Tuesday, April 14, 2009

Fasteignaverðið undirstaðan

Það var ágætt viðtal hjá Jay Leno við John McCain á dögunum, sem sýnt var á Skjá einum í kvöld. Þar spurði Leno út í efnahagsvandann og hvort hann treysti Obama til þess að leysa hann. McCain sagði: "Ég geri það, og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hann geri það. Þó ég sé ósammála honum um margt." Þetta var heiðarleg nálgun hjá McCain og auðvitað rétt við þær aðstæður sem eru í landinu. Hann veit, að þverpólitísk samheldni er það eina sem getur hjálpað Bandaríkjamönnum út úr vandanum. Íslenskir stjórnmálamenn mættu hafa það bak við eyrað nú þegar gjaldmiðillinn er ekki lengur markaðsvara og 80 prósent fyrirtækja í landinu eru með neikvætt eigið fé, það er tæknilega gjaldþrota.

Greiningin hjá McCain var líka skörp. Hann sagði augljóst að efnahagur Bandaríkjanna, og heimsins, muni ekki batna fyrr en stöðugleiki einkennir fasteignamarkaði. Hann var ekki tilbúinn að spá neinu um bata en sagði augljóst að viðspyrna yrði ekki almennileg, fyrr en fasteignaverðið hætti að lækka. Þar hefðu vandamálin byrjað og þar myndu þau leysast endanlega.

Þetta þurfa menn að hafa í huga hér á landi. Fasteignamarkaðurinn er drifkrafturinn á lánamarkaði. Á meðan hann er í lamasessi eftir sprungna bólu þá verða vandamál fyrir hendi. Fasteignaverð er nú að lækka mun hraðar en spár gefa til kynna. Fimm prósent nafnverðslækkun frá febrúar til mars var gríðarlega mikil lækkun, og í sjálfu sér ágætlega falin stórfrétt. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir um 25 prósent lækkun að nafnvirði út næsta ár. Ég held að verðlækkunin geti orðið meiri, einkum vegna offramboðs á vissum svæðum og síðan bágri stöðu verktaka. Íbúðir munu seljast á slikk á endanum, sem mun keyra verðið niður. Þá verður sú staða uppi, að tugþúsundir fjölskyldna verða með skuldir langt umfram eignir. Þá mun ekki duga að lengja lán úr 40 í 70 ár. Það mun þurfa meira til.

No comments: