Thursday, January 1, 2009

Fórnuðu líffærum fyrir Sambandið?


Keyrði frá Húsavík til höfuðborgarsvæðisins í dag. Það merkilegasta við ferðina var þetta:

Í Víðihlíð var áramótaballið á Hvammstanga, í Húnaþingi vestra, auglýst í bak og fyrir. Ballið fór víst fram í félagsheimilinu á Hvammstanga. Hljómsveitin sem spilaði á ballinu hét Sambandið, nema hvað. Norðurland vestra hefur lengi verið mikið framsóknarvígi, en mér finnst það nú frekar langt gengið þegar heimamenn eru farnir að líta á Sambandið sem rokk og ról. Aðgangseyrir var þrjú þúsund íslenskar krónur. Þrjú þúsund. Inn í því var ekki innifalið neitt annað en að komast inn í félagsheimilið á Hvammstanga og þurfa, nauðbeygður, að hlusta á Sambandið. Það stóð ekkert um það í auglýsingunni að miðasalar tækju á móti líffærum, ef þannig stæði á að einhver væri ekki tilbúinn að eyða þrjú þúsund krónum til að komast inn. En ég geri ráði fyrir því. Reyndar var sérstaklega tekið fram í auglýsingunni að enginn posi væri að svæðinu. Mér finnst það auka líkurnar á því að einhver hafði séð þann kost vænstan að fórna nýra, jafnvel botnlangatotunni - af því að hún er óþörf - til þess að komast inn.

2 comments:

Kalli Hr. said...

Hahahahaha, þvílkt verð! Væntanlega er þetta súpergrúppa með Paul McCartney, Bono, Lars Ulrich, Brian May og Gene Simmons. Fátt annað gæti útskýrt þetta verð.

Mikill fengur að þú sért farinn að skrifa hér aftur!

Eyjólfur said...

Sælir, og gleðilegt árið. En ég tók sérstaklega eftir þessu plakati þegar ég stoppaði í Víðihlíð núna þann 5 jan...ég var vægast sagt undrandi!