Wednesday, January 21, 2009

Erlend eftirlit ekki lausn

Að undanförnu hafa menn keppst við að tala um hversu illa Fjármálaeftirlitið (FME) stóð sig, og hefur staðið sig, í því að sinna hlutverki sínu á fjármálamarkaði hér á landi. Sumir hafa nefnt að það ætti að fá eftirlit í öðrum löndum til þess að koma hingað og taka við af FME, jafnvel eftirlitin í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi.

Það er skemmst frá því að segja að í öllum þessum löndum eru stjórnvöld að glíma við ævintýraleg vandamál, ekki síst vegna þess að eftirlit hefur verið samræmt alþjóðalögum til þess að uppfylla þau glóbölsku markmið, að búa til heimsmarkað með fjármuni. Hið séríslenska í þessu öllu saman er að stjórnmálamenn leyfðu bankakerfinu hér að verða 10 x stærra en landsframleiðsla, ekki síst á grunni þess að það var beinlínis pólitískt markmið að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Stjórnmálamenn klöppuðu bankamönnunum á bakið fyrir að stækka bankanna svona ört og mikið, án þess að átta sig á hættunum.

Í Bretlandi hefur þúsundum milljarða verið skotið inn í bankakerfið til þess að reyna að kaupa í burtu verstu eignirnar í bönkunum. Þetta hefur ekki virkað og þar í landi er í fullri alvöru rætt um að bankakerfið getið hrunið til grunna. Nú þegar hafa um 60-70 prósent af því verið þjóðnýtt. Í þessum hremmingum hafa Bretar spurt um eftirlitsaðila. Hvar voru þeir? spyrja menn, og horfa til þess að í eignasöfnum bankanna eru útlán og afleiðueignir sem eru einskis virði. Skráð félög fengu að haga sér að vild.

Norski olíusjóðurinn, sem í haust átti tæplega eitt prósent af öllum hlutabréfum í Evrópu, tapaði meira en sem nemur öllum skuldum Íslands vegna bankahrunsins - 2.200 milljörðum - bara á hruni Lehman Brothers. Þúsundir milljarða til viðbótar hafa gufað upp vegna hraðasta verðfalls á hlutabréfum í sögunni. Þingmenn í Noregi hafa rifist um þetta síðan í september og spurt: Hvar voru eftirlitsaðilarnir? Þá hefur þúsundum milljarða verið dælt inn í bankakerfið í Noregi til þess að koma í veg fyrir hrun. Það sama hefur verið gert í Svíþjóð og Danmörku. Ef ekki væri fyrir milljarða innspýtingu af skattpeningum þá væru bankakerfin í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Bretlandi hrunin. Reyndar eru enn blikur á lofti um hvernig sparisjóðakerfið danska, sem í áratugi hefur haft mikla markaðshlutdeild á íbúðalánamarkaði, á að geta lifað af. Nú þegar hafa nokkrir sparisjóðir farið á hausinn og enn fleiri verið sameinaðir. Svíar eru að glíma við sama vandamál. Sem meðal annars er tilkomið vegna þess, að áratugalöng hefð er fyrir því á Norðurlöndum að local-sparisjóðir í sveitarfélögum láni 100 prósent fyrir íbúðakaupum. Það hefur verið litið á lánin sem hluta af velferðarkerfinu, þó augljóst sé að þau eru áhættusækin og geta skapað eignabólur, ef verð á lánsfé fjármálafyrirtækja verður hagstætt. Nákvæmlega það gerðist.

Auðvitað var eftirlit með heimsmarkaði - sem var pólitískt markmið stærstu ríkja heims - ábótavant. Heimskreppan er sönnun þess. Það er virkileg einföldun að telja FME eiga mikla sök á því að bankakerfið íslenska fékk að verða 10 x stærra en landsframleiðsla og hrynja svo til grunna í heimskreppunni. Það er að minnsta kosti mitt mat. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki neinn talsmaður þess að einhverjir verði fríaðir ábyrgð á hruninu. Þvert á móti. Eftirlitsstofnanir eru þar á meðal. Sérstaklega þarf ríkisstjórn Geirs H. Haarde að axla ábyrgð á því að líta ekki á það sem áhyggjuefni að bankakerfið hafi orðið 10 x stærra en landsframleiðsla, verið með skammtímaskuldir sem voru 15 x meiri en gjaldeyrisvaraforði seðlabankans, í minnsta mynthagkerfi heims. Þá verður löggjafarvaldið einnig að svara fyrir það að hafa forgangsraðað skattfé ævintýralega vitlaust, sem sést best á því að helmingi fleiri starfsmenn eru hjá Fiskistofu en FME, þrátt fyrir miklu umfangsmeiri og mikilvægari verkefni FME.

No comments: