Tuesday, January 6, 2009

Rangt stöðumat

Össur Skarphéðinsson segir þetta vefsvæði sínu á eyjunni.is. "Staðhæfingar – rangar – um að bankahrunið leiddi til óbærilegra skuldaklyfja fram í þriðja ættlið hafa tæpast dregið úr vanlíðan fólks."
Og líka: "Fjármálahrunið og afleiðingar þess eru í öllum aðalatriðum teiknaðar upp sem alvarlegar náttúruhamfarir í skoðanafabrikkum samfélagsins – fjölmiðlunum. Þó verður fall þjóðartekna ekki meira en svo að við förum aftur á árið 2005, sem þá var besta ár allra ára."

Það er ekki von á góðu þegar ráðherra í ríkisstjórn hefur þetta viðhorf, eftir að stærsta bankahagkerfi heims miðað við landsframleiðslu og höfðatölu, hrynur til grunna.

Össur minnist ekkert á að fjórða hver króna sem kemur inn með skatttekjum fer í að greiða vexti á þessu ári, samkvæmt fjárlögum. Þá er ótalið greiðsla vegna netinnlánsreikninga Lansbankans, sem ríkisstjórnin sem Össur situr í tók ákvörðun um að þjóðnýta án þess að láta reyna á það hvort okkar bæri skylda til þess. Bara kostnaðurinn vegna þess mun bitna á þriðja ættlið, hvað sem Össur tautar og raular. Fjárlögin taka mið af 15,5 prósent samdrætti opinberra tekna, sem er spá Seðlabanka Íslands. Sumir segja hana mjög varfærna og beinlínis hreint bjartsýniskast. Ég er í þeim hópi.

Þá virðist Össur ekki skilja það, að ef fram heldur sem horfir þá munu þúsundir flytja úr landinu og kippa þannig stoðunum undan fasteignamarkaðnum, endanlega. Fólk verður þá ekki aðeins fast í íbúðum sínum í tugþúsundavís heldur einnig hlekkjað niður með verðtryggingunni. Allt á grundvelli þess að gjaldmiðillinn í hagkerfinu sem Össur segir að standi ekkert svo illa, er ekki lengur markaðsvara. Hann er ónýtur. Bara það eitt og sér má líkja saman við náttúruhamfarir.

Össur ætti sem iðnaðarráðherra að fara á fund Samtaka iðnaðarins og spyrja hvernig fyrirtækin í landinu standa, í hinum ýmsu iðngreinum. Sérstaklega mætti að spyrja út í lausafjárstöðu, það er hvernig gengur að láta sjóðsstreymi dekka fjármagnskostnað.

Þá mætti Össur líka spyrja sig að því, hvort honum finnist það allt í lagi að þjappa þurfi krökkum í grunnskólabekki næstu árin, víðs vegar um landið, í sparnaðarskyni.

No comments: