Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju valdhyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum hatar Þorvald Gylfason. Manni er sagt að þetta sé eitthvað djúpstætt, síðan úr MR. En svo vill maður eiginlega ekki trúa því að svo mikill óþroski hindri eðlileg samskipti við einn af fremstu fræðimönnum okkar Íslendinga. Þeir sem efast um það, ættu að kynna sér vefsíðu hans. Hún er skemmtileg. Reglulega uppfærð og efnismikil. Svo er nú líka margt sem er mjög impressive. Þorvaldur var kominn með doktorspróf frá Princeton 25 ára og búinn að vinna sem doktor hjá IMF í fimm ár þrítugur. Það er bara á færi yfirburðamanna.
Pistlarnir hjá Þorvaldi, sem birtast vikulega í Fréttablaðinu, eru besta leiðsögn sem almenningur fær reglulega um efnahagsmál, bæði innanlands og utan. Þessi pistill, Með nærri tóman tank frá því 7. desember 2006, er til dæmis ótrúlega skarpur. Oft hefur verið á það minnst að Þorvaldur hafi varað við hinu og þessu, sem leiddi síðan til þess að við vorum berskjölduð fyrir heimskreppunni. Mér finnst, við lestur þessara pistla, að Þorvaldur hafi í raun gert betur en það. Hann greindi allar kerfisáhættur rétt, og spáði stundum ævintýralega nákvæmt fyrir um hvað myndi gerast, ef ekkert yrði að gert. Í raun alveg fram á síðustu stundu. Valdhyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum þarf að gera eins og Guð efnahagsmála hjá Repúblikunum í Bandaríkjunum, Alan Greenspan, hefur gert. Það er að biðjast afsökunar. Að vissu leyti hefur Þorvaldur gegnt svipuðu hlutverki og Paul Krugman hagfræðiprófessor gegnir í Bandaríkjunum. Hann hefur látlaust gagnrýnt bandaríska seðlabankann og efnahagsstefnu Bush, einkum í föstum pistlum í The New York Times. Öll meginatriði í hans gagnrýni hafa reynst rétt. Fyrir það fékk hann nýlega nóbelsverðlaun.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment