Sunday, February 15, 2009
"...dregur auðvitað kjarkinn úr fólki..."
Eftirfarandi kom fram í góðri umfjöllun Viðskiptablaðs Morgunblaðsins um fasteignamarkaðinn 12. febrúar síðastliðinn: Verðbólgan er að hjaðna og það hefur orðið verðlækkun á fasteignum, að sögn Ingibjargar Þórðardóttur, formanns Félags fasteignasala. Hún segir að því séu skilyrði til fasteignaviðskipta raunverulega að batna mikið. "Hins vegar þarf árásum á fasteignamarkaðinn að linna," segir hún. "Seðlabankinn er enn að hamra á því að fasteignaverðið eigi eftir að lækka áfram, en það dregur auðvitað kjarkinn úr fólki." Það er átakanlegt að sjá þennan málflutning hjá Ingibjörgu talsmanni fasteignasalastéttarinnar í landinu. Vonandi sjá heiðarlegir fasteignasalar sig tilneydda til þess að stíga fram og mótmæla þessum óforskammaða málflutningi. Tvennt: 1. Það sem Ingibjörg kallar "árásir á fasteignamarkaðinn" eru í raun sjálfsögð viðvörunarorð sem ætti að sem segja á eins áberandi hátt og hægt er, sem oftast. Staðreyndin er sú að botninn er farinn úr fasteignabólunni sem hófst fyrir alvöru haustið 2004 með innkomu bankanna á fasteignalánamarkað. Nú eru forsendur breyttar, og það er fullkomlega nauðsynlegt og ábyrgt, að benda á að fasteignaverð er að lækka og á eftir að lækka meira. Orð í þá veru, eru eins langt í frá að vera "árás" og hugsast getur. 2. Eiginhagsmunir fasteignasalastéttarinnar virðast engin takmörk sett, ef marka má orð Ingibjargar. Hún segir að viðvörunarorð seðlabankans, um að verð muni lækka, dragi "auðvitað kjarkinn úr fólki" og gefur í skyn að það sé óheppilegt að seðlabankinn sé að spá fyrir um fasteignaverðslækkun. Fasteignasalastéttin verður að fara vakna, og auðvitað að hætta að taka til sín þóknun sem hlutfallslega er tengd fasteignaverði sem hún finnur út sjálf. Það sem heiðarlegir fasteignasalar ættu að segja við ungt fólk sem er að hugsa um að kaupa íbúð er þetta: - Ekki kaupa íbúð á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. næstu tvö árin. Leiga er að verða hagstæðari með hverjum deginum og hún er miklu öruggari við þær aðstæður sem uppi eru núna. Ef að þið eruð með mikið laust fé, sem nægir jafnvel fyrir öllu kaupverðinu, þá er óskynsamlegt að geyma það í steinsteypu á höfuðborgarsvæðinu. Líklega er engin ávöxtunarleið öruggari farvegur fyrir neikvæða útkomu. Ef þið viljið samt fjárfesta í húsnæði, þá er örugglega best að kaupa eina götu á Raufarhöfn eða Þórshöfn frekar en blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Olían maður. Olían (svo maður detti í smá RE-max gír).
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment