ekkert við hraða og leikni Maradona. Hann tryggði Argentínu sigur á Brasilíu með fjórum mörkum, öll upp á eigin spýtur eingöngu. Þjálfari Brasilíu var æfur eftir leik og sagði þetta svindl. Maradona væri alls ekki 14 ára.
Heimild: The Hand of God eftir Jimmy Burns og pistlar sem skrifaðir hafa verið um hann í erlend blöð. Bók sem eingöngu var unnin með samtölum við samferðamenn Maradona þar sem hann sjálfur neitaði höfundinum um viðtal. Bókin er margverðlaunuð, en um leið umdeild. Maradona gaf sjálfur út hina hörmulegu El Diego nokkru eftir The Hand of God. Að því er virðist til þess að reyna að leiðrétta það sem honum líkaði ekki við í bók Burns. Sérstaklega fóru kaflar í bókinni um leti Maradona á æfingum í taugarnar á honum. Rakið er nákvæmlega í bókinni hvernig ferill Maradona fór út um þúfur eftir því sem kókaínfíkn hans dýpkaði. Hann æfði lítið sem ekkert með Napoli eftir vormánuði 1988, þegar tímabilinu 1987-1988 lauk. Hann var þó á þeim tíma, langbesti knattspyrnumaður heims. Hélt þeim status í raun fram að HM á Ítalíu 1990. Þá fór Matthaus að gera sig gildandi. Eflaust mun enginn leika það eftir þegar Maradona fór til smáliðs Napoli á Ítalíu og breytti því í besta félagslið heims á innan við þremur árum. Menn eins og Zidane, standa enn á gati yfir hæfileikum hans.
Hér er ágætt The Best of Maradona myndband. Mæli sérstaklega með ótrúlegu "tötsi" (4 mín og 17 sek búnar) í leik gegn AC Milan, þar sem hin fræga varnarlína Milan liðsins er yfirbuguð.