Saturday, January 31, 2009

Vonandi og sammála

Ég sé að Vilhjálmur Bjarnason og fleira gott fólk ætlar að reyna að kaupa Moggann. Það væri óskandi að það tækist. Held að það væri fínt fyrirkomulag ef "almenningur" ætti að minnsta kosti stóran hluta í blaðinu. Aðalatriðið er að það verði hægt að setja saman hluthafahóp sem fæli í sér hæfilega dreift eignarhald.

Mattihías Johannessen skrifar mikla grein - að því marki sem hægt er að tala um mikla grein - í Lesbókina. Þar segir að dagblöð eigi að hafa skoðanir. Um það segir hann: “...það kemur frjálsri blaðamennsku ekkert við. Hún getur dafnað vel í skjóli merkilegra hugsjóna sem skipta okkur máli. Upppoppaður samtíningur og einskis nýtur eyðileggur virðingu og áhrif dagblaða, ég tala nú ekki um þetta skolpræsalýðræði sem nú er í tízku (einkum á netinu). Eða alla segulbandsvæðinguna með sinn þunna lopa.”

Ég er sammála Matthíasi, svo lengi sem skoðanirnar eru innan ritstjórnargreina. Þær eiga beinlínis að fela í sér skoðanir. Þannig ég sé ekki að það sé eitthvað nýtt í þessu.

Friday, January 30, 2009

Thursday, January 29, 2009

CDS-markaðurinn bannaður?

Samkvæmt þessari frétt sem birtist í morgun þá er verið að vinna að því að banna viðskipti á markaði með skuldatryggingar eins og þau hafa verið fram að þessu. Samkvæmt bloomberg er markaðurinn í heild um 29 trillionir dollara. Ég ætla ekki að færa það yfir í krónur. Hef ekki tíma.

Wednesday, January 28, 2009

PHANTOM, OF THE OPERAAAAAA...

Þetta finnst mér besta lag Iron Maiden.

Kippa undir

Ég set kippu undir og veðja á að Kastljósið biðjist ekki afsökunar á rangfærslum sínum í þættinum í gær. Og auðvitað reyni ekki að rökstyðja af hverju Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöð 2, ætti að fara eftir skipunum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í starfi sínu.

Stjórnarkreppa

Djöfulsins bull er þetta. Það er komin stjórnarkreppa ofan í efnahagskreppuna.

Tuesday, January 27, 2009

Skytturnar þrjár

Ég hlakka til að lesa bækurnar um bankahrunið. Það verður vafalítið skotið í allar áttir í þeim, allt eftir þeim vinkli sem tekinn verður í hvert skipti. Ég hef heyrt að þrír séu að vinna að bókum um hrunið. Það eru Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander í London, og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Allar þessar bækur verða forvitnileg lesning. Þess má geta til gamans að Ármann, sem er sagnfræðingur í grunninn, hefur skrifað eina bók. Það er saga Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur. Það viðfangsefni er eins ólíkt bankahruninu og hægt er að hugsa sér.

Gullhjartað


Það er nauðsynlegt að taka sér frí frá kreppunni annað slagið. Heart of Gold með Neil Young er það sem færir okkur fjær kreppunni á þessari síðu. Stórkostlegt lag.

Monday, January 26, 2009

Einu sinni í viku

Ég hef minnst á það hérna á síðunni að stjórnvöld verði að mynda beina upplýsingalínu til heimila og fyrirtækja. Tillaga mín var sú að forsætisráðherra myndi senda bréf á öll heimili og fyrirtæki einu sinni í viku þar sem farið væri yfir stöðu efnahagsmála og hvar áætlanir væru staddar.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið, einkum vegna þess hversu djúpstæður efnahagsvandinn er, að ávarpa þjóð sína einu sinni í viku. Í fyrsta ávarpinu, sem birtist á laugardaginn, þá sagði hann efnahagsvanda heimsins fordæmalausan og það þyrfti því að grípa til fordæmalausra aðgerða. Ég hef það stundum á tilfinningunni að Íslendingar viti ekki hvað er að gerast í heiminum. Stjórnvöld bera að hluta til ábyrgð á því.

Sunday, January 25, 2009

Á meðan...

... íslenskir stjórnmálamenn breyta ömurlegu efnahagsástandi í fullkomlega skelfilegt alhliða ástand, þá hrannast upp vond tíðindi erlendis frá. Norðmenn geta varla selt þorskinn sinn. Það mun svo sannarlega gerast hjá okkur líka, sérstaklega þegar kreppan í Bretlandi fer af miklu skriði út í neyslumynstrið, sem er óhjákvæmilegt. Lúxusvaran íslenskur þorskur, mun þá seljast illa.

Friday, January 23, 2009

Á versta tíma?

Hrun íslenska bankakerfisins, og aðdragandi þess, er þegar orðin case-stúdía í bestu viðskiptaháskólum heims, eins og Harvard Buisness School. Það var auðvitað viðbúið enda um einstakan atburð í mannkynssögunni að ræða. Aldrei áður hefur heilt bankakerfi þjóðar hrunið til grunna á einni viku. Líklega verður ekki síður horft til þeirrar eigna-bólu sem hér myndaðist eftir að bankarnir voru einkavæddir. Hlutabréfamarkaðurinn hækkaði um 700 prósent á þremur árum og fasteignaverð meira en tvöfaldaðist. Einkavæðingunni lauk árið 2003. Rétt fyrir júnílok ársins 2003, lækkaði bandaríski seðlabankinn stýrivexti niður í eitt prósent, sem þá var lægsta vaxtastig í rúmlega hálfa öld, og hélt þeim í því horfi í eitt ár. Um þetta tímabil segir kaupsýslumaðurinn George Soros eftirfarandi í nýjustu bók sinni um fjármálakrísuna: "Cheap money engendered a housing bubble, an explesion of leveraged buyouts, and other excesses. When money is free, the rational lender will keep on lending until there is no one else to lend to."

Á sama tíma og þetta gerðist, sem sumir segja að hafi lagt grunninn að global-eignabólu, voru íslensk stjórnvöld nýbúin að selja ríkisbankanna til fjárfesta sem aldrei höfðu rekið banka. Ódýrt lánsfé streymdi svo nánast stjórnlaust inn í landið, óbeint vegna aðgerða bandaríska seðlabankans. Því sem næst vaxtalaust lánsfé flaut um Wall Street, Frankfurt og City í London, og þaðan til Íslands. Eftir á að hyggja, þá gátu íslensk stjórnvöld líklega ekki einkavætt bankanna á áhættumeiri tíma.

Shit

Ef ég væri Breti þá myndi ég segja shit. Og síðan fuck. Miðað við fréttir og skýringar breskra fjölmiðla, eins og BBC, þá er rosalegt ástand í Bretlandi.

Thursday, January 22, 2009

Fimm ráð til að róa fólkið í landinu

Fimm ráð til að róa almenning:
1. Dagsetja kosningar seinna á þessu ári. Til dæmis í byrjun apríl eða maí.
2. Tilkynna um það opinberlega að stærstu eigendur gömlu bankanna þriggja, og helstu stjórnendur, hafi verið boðaðir í yfirheyrslu vegna rökstudds gruns um að misbeitingu á markaðnum mánuðina áður en lánalínur bankanna lokuðust alveg. Það deilir enginn um að það er rökstuddur grunur um það í öllum bönkunum að hlutabréfaverði hafi verið haldið uppi. Viðskiptaráðherra hefur beinlínis upplýst um það. Í því felst ekki að maður vilji sjá blóð bankamanna, heldur miklu frekar að vilji sé sjánlegur til þess að rannsaka mál og upplýsa um þau. Eignir fólks í gegnum lífeyrissjóðina eru í húfi. Þegar átt er við stærstu eigendur er vitaskuld líka verið að tala um lífeyrissjóðina.
3. Skipa Gylfa Zoega hagfræðiprófessor, sem er óumdeildur og ópólitískur maður, sem yfirmann aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnnar vegna bankahrunsins. Hann er virtur á heimsvísu og ekki síst af hálfu IMF sem skarpskyggn fræðimaður á sínu sviði. Hann nýtur auk þess virðingar hjá almenningi og hefur yfirvegaða og róandi nærveru þegar hann kemur fram.
4. Geir H. Haarde forsætisráðherra sendi öllum heimilum í landinu bréf einu sinni í viku fram að kosningum þar sem rakið er á hvaða stigi efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og IMF er. Nákvæmlega er svo tilgreint hvað hefur gerst í hverri viku. Alveg sama hvað það er lítið eða mikið.
5. Stjórnvöld viðurkenni að stærstu pólitísku mistök Íslandssögunnar hafi verið þau að leyfa bönkunum að stækka upp í 10falda þjóðarframleiðslu í minnsta mynthagkerfi heims. Viðurkenningin þyrfti að koma fyrir boðaðar kosningar. Þá fyrst skapast grunnur til þess að ganga á yfirvegaðan hátt til kosninga.

Obama strokar út siðleysið

Gaman að þessu interaktíva efni hjá Washington Post. Gaman hefur verið að fylgjast með því hvernig Obama er að taka við keflinu í Bandaríkjunum. Hann virðist leggja mikla áherslu á að stroka út siðlaus fangelsi Bush-stjórnarinnar. Það er gott og blessað, en fullkomlega sjálfsagður hlutur finnst mér.

Wednesday, January 21, 2009

Hannes steypti

Myndskeið með Hannesi Hólmsteini, þar sem hann fer yfir íslenska efnahagsundrið á fjórum mínútum í Íslandi í dag, er ekki bara pínlegt heldur líka fyndið. Umfjöllun um það má sjá á www.andriv.com. Hannes mætti í þáttinn til þess að fjalla um erindi sem hann var að fara halda undir yfirskriftinni: The Icelandic Economic Miracle. Hann rekur hvernig Ísland stökkbreyttist til hins betra frá 1991. Þetta var auðvitað allt tóm steypa.

Erlend eftirlit ekki lausn

Að undanförnu hafa menn keppst við að tala um hversu illa Fjármálaeftirlitið (FME) stóð sig, og hefur staðið sig, í því að sinna hlutverki sínu á fjármálamarkaði hér á landi. Sumir hafa nefnt að það ætti að fá eftirlit í öðrum löndum til þess að koma hingað og taka við af FME, jafnvel eftirlitin í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi.

Það er skemmst frá því að segja að í öllum þessum löndum eru stjórnvöld að glíma við ævintýraleg vandamál, ekki síst vegna þess að eftirlit hefur verið samræmt alþjóðalögum til þess að uppfylla þau glóbölsku markmið, að búa til heimsmarkað með fjármuni. Hið séríslenska í þessu öllu saman er að stjórnmálamenn leyfðu bankakerfinu hér að verða 10 x stærra en landsframleiðsla, ekki síst á grunni þess að það var beinlínis pólitískt markmið að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Stjórnmálamenn klöppuðu bankamönnunum á bakið fyrir að stækka bankanna svona ört og mikið, án þess að átta sig á hættunum.

Í Bretlandi hefur þúsundum milljarða verið skotið inn í bankakerfið til þess að reyna að kaupa í burtu verstu eignirnar í bönkunum. Þetta hefur ekki virkað og þar í landi er í fullri alvöru rætt um að bankakerfið getið hrunið til grunna. Nú þegar hafa um 60-70 prósent af því verið þjóðnýtt. Í þessum hremmingum hafa Bretar spurt um eftirlitsaðila. Hvar voru þeir? spyrja menn, og horfa til þess að í eignasöfnum bankanna eru útlán og afleiðueignir sem eru einskis virði. Skráð félög fengu að haga sér að vild.

Norski olíusjóðurinn, sem í haust átti tæplega eitt prósent af öllum hlutabréfum í Evrópu, tapaði meira en sem nemur öllum skuldum Íslands vegna bankahrunsins - 2.200 milljörðum - bara á hruni Lehman Brothers. Þúsundir milljarða til viðbótar hafa gufað upp vegna hraðasta verðfalls á hlutabréfum í sögunni. Þingmenn í Noregi hafa rifist um þetta síðan í september og spurt: Hvar voru eftirlitsaðilarnir? Þá hefur þúsundum milljarða verið dælt inn í bankakerfið í Noregi til þess að koma í veg fyrir hrun. Það sama hefur verið gert í Svíþjóð og Danmörku. Ef ekki væri fyrir milljarða innspýtingu af skattpeningum þá væru bankakerfin í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Bretlandi hrunin. Reyndar eru enn blikur á lofti um hvernig sparisjóðakerfið danska, sem í áratugi hefur haft mikla markaðshlutdeild á íbúðalánamarkaði, á að geta lifað af. Nú þegar hafa nokkrir sparisjóðir farið á hausinn og enn fleiri verið sameinaðir. Svíar eru að glíma við sama vandamál. Sem meðal annars er tilkomið vegna þess, að áratugalöng hefð er fyrir því á Norðurlöndum að local-sparisjóðir í sveitarfélögum láni 100 prósent fyrir íbúðakaupum. Það hefur verið litið á lánin sem hluta af velferðarkerfinu, þó augljóst sé að þau eru áhættusækin og geta skapað eignabólur, ef verð á lánsfé fjármálafyrirtækja verður hagstætt. Nákvæmlega það gerðist.

Auðvitað var eftirlit með heimsmarkaði - sem var pólitískt markmið stærstu ríkja heims - ábótavant. Heimskreppan er sönnun þess. Það er virkileg einföldun að telja FME eiga mikla sök á því að bankakerfið íslenska fékk að verða 10 x stærra en landsframleiðsla og hrynja svo til grunna í heimskreppunni. Það er að minnsta kosti mitt mat. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki neinn talsmaður þess að einhverjir verði fríaðir ábyrgð á hruninu. Þvert á móti. Eftirlitsstofnanir eru þar á meðal. Sérstaklega þarf ríkisstjórn Geirs H. Haarde að axla ábyrgð á því að líta ekki á það sem áhyggjuefni að bankakerfið hafi orðið 10 x stærra en landsframleiðsla, verið með skammtímaskuldir sem voru 15 x meiri en gjaldeyrisvaraforði seðlabankans, í minnsta mynthagkerfi heims. Þá verður löggjafarvaldið einnig að svara fyrir það að hafa forgangsraðað skattfé ævintýralega vitlaust, sem sést best á því að helmingi fleiri starfsmenn eru hjá Fiskistofu en FME, þrátt fyrir miklu umfangsmeiri og mikilvægari verkefni FME.

Tuesday, January 20, 2009

Of mikið af því góða

Ég er ekki hvítliði en mér finnst 17 ára dóttir Helgu Völu fjölmiðlakonu og laganema fá of mikla athygli, eða réttara sagt handtaka hennar. Það er eiginlega hálfkjánalegt að hafa þetta sem aðalfrétt tveimur tímum eftir að blökkumaður varð valdamesti maður heims. Mitt í mestu heimskreppu mannkynssögunnar. Svo égtali nú ekki um hvað mótmælin sem slík - ekki bara handtaka dóttur Helgu Völu - eru merkileg.

Bræða

Jæja, þá getur umheimurinn farið að takast á við efnahagsvandann í friði. Bush er hættur og vonandi fer hann á einhvern sveitabúgarð í Texas og kallar þangað alla sína nánustu stuðningsmenn. Svo má skella í lás og bræða lykilinn. Þá er kominn góður byrjunarpunktur.

Rjúkandi rúst


Þetta er allt hárrétt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins. Rjúkandi rúst, eru bestu orðin yfir þá stöðu sem Bush skilur eftir sig.

Monday, January 19, 2009

Bush að hætta - stórkostlegt

Það verður einstaklega ánægjulegt þegar versti forseti Bandaríkjanna í sögunni, George W. Bush, hættir störfum á morgun. Hann er einn og sér alhliða vandamál nú í efnahagskreppunni. Það hafa einfaldlega allir beðið eftir því að hann drullaðist frá völdum, svo lítið er eftir af því örlita mannorði sem hann hafði.

Herinn er sósíallinn


Í Bandaríkjunum er herinn eins og félagslega kerfið. Sósíallinn á Norðulöndum. Í kreppum fjölgar gríðarlega í hernum. Það er að gerast núna, samkvæmt The New York Times í dag. Svipað gerðist þegar hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum féll um 80 prósent á tímabilinu 2000 til 2002. Bush-stjórnin leit á það sem skyldu sína að útvega fólkinu krefjandi verkefni, ef svo má segja. Stríðin í Mið-Austurlöndum hófust, sem reyndist síðan vera eins og að henda eldspýtu í púðurtunnu. Það var auðvitað fyrirséð. Vonandi fer Obama ekki sömu leið. Það er að líta á það sem hlutverk sitt að útvega hernum óskaplega spennandi krefjandi verkefni.

Sunday, January 18, 2009

Bretland í djúpum skít


Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, er ósáttur við bresk stjórnvöld þessa dagana. Það er ekki von. Á síðustu vikum hefur ríkisstjórn Bretlands fært mörg hundruð milljarða yfir á skattgreiðendur til þess að freista þess að bjarga bankakerfinu í landinu. Það er alls óvíst að það takist. Bretland er með öðrum orðum í djúpum skít. Peston bloggar um málið hérna.

Peston er án efa einn besti og áhrifamesti blaðamaður heims. Fréttir hans, sérstaklega undanfarna mánuði, hafa valdið miklum titringi. Efnahagsbrotadeildinni bresku barst nýlega kæra vegna frétta Pestons um aðgerðir sem voru í undirbúningi vegna fjármálakreppunnar. Þær voru allar hárréttar og nákvæmar. Stjórnmálamenn voru æfir og fóru fram á rannsókn vegna leka.

Saturday, January 17, 2009

Upp og niður


Fyrir nokkrum dögum hóf ég að spila verðbréfaleikinn http://www.updown.com/ ásamt viðskiptadeild Morgunblaðsins. Fyrir þá sem ekki til þekkja þá er þetta frábær verðbréfaleikur sem tekur nákvæmlega mið af hlutabréfamarkaðnum bandaríska. Allt er innifalið. Þóknanagreiðslur, skortsölur og þess háttar. Hver leikmaður byrjar með eina milljón dollara og fer svo út á markaðinn. Ekki má eyða meira en 20 prósent af heildarupphæðinni í hvert félag á markaðnum. Eins og er tróni ég á toppnum með 4,8 prósenta ávöxtun eignasafnsins á tveimur viðskiptadögum. Það getur auðvitað allt gufað upp á einum degi. Tala nú ekki um í þessari hrikalegu heimskreppu sem nú er. Spilun leiksins er fín leið til þess að fylgjast með gangi efnahagsmála. Eignasafnið mitt, sem tekur auðvitað reglulegum breytingum, er eftirfarandi eins og er:

Burger King (Kreppumatur. Nú flykkist fólkið í ódýra borgara um allan heim) 208.000 dollarar
First Solar (Búið að hrynja niður með hrávörunni, en kemur vonandi upp aftur) 203.000 dollarar
Google (Fólk eyðir tímanum á netinu í kreppunni og googl-ar sem aldrei fyrr) 206.000 dollarar.
Starbucks (Fólk drekkur kaffi í kreppunni. Starbucks hlýtur að græða í þessu) 208.000 dollarar
Urban Outfitters (Ódýr föt fyrir ungt fólk seljast betur en dýr föt í kreppunni) 216.000 dollarar

Samtals: $1,047,557.76. Á tveimur viðskiptadögum hefur mér því tekist að búa til rúmlega 6 milljónir króna, miðað við núverandi gengi. Bara ef þetta væri nú raunverulegt...

Obama: Glæstar vonir


Fáir forsetar í sögu Bandaríkjanna hafa verið undir viðlíka pressu og Barack Obama sem tekur formlega við stjórnartaumunum í landinu í næstu viku. Þar ræður auðvitað mestu að George W. Bush skilur við landið mitt í mestu efnahagslægð síðan 1929, sem á rætur í Bandaríkjunum. Hún hefur ekki enn náð botni samkvæmt mati flestra. Á vefsíðu The New York Times, sem að mínu mati er besta dagblaðavefsíða í heimi, er hægt að hlusta á marga ólíka Bandaríkjamenn tjá sig um framtíðina undir Obama. Í flestum tilfellum eru þetta glæstar vonir. Ég held að veruleikinn verði sá, að Bandaríkin verða í mikilli vörn á næstu þremur árum. Síðan mun auðvitað myndast ný eignabóla, eins og alltaf þegar kemur að hagstjórn í Bandaríkjunum. Hlutabréfamarkaðurinn mun ná sér á strik að nýju. Nýja bólan verður vafalítið tengd umhverfisvænum orkuiðnaði, sem Obama veðjar á sem framtíðariðnað í Bandaríkjunum. Bara það eitt og sér er nægilega traustur grunnur fyrir myndun eignabólu. Þó núll prósent stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna muni þó líklega hafa mest áhrif horft til lengri tíma. Það þýðir að lánsfé kostar lítið sem ekkert. Þó það séu fyrst og fremst viðbrögð við alheimskreppunni, þá hlýtur einhver að græða á því og jafnvel misnota þá aðstöðu. Læt hér fylgja með frábæra feature-ljósmynd frá Vanity Fair af Obama.


Friday, January 16, 2009

Vopnfirskur olíugróði


Það yrði nú dásamlegt, ef olíugróðinn yrði sjáanlegastur á Vopnafirði og nágrenni. Stórkostlega fallegur staður Vopnafjörður. Útsýnið af kletti, þar sem afi og amma bjuggu og Signý frænka mín og Höskuldur maður hennar búa núna, er dásamlegt. Þaðan sést vel fegurð fjarðarins. Stundum sést líka lítið sem ekkert. Það er, þegar austfjarðarþokan kemur í heimsókn. Hún á það til að stoppa í dálitla stund.

Wednesday, January 14, 2009

Guð blessi Ísland

Síðast þegar Ísland varð eitt ríkasta land í heimi, um mitt ár 2007, þá byggði það á því að finna ekki upp neitt, framleiða ekki neitt en leggja allt í að taka lán og kaupa nánast allt sem var til sölu. Ég segi því bara; guð hjálpi okkur ef við finnum olíu.

Tuesday, January 13, 2009

Stærstu mistökin eru....

...stöðumat ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, um að það væri ekki áhyggjuefni að íslenska bankakerfið væri 12 sinnum stærra en landsframleiðsla og með skammtímaskuldir sem voru fimmtán sinnum meiri en gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands; samansoðið við minnsta gjaldmiðil heims. Þetta eru jafnframt mestu pólitísku mistök Íslandssögunnar. Allt annað blikknar. Meira að segja sala ríkisins á Landsbankanum til bruggara frá Rússlandi sem aldrei höfðu rekið banka.

Samtöl dauðans


Ég hef nú áður minnst á geðsýkislegu snilldina í American Psycho. En ég finn mig knúinn til þess að draga þetta fram: Patrick Bateman: Ask me a question. Daisy: What do you do? Patrick Bateman: I'm into... well murders and executions mostly. Daisy: Do you like it? Patrick Bateman: It depends. Why?

Saturday, January 10, 2009

Tíu lög út í nóttina

Topp tíu listi yfir lög sem gott er að blasta, sem síðasta lag áður en stigið er inn í leigubílinn og niður í bæ. Lögin eru ólík, alveg eins og tilefnin fyrir dagamuninum geta verið. Nett svona "liðin-tíð" bragur á þessu þar sem ég fer sjaldan, eða næstum aldrei, í bæinn nú orðið. Sem er bara fínt.

1. Them Bones - Alice in Chains. Staley. Dauður. En var svooo rosalegur í þessu lagi. - Hér sakar ekki að vera með menn í kringum sig sem segja reglulega: "Djöfull er Staley rosalegur..."

2. Across the Sea - Weezer. Smellur. Pinkerton með Weezer, þar sem þetta lag er að finna, er meistaraverk. - Góð trygging fyrir góðu upphafi á bæjarferðinni. Á leiðinni niður í bæ er fínt að taka djúpt samtal um það hversu vanmetinn trommarinn í Weezer er.

3. Seek and destroy - Metallica. Kill em all. Stórkostlegt meistarastykki. Ekki orð um það meir. - Hér er mikilvægt að vera með landsbyggðarstæla, það er að segja, ef ræturnar liggja þar. Dæmigerður góður landsbyggðarslagari. Hrátt, þungt og skilyrðislaust.

4. Present Tense - Pearl Jam. Besta lag Pearl Jam, finnst mér. Hvorki meira né minna. - Þetta má blasta vel. Svo má þagga niður í öllum svívirðilegum Creed aðdáendum sem eiga það til að stíga fram þegar Pearl Jam er sett á fóninn. With arms wide open my ass. Þetta er stórkostlegt lag af meistarastykkinu No Code.

5. Cherub Rock - Smashing Pumpkins. Hrikalegur slagari. Corgan líka vanmetinn sem gítarleikari. Gríðarlegt groove í hans spilamennsku. - Sá sem mótmælir þessu má vera úti. Þetta er svona lag sem enginn á að mótmæla. Ekkert umdeilt við þessa snilld. Þó Corgan eigi reyndar sína óvini. Hvernig sem á því stendur.

6. Idioteque - Radiohead. Gríðarlegt grúv í þessu lagi. - Mikilvægt að minna menn á það, að þetta lag sé geðveikt á tónleikum, ef maður hefur séð það. Bara svona fylleríisröfl. Detta í smá upprifjunar-gír. Alveg nauðsynlegt. En það er reyndar þannig, að þetta lag er eiginlega óeðlilega flott á tónleikum.

7. Pinball Wizard - Pete Townshend. Townshend. Snillingur. - Mjög líklegt að einhver kvarti yfir þessu lagavali í fyrstu, en svo þegar menn fatta hvað meistari Pete er mikill snillingur þá hættir það. Það er þessi virði að taka tíu rifrildi. Jafnvel bara taka þau alltaf.

8. Jack-ass - Beck. Frábært lag. - Ég hugsa að það röfli enginn yfir þessu. Bara gott grúv. Þetta er svona frekar óumdeilt. Ef einhver fílar þetta ekki neitt stórkostlega, þá fer hann bara út eða á klósettið.

9. Refuse resist - Sepultura. We are Sepultura from Brazil, un, dos, des, quatro. Stórkostlegt. - Eins og með Seek and destroy, þá er þetta lag sem er keyrt í góðum útvöldum hópi. Líklega er meirihlutinn samsettur af skilyrðislausum landsbyggðarmönnum. Ekkert svona vinnustaða-thing sem sagt.

10. Slide away - Oasis. Hrikalegur smellur frá Gallagher bræðrum. - Gott að hækka vel í þessu, jafnvel þannig að svona tveir, þrír óski eftir því að það verði lækkað. Svo er það náttúrulega svona nánast skotheld regla, eftir á, að maður á aldrei að yfirgefa partýin. Ef þau eru góð.

Þorvaldur og Krugman

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju valdhyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum hatar Þorvald Gylfason. Manni er sagt að þetta sé eitthvað djúpstætt, síðan úr MR. En svo vill maður eiginlega ekki trúa því að svo mikill óþroski hindri eðlileg samskipti við einn af fremstu fræðimönnum okkar Íslendinga. Þeir sem efast um það, ættu að kynna sér vefsíðu hans. Hún er skemmtileg. Reglulega uppfærð og efnismikil. Svo er nú líka margt sem er mjög impressive. Þorvaldur var kominn með doktorspróf frá Princeton 25 ára og búinn að vinna sem doktor hjá IMF í fimm ár þrítugur. Það er bara á færi yfirburðamanna.

Pistlarnir hjá Þorvaldi, sem birtast vikulega í Fréttablaðinu, eru besta leiðsögn sem almenningur fær reglulega um efnahagsmál, bæði innanlands og utan. Þessi pistill, Með nærri tóman tank frá því 7. desember 2006, er til dæmis ótrúlega skarpur. Oft hefur verið á það minnst að Þorvaldur hafi varað við hinu og þessu, sem leiddi síðan til þess að við vorum berskjölduð fyrir heimskreppunni. Mér finnst, við lestur þessara pistla, að Þorvaldur hafi í raun gert betur en það. Hann greindi allar kerfisáhættur rétt, og spáði stundum ævintýralega nákvæmt fyrir um hvað myndi gerast, ef ekkert yrði að gert. Í raun alveg fram á síðustu stundu. Valdhyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum þarf að gera eins og Guð efnahagsmála hjá Repúblikunum í Bandaríkjunum, Alan Greenspan, hefur gert. Það er að biðjast afsökunar. Að vissu leyti hefur Þorvaldur gegnt svipuðu hlutverki og Paul Krugman hagfræðiprófessor gegnir í Bandaríkjunum. Hann hefur látlaust gagnrýnt bandaríska seðlabankann og efnahagsstefnu Bush, einkum í föstum pistlum í The New York Times. Öll meginatriði í hans gagnrýni hafa reynst rétt. Fyrir það fékk hann nýlega nóbelsverðlaun.

Friday, January 9, 2009

Thursday, January 8, 2009

Bjarni og Greenspan

Augljóst er að Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri FBA, Íslandsbanka og Glitnis, horfir til þess sem Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur sagt um heimskreppuna. Hann hefur einfaldlega sagt: I was wrong. Þó dregur hann alls ekki úr ábyrgð þeirra sem stýrðu útlánastofnunum. Miklu betra regluverk hefði þurft til þess að hafa eftirlit með lánastarfsemi og fleiri þáttum. Hann játar enn fremur að hugmyndafræði hans, um að frjálsræði ríki á hlutabréfamörkuðum, hafi ekki verið raunveruleikanum samkvæmt. Í sjálfu sér eru játningar hans, frammi fyrir þingnefnd með ólíkindum.

Ég hef lesið The Age of Turbulance, Adventures in a New World, sem Greenspan skrifaði og kom út um það leyti sem krísan var að dýpka í Bandaríkjunum. Öll hugmyndafræðin í bókinni, sem mér virtist framsýn og skynsamleg, er á vissan hátt horfin í hyldýpi heimskreppunnar. Það segir sitt um að dýpt hennar.

Fimm kvót úr Wall Street. Þetta á merkilega vel við núna. Ég fíla númer fjögur einna best. Skemmtilega sturluð komment hjá Gekko. Hann hefur margsinnis verið nýttur sem útgangspunktur í fréttaskýringum um hlutabréfamarkaði. Forsíða Fortune, með Douglas á forsíðunni sem Gekko, er fræg. Þar segir að vogunarsjóðirnir myndu borða hann í morgunmat, ef hann væri eitthvað að rífa kjaft núna. Það segir manni kannski eitthvað um hvernig ástandið á Wall Street hefur verið undanfarin ár. Sem endaði með því að globalska markaðssystemið-skreið til ríkisins, um allan heim, og bað um hjálp.

1. Greed is good.

2. Gordon Gekko: Fox, where the hell are you? I am losing MILLIONS! You got me into this airline and you sure as hell better get me out or the only job you'll ever have on the Street is SWEEPING IT! You hear me, Fox? Bud Fox: You once told me, don't get emotional about stock. Don't! The bid is 16 1/2 and going down. As your broker, I advise you to take it. Gordon Gekko: Yeah. Well you TAKE IT! [shouts] Gordon Gekko: *Right in the ass you fucking scumbag cocksucker!* Bud Fox: It's two minutes to closing, Gordon. What do you want to do? Decide. Gordon Gekko: [calms down] Dump it.

3. If you need a friend, get a dog.

4. Yeah, not bad for a City College boy. I bought my way in, now all these Ivy league schmucks are sucking my kneecaps.

5. The richest one percent of this country owns half our country's wealth, five trillion dollars. One third of that comes from hard work, two thirds comes from inheritance, interest on interest accumulating to widows and idiot sons and what I do, stock and real estate speculation. It's bullshit. You got ninety percent of the American public out there with little or no net worth. I create nothing. I own. We make the rules, pal. The news, war, peace, famine, upheaval, the price per paper clip. We pick that rabbit out of the hat while everybody sits out there wondering how the hell we did it. Now you're not naive enough to think we're living in a democracy, are you buddy? It's the free market. And you're a part of it. You've got that killer instinct. Stick around pal, I've still got a lot to teach you.

Tuesday, January 6, 2009

Íbúð Landsbankamanna

Þessa íbúð leigði alþjóðasvið Landsbankans heitins undir viðskiptavini sína. Nýji bankinn gat af sjálfsögðu ekki borgað af íbúðinni. Nú er hún til leigu á þokkalegum prís. Þannig séð. Náttúrulega ein með öllu í miðbænum. Mjög 2007. Fyrst var sett á hana 165 þús. á mánuði. Nú hefur hún lækkað um 30 þúsund. Það er kannski táknrænt fyrir það sem koma skal.

Rangt stöðumat

Össur Skarphéðinsson segir þetta vefsvæði sínu á eyjunni.is. "Staðhæfingar – rangar – um að bankahrunið leiddi til óbærilegra skuldaklyfja fram í þriðja ættlið hafa tæpast dregið úr vanlíðan fólks."
Og líka: "Fjármálahrunið og afleiðingar þess eru í öllum aðalatriðum teiknaðar upp sem alvarlegar náttúruhamfarir í skoðanafabrikkum samfélagsins – fjölmiðlunum. Þó verður fall þjóðartekna ekki meira en svo að við förum aftur á árið 2005, sem þá var besta ár allra ára."

Það er ekki von á góðu þegar ráðherra í ríkisstjórn hefur þetta viðhorf, eftir að stærsta bankahagkerfi heims miðað við landsframleiðslu og höfðatölu, hrynur til grunna.

Össur minnist ekkert á að fjórða hver króna sem kemur inn með skatttekjum fer í að greiða vexti á þessu ári, samkvæmt fjárlögum. Þá er ótalið greiðsla vegna netinnlánsreikninga Lansbankans, sem ríkisstjórnin sem Össur situr í tók ákvörðun um að þjóðnýta án þess að láta reyna á það hvort okkar bæri skylda til þess. Bara kostnaðurinn vegna þess mun bitna á þriðja ættlið, hvað sem Össur tautar og raular. Fjárlögin taka mið af 15,5 prósent samdrætti opinberra tekna, sem er spá Seðlabanka Íslands. Sumir segja hana mjög varfærna og beinlínis hreint bjartsýniskast. Ég er í þeim hópi.

Þá virðist Össur ekki skilja það, að ef fram heldur sem horfir þá munu þúsundir flytja úr landinu og kippa þannig stoðunum undan fasteignamarkaðnum, endanlega. Fólk verður þá ekki aðeins fast í íbúðum sínum í tugþúsundavís heldur einnig hlekkjað niður með verðtryggingunni. Allt á grundvelli þess að gjaldmiðillinn í hagkerfinu sem Össur segir að standi ekkert svo illa, er ekki lengur markaðsvara. Hann er ónýtur. Bara það eitt og sér má líkja saman við náttúruhamfarir.

Össur ætti sem iðnaðarráðherra að fara á fund Samtaka iðnaðarins og spyrja hvernig fyrirtækin í landinu standa, í hinum ýmsu iðngreinum. Sérstaklega mætti að spyrja út í lausafjárstöðu, það er hvernig gengur að láta sjóðsstreymi dekka fjármagnskostnað.

Þá mætti Össur líka spyrja sig að því, hvort honum finnist það allt í lagi að þjappa þurfi krökkum í grunnskólabekki næstu árin, víðs vegar um landið, í sparnaðarskyni.

Monday, January 5, 2009

Brjálast

Ef að íslenska ríkið, í gegnum nýja Landsbankann, kaupir kröfur sjávarútvegsfyrirtækja á lægra gengi en aðrir íslendingar þurfa að miða afborgar sínar af erlendum lánum við, þá brjálast ég.

Sunday, January 4, 2009

I did not have sexual....


Ég sé að fotbolti.net hefur fengið álitsgjafa til þess að gera upp fótboltaárið 2008. Mér finnst álitin hjá Hjörvari Hafliða og Henry Birgi best. Þó Henry mætti auðvitað minnast á endurkomu Maradona í boltann eins og Hjörvar gerði. Það var langstærsta fótboltafrétt ársins. Maradona er kóngurinn. Þannig er það bara. Mér fannst reyndar líka athyglisverð fréttin um Ronaldo, þegar hann var að dengja transgender hóru í Brasilíu. Þær voru reyndar sagðar fleiri en ein. Mest var þó gert úr frásögn trangsgender hórunnar hér á myndinni til hliðar. Ronaldo neitaði þessu reyndar. Sagði þetta: "I did not have any sexual dealings[Enginn Clinton í þessu, nei nei...] with those people [Transgender hórur!], I must stress that I am not gay. When I told my girlfriend, she started to shout, scream and swear at me, I think she'll find it hard to forgive me." Þetta var óvænt, en djúsí heimsfrétt.

Fréttnæmast hér innanlands fannst mér olnbogaskotin og tæklingarnar hjá Stebba Þórðar, og fall ÍA. Gott hjá Henry Birgi að minnast á útrásarstúkuna á Laugardalsvelli. Peningafylleríin þar er þegar orðin legend.




Fólk á Íslandi kallar á breytingar...

... eins og Bowie.

Saturday, January 3, 2009

Tímana tákn

Innkaupaferð í Bónus hjá mér í gær var tímana tákn. Ég hringdi í Freyju og skráði hjá mér lista yfir það sem var mest áríðandi. Þegar ég kom í búðina sá ég að á hinni hliðinni á innkaupalistanum var nákvæmt yfirlit yfir stöðu íslenska hagkerfisins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hvar annars staðar gæti þetta gerst?

Friday, January 2, 2009

Stál og hnífur


Það er ekki langt síðan ég las fréttaskýringu í The Economist (Meanwhile, in the real economy), þar sem sagði að Austur-Evrópa öll, væri á barmi gjaldþrots. Nokkur ríki þar, Lettland, Úkraína og Ungverjaland sérstaklega, hafa farið illa út úr efnahagshremmingunum í heiminum. IMF er þegar kominn til að bjarga málunum. Það verður svo að koma í ljós hvort það gengur. Þessi skýring, sem var svona 70 línur að lengd, er besta skýring sem ég hef séð á prenti um ástandið sem nú er í heiminum. Inntakið var það, að fjármálakreppan væri skammtímavandamál en áhrif hennar á hrávörumarkaði gæti haft í för með sér varanlegan vanda. Neyslumynstur gæti breyst sem ógnaði milljónum starfa. Iðnrisar heimsins gætu hrunið í kjölfarið.

En það er ekki bara austrið sem á í vandamálum. Bandaríkin eru enn að glíma við vandamál sem eru svo stór, að erfitt er að meta þau til fulls. Samkvæmt þessari skýringu The New York Times, þá held ég að hlutirnir gætu versnað mikið á þessu ári. Stáliðnaðurinn er að glíma við 75 prósent verðfall á innan við hálfu ári. Eftirspurnin hefur hrunið. Ríkið getur varla komið endalaust til hjálpar, en jafn ótrúlegt og það hljómar þá virðist sem nokkuð víðtæk þverpólitísk sátt sé um það í Bandaríkjunum að ríkið bjargi málunum. Það segir meira en margt annað, þegar horft er til umræðuhefðarinnar í Bandaríkjunum. The Land of the Free og það allt. Svo virðist sem stjórnmálamenn séu lafhræddir við niðurskurðarhnífinn í kreppunni, þó hann hafi verið uppáhalds vopn bandarískra stjórnmálamanna í áratugi.

Thursday, January 1, 2009

Fórnuðu líffærum fyrir Sambandið?


Keyrði frá Húsavík til höfuðborgarsvæðisins í dag. Það merkilegasta við ferðina var þetta:

Í Víðihlíð var áramótaballið á Hvammstanga, í Húnaþingi vestra, auglýst í bak og fyrir. Ballið fór víst fram í félagsheimilinu á Hvammstanga. Hljómsveitin sem spilaði á ballinu hét Sambandið, nema hvað. Norðurland vestra hefur lengi verið mikið framsóknarvígi, en mér finnst það nú frekar langt gengið þegar heimamenn eru farnir að líta á Sambandið sem rokk og ról. Aðgangseyrir var þrjú þúsund íslenskar krónur. Þrjú þúsund. Inn í því var ekki innifalið neitt annað en að komast inn í félagsheimilið á Hvammstanga og þurfa, nauðbeygður, að hlusta á Sambandið. Það stóð ekkert um það í auglýsingunni að miðasalar tækju á móti líffærum, ef þannig stæði á að einhver væri ekki tilbúinn að eyða þrjú þúsund krónum til að komast inn. En ég geri ráði fyrir því. Reyndar var sérstaklega tekið fram í auglýsingunni að enginn posi væri að svæðinu. Mér finnst það auka líkurnar á því að einhver hafði séð þann kost vænstan að fórna nýra, jafnvel botnlangatotunni - af því að hún er óþörf - til þess að komast inn.

Fögnum nýju ári með Pete!


Það fer vel á því að Pete Townshend eigi fyrsta lag ársins.

Let my love open the door frá Woodstock 1998. Snilld.