Friday, January 2, 2009

Stál og hnífur


Það er ekki langt síðan ég las fréttaskýringu í The Economist (Meanwhile, in the real economy), þar sem sagði að Austur-Evrópa öll, væri á barmi gjaldþrots. Nokkur ríki þar, Lettland, Úkraína og Ungverjaland sérstaklega, hafa farið illa út úr efnahagshremmingunum í heiminum. IMF er þegar kominn til að bjarga málunum. Það verður svo að koma í ljós hvort það gengur. Þessi skýring, sem var svona 70 línur að lengd, er besta skýring sem ég hef séð á prenti um ástandið sem nú er í heiminum. Inntakið var það, að fjármálakreppan væri skammtímavandamál en áhrif hennar á hrávörumarkaði gæti haft í för með sér varanlegan vanda. Neyslumynstur gæti breyst sem ógnaði milljónum starfa. Iðnrisar heimsins gætu hrunið í kjölfarið.

En það er ekki bara austrið sem á í vandamálum. Bandaríkin eru enn að glíma við vandamál sem eru svo stór, að erfitt er að meta þau til fulls. Samkvæmt þessari skýringu The New York Times, þá held ég að hlutirnir gætu versnað mikið á þessu ári. Stáliðnaðurinn er að glíma við 75 prósent verðfall á innan við hálfu ári. Eftirspurnin hefur hrunið. Ríkið getur varla komið endalaust til hjálpar, en jafn ótrúlegt og það hljómar þá virðist sem nokkuð víðtæk þverpólitísk sátt sé um það í Bandaríkjunum að ríkið bjargi málunum. Það segir meira en margt annað, þegar horft er til umræðuhefðarinnar í Bandaríkjunum. The Land of the Free og það allt. Svo virðist sem stjórnmálamenn séu lafhræddir við niðurskurðarhnífinn í kreppunni, þó hann hafi verið uppáhalds vopn bandarískra stjórnmálamanna í áratugi.

No comments: