Thursday, January 22, 2009

Fimm ráð til að róa fólkið í landinu

Fimm ráð til að róa almenning:
1. Dagsetja kosningar seinna á þessu ári. Til dæmis í byrjun apríl eða maí.
2. Tilkynna um það opinberlega að stærstu eigendur gömlu bankanna þriggja, og helstu stjórnendur, hafi verið boðaðir í yfirheyrslu vegna rökstudds gruns um að misbeitingu á markaðnum mánuðina áður en lánalínur bankanna lokuðust alveg. Það deilir enginn um að það er rökstuddur grunur um það í öllum bönkunum að hlutabréfaverði hafi verið haldið uppi. Viðskiptaráðherra hefur beinlínis upplýst um það. Í því felst ekki að maður vilji sjá blóð bankamanna, heldur miklu frekar að vilji sé sjánlegur til þess að rannsaka mál og upplýsa um þau. Eignir fólks í gegnum lífeyrissjóðina eru í húfi. Þegar átt er við stærstu eigendur er vitaskuld líka verið að tala um lífeyrissjóðina.
3. Skipa Gylfa Zoega hagfræðiprófessor, sem er óumdeildur og ópólitískur maður, sem yfirmann aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnnar vegna bankahrunsins. Hann er virtur á heimsvísu og ekki síst af hálfu IMF sem skarpskyggn fræðimaður á sínu sviði. Hann nýtur auk þess virðingar hjá almenningi og hefur yfirvegaða og róandi nærveru þegar hann kemur fram.
4. Geir H. Haarde forsætisráðherra sendi öllum heimilum í landinu bréf einu sinni í viku fram að kosningum þar sem rakið er á hvaða stigi efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og IMF er. Nákvæmlega er svo tilgreint hvað hefur gerst í hverri viku. Alveg sama hvað það er lítið eða mikið.
5. Stjórnvöld viðurkenni að stærstu pólitísku mistök Íslandssögunnar hafi verið þau að leyfa bönkunum að stækka upp í 10falda þjóðarframleiðslu í minnsta mynthagkerfi heims. Viðurkenningin þyrfti að koma fyrir boðaðar kosningar. Þá fyrst skapast grunnur til þess að ganga á yfirvegaðan hátt til kosninga.

No comments: