Friday, October 16, 2009

Maradona var ekki orðinn 14

Maradona er mættur aftur. Ég kann ekki rómönsk tungumál en mér skilst að hann hafi sagt eftir sigurinn á Úrúgvæ á miðvikudaginn, sem tryggði HM-sætið, að þeir sem hafi gagnrýnt hann megi sjúga á honum typpið. Hann hafði meðal annars fyrir því að segja; "afsakið dömur", áður en hann lét orðin falla. Íslenskir þýðendur hafa ekki fengist til þess að þýða þetta beint.

Þetta var ekki eini sigur Maradona á Úrúgvæ, fjarri því. Í júlímánuði árið 1971 mætti 14-landslið Argentínu liði Úrúgvæ í höfuðborginni Montevideo. Þar fór fram keppni ungliðaliðanna frá Suður-Ameríku. Þarna voru samankomnir hæfileikaríkustu 14 ára drengir álfunnar. Fyrir keppnina höfðu verið settar reglur um að liðin mættu aðeins vera skipuð leikmönnum á 14anda aldursári. Reglurnar voru sniðnar að því að koma í veg fyrir þátttöku Maradona í mótinu. Hann var þá 10 ára að verða 11, 30. október. Hæfileikar hans höfðu þá þegar spurst út fyrir landamæri Argentínu og yfirleitt voru vellirnir í fátækrarhverfum í Bounes Aires, þar sem Maradona átti heima, umkringdir áhorfendum þegar hann lék lystir sínar.

Þjálfara argentíska liðsins tókst að smygla Maradona með í liðið undir dulnefni. Hann byrjaði þó ekki inn á. Flautað var til leiks. Argentínumenn áttu í vök að verjast gegn sprækum Úrúgvæum. Staðan í hálfleik var 2-0 heimamönnum í vil. Þegar komið var fram í seinni hálfleik voru góð ráð dýr. Þjálfarinn hóaði í Maradona. Hann kom inn og slátraði liði Úrúgvæa með sex einleiksmörkum. Leikurinn endaði 3-6.

Þjálfari Úrúgvæa sagði eftir leikinn að hann hefði aldrei séð annað eins. Hann hefði ekki haft í sér að láta stöðva leikinn þó hann hafi vitað mæta vel að þarna hefði Maradona verið á ferð og hinar umdeildu reglu verið brotnar. Þjálfari Brasilíu, sem var áhorfandi að leiknum, varð hins vegar æfur og krafðist þess að Maradona yrði rekinn úr mótinu.

Eftir mikið fjaðrafok og rifrildi varð það ofan á Maradona fengi að spila með Argentínu en aðeins annan hálfleikinn í hverjum leik. Úrslitaleikur mótsins var gegn Brasilíu. Eins og ævinlega voru Argentínumenn undir í fyrri hálfleik en leikurinn kúventist með innkomu Maradona í síðari hálfleik. Brasilíumenn réðu ekkert við hraða og leikni Maradona. Hann tryggði Argentínu sigur á Brasilíu með fjórum mörkum, öll upp á eigin spýtur eingöngu. Þjálfari Brasilíu var æfur eftir leik og sagði þetta svindl. Maradona væri alls ekki 14 ára.

Heimild: The Hand of God eftir Jimmy Burns og pistlar sem skrifaðir hafa verið um hann í erlend blöð. Bók sem eingöngu var unnin með samtölum við samferðamenn Maradona þar sem hann sjálfur neitaði höfundinum um viðtal. Bókin er margverðlaunuð, en um leið umdeild. Maradona gaf sjálfur út hina hörmulegu El Diego nokkru eftir The Hand of God. Að því er virðist til þess að reyna að leiðrétta það sem honum líkaði ekki við í bók Burns. Sérstaklega fóru kaflar í bókinni um leti Maradona á æfingum í taugarnar á honum. Rakið er nákvæmlega í bókinni hvernig ferill Maradona fór út um þúfur eftir því sem kókaínfíkn hans dýpkaði. Hann æfði lítið sem ekkert með Napoli eftir vormánuði 1988, þegar tímabilinu 1987-1988 lauk. Hann var þó á þeim tíma, langbesti knattspyrnumaður heims. Hélt þeim status í raun fram að HM á Ítalíu 1990. Þá fór Matthaus að gera sig gildandi. Eflaust mun enginn leika það eftir þegar Maradona fór til smáliðs Napoli á Ítalíu og breytti því í besta félagslið heims á innan við þremur árum. Menn eins og Zidane, standa enn á gati yfir hæfileikum hans.

Hér er ágætt The Best of Maradona myndband. Mæli sérstaklega með ótrúlegu "tötsi" (4 mín og 17 sek búnar) í leik gegn AC Milan, þar sem hin fræga varnarlína Milan liðsins er yfirbuguð.

Friday, August 28, 2009

Það er byrjað aftur...

Ég get ekki séð betur en að Reykjavíkurborg sé byrjuð aftur, á fullkomlega óréttlætanlegum lóðaúthlutunum. Lóðaverðið tekur mið af heildarkostnaði við uppbyggingu hverfa, líkt og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru að gera eftir að lánsfé flaut yfir íslenskan efnahag og sökkti honum að lokum. Þýðir að lóðakaupendur eru látnir borga fyrir göngubrýr, heildarkostnað við götumyndun, skólauppbyggingu og þess háttar þjónustu, sem nánast allir aðrir Reykvíkingar hafa greitt fyrir með útsvarsgreiðslum í gegnum áratugi. Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa sloppið vel í þeirri hörðu og réttlátu gagnrýni sem stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa reynt að svara fyrir. Sveitarstjórnarmenn útveguðu pláss undir einhverja mestu fasteignabólu sem myndast hefur nokkru sinni, með því skipta um aðferðarfræði þegar kemur að nýbyggingum og skipulagsvinnu. Hún felst í hinu fyrrnefnda; að láta lóðakaupendur standa undir heildaruppbygginu nýrra hverfa. Þetta hafði tvær alvarlegar afleiðingar. a) Grunnkostnaður við byggingu húsnæðis hækkaði mikið og leiddi því til beinnar hækkunar á húsnæði. b) Ný markmið voru sett um hraða uppbyggingu hverfa, sem leiddi til mikillar þenslu sem byggði öðru fremur á lántökum, lóðakaupenda annars vegar og svo hins opinbera hinsvegar. Ekki síst vegna lagningu veitulagna og raflína. Auk leiddi þessi mikli uppbyggingarhraði til þess að greining á húsnæðisþörf varð verri. Að lokum standa eftir tóm hverfi.

Ef það á virkilega að vera þannig - núna - eftir að mesta efnhagsbóla allra tíma sprakk í loft upp - m.a. vegna þess hvernig hið opinbera og bankarnir blésu í fasteignabóluna - að lóðir eigi að seljast á grunni þess að lóðakaupendur borgi beint fyrir skóla, sundlaugar, göngubrýr og aðra þjónustu í nýjum hverfum, þá hafa sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ekkert lært. Reyndar hefur borið á því að sveitarstjórnarmenn í sumum sveitarfélögum, einkum Seltjarnesbæ og Garðabæ, stæri sig af því að ávinningurinn af sölu á byggingarrétti fullkomlega tómra hverfa sé núna inn á bankabók. Þetta á meðal annars við um Hrólfskálamelssvæðið á Seltjarnesi, þar sem lúxusíbúðablokk er inn í miðjum kjarna bæjarins. ÍAV greiddi tæplega 1,5 milljarða fyrir. Ein kona bjó síðast þegar ég vissi í fjölbýlishúsinu, Hildur Guðmundsdóttir. Skuldir ÍAV hins vegar, vegna þess láns sem fyrirtækið tók til að greiða Seltjarnesbæ fyrir byggingarréttinn hafa verið þjóðnýttar eftir hrunið. Skattborgarar sitja því uppi með þetta tóma hverfi á Seltjarnarnesi, þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn á Seltjarnesi geti ráðstafað þeim peningum sem ÍAV tók að láni. Reyndar eru skuldir ÍAV vegna þessa svæðis miklu hærri en 1,5 milljarðar þar sem lánið var upphaflega í erlendri mynt. Ályktunin sem af þessu má draga er eftirfarandi, í einföldum orðum; tóm hverfi eru þjóðhagslega óhagkvæm, alltaf, og að lokum lendir kostnaðurinn við að halda hverfunum úti, þ.e. að reka lagnir, rafmagn og þjónustu, á skattgreiðendum. Það sama má segja um Urriðaholt í Garðabæ, þar sem skuldir einkafyrirtækis vegna uppbyggingar í hverfinu hafa verið þjóðnýttar. Þær eru nú umtalsvert hærri en sem nemur þeim ávinningi sem Garðabær hefur stært sig af, og hefur til ráðstöfunar inn á bók.

Wednesday, August 26, 2009

"Greiðslugeta" og "veðrými"

Eins og við mátti búast er umræðan um afskriftir húsnæðislána, einkum þeirra sem bundin voru við dagsgengi erlendra mynta, komin að nýju á fullt skrið. Strax í kjölfar þess að bankarnir, mótaðilar tugþúsunda í húsnæðislánasamningunum, hrundu fór umræðan á fullt. Þá gátu stjórnmálamenn ekki leitt málið til lykta auk þess sem nýju bankarnir voru því sem næst óstarfhæfir. Þeir eru nú að fá tilverugrundvöll, þ.e. efnahagsreikning og mat á eignum og skuldum, sem hægt er að miða við í rekstrinum. Nokkur atriði þarf að skýra fyrir almenningi, til þess að mögulegt verði að, í það minnsta, nálgast sæmilegt jafnvægi í umræðu um þetta mál sem augljóslega er eitt það stærsta í Íslandssögunni.
1. Fjármagnseigendur fengu hjálp þegar hrunið varð, meðal annars með því að ráðherrar í ríkisstjórn, kjörnir fulltrúar, beittu sér fyrir því að peningagreiðslur frá ríkinu myndu renna í áhættufjárfestingasjóði bankanna. Þetta gerðu m.a. ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Þetta hefur nokkuð ítarlega verið rakið í Morgunblaðinu, og meðal annars birtar fundargerðir bankanna sem sýna bein afskipti ráðherra af þessum hlutum. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki sýnt málinu áhuga, nema þá helst blaðamenn DV sem hafa verið á góðu skriði að undanförnu. Álitamálið hvað þetta varðar, er vitaskuld jafnræðið. Hvers vegna var þetta gert, og hvers eiga þeir að gjalda sem ekki fengu aðstoð? Útvöld sveitarfélög og einstaklingar, fengu með þessu hjálp frá ríkinu sem öðrum bauðst ekki. Þetta mál er að öllu leyti vanreifað að hálfu stjórnmálamanna. Botn þarf að fást í þetta, helst fyrir dómi. Allt bendir til þess að þessi augljósa mismunun að hálfu ríkisins sé lögbrot. Ef svo er ekki, þá er hún vítaverð spilling, þar sem útvöldum hópi samfélagsins er veitt fjárhagsaðstoð á kostnað annarra þegna, í nær fordæmalausu fjárhagshruni þjóðarinnar.
2. Vegna þessarar augljósu mismununar, sem innspýtingin á ríkisfénu í peningamarkaðssjóðina er, þá þyngist krafa skuldara um aðgerðir. Spurningin; Af hverju er þeim bjargað en ekki mér? brennur á fólki (Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra DV, gerði frábærlega grein fyrir vanmætti stjórnmálamanna við að takast á við þessi mál í leiðara í gær). Í svarinu við þessari spurningu kemur fram krafan um leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána. Leiðréttingin byggist m.a. á því, að stjórnvaldsákvarðanir hafa verið teknir um að hjálpa útvöldum hópi með fjármunum skattgreiðenda. Á sama tíma hafa lán fólks hækkað, þau verðtryggðu um meira en 20 prósent en gengistryggðu lánin hafa meira tvöfaldast í sumum tilvikum.
3. Afskriftin kostar peninga, og IMF, sjóðurinn í brúnni, er á móti afskriftum. Um það hefur margoft verið upplýst, nú síðast af Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra. Mikil þörf er á því að fá niðurstöðu í það fyrir dómstólum hvort forsendubrestur hafi orðið í lánasamningum hjá fólki. Þó ekki nema fyrir þá augljósu ástæðu að viðsemjendur fólks, bankarnir, eru farnir á hausinn og lánasamningarnir hafa verið seldir á slikk til nýrra banka, sem ríkið kom á fót, án þess að mótaðilinn í samningunum, fólkið, hafi fengið nokkru um það ráðið. Þetta skapar augljóslega svigrúm til lækkunar á höfuðstólnum. (Því betur virðast bankarnir vera að útfæra þessar afskriftahugmyndir, eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Íslandsbanki þrýstir á um að málið verði sett á dagskrá og aðgerðir samræmdar). En bara það, að mögulegt sé að lækka - og þar með leiðrétta - höfuðstól lána er ekki nóg. Það þarf að taka ákvarðanir. Sporin sem ráðherrar í ríkisstjórn skilja eftir sig í þessum málum hræða. Fyrrnefndur Árni Páll sagði á dögunum, í uppsláttarfrétt á forsíðu Fréttablaðsins, að afskrifa ætti hluta af lánum þeirra sem væru "umfram greiðslugetu og veðrými". Þetta var meðhöndlað sem nokkur tíðindi af Fréttablaðinu og reyndar líka fréttastofu RÚV um tíma. Í reynd er þetta ekki-frétt. Auðvitað þarf að afskrifa hluta láns, sem ekki er mögulegt að fá til baka! Árni Páll er ekki að segja neitt annað en það. Og reyndar er það nú svo að þetta hugtak "veðrými" er svo vítt hér á landi, að vandséð er hvernig hægt er að komast í þá aðstöðu að fá afskrift nema að litlu leyti. Lögin gera ráð fyrir því að bankar, sem keypt hafa lánasamninga frá ónýtu bönkunum á afslætti, geti gengið að öðrum eignum en fasteigninni til þess að freista þess að ná upp í skuldir. Þeir hafa "rými" til þess í dag. Aðstæður í landinu hafa vitaskuld gjörbreyst þar sem fasteignaverð er að hrynja - hefur lækkað um 31 prósent frá því 2007 að raunvirði - en höfuðstóll lána hefur hækkað á móti. Þetta þýðir að hætta er á því að tugþúsundir verði sett varanlega í neikvæða eiginfjárstöðu, og hluti af þeim beint í gjaldþrot, ef engar ákvarðanir verða teknar. Meira síðar.

Tuesday, August 25, 2009

Þáttastjórnandinn Björn Bjarnason

Ég tók mig til í gær og horfði á fyrsta þátt Björns Bjarnasonar á ÍNN, frá 19.ágúst, þar sem hann spjallaði við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Björn er skínandi góður spyrill og mér finnst þetta hlutverk henta honum vel. Einhver kann að hafa fundið fyrir því að Björn hafi verið óskaplega hrifinn af verkum Hönnu Birnu, og ekki haldið hlutleysi sínu þannig sem pólitískur samherji, en það truflaði mig ekkert. Hver hefur sinn stíl í þessu. Þetta var yfirvegað og upplýsandi viðtal. Vonandi tekur Björn smá áhættu í þessum þáttum í framtíðinni og fær til sín pólitíska andstæðinga, og spyr þá spjörunum úr. Það gæti orðið athyglisvert.

Friday, August 21, 2009

Vörn gegn landflóttanum

Landflóttinn, sem var óumflýjanlegur, er hafinn. Margir hafa nefnt að kreppan í Færeyjum, þegar 20 til 25 prósent íbúa fluttu frá eyjunum, ætti að vera víti til þess að varast. Ísland er að mörgu leyti í verri stöðu, þar sem það er fyrst og fremst millistéttin sem er að fara úr landi. Iðn- og háskólamenntað fólk sem getur fengið tækifæri í öðru landi sem býðst ekki hér, vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins.

Að mínu mati er eitt áhrifamesta tækið sem stjórnmálamenn hafa til þess að sporna gegn þróuninni, eitthvað sem of lítið hefur verið rætt um. Það er að lögfesta, með lagabreytingu, að lánastofnanir geti aðeins gengið að húsnæði fólks vegna fasteignaveðlána. Eins og staðan er í dag geta lánastofnanir strípað fólk af eignum og fé uppi í skuldir.

Gallarnir við þetta eru þeir, að hugsanlegt er að einhverjir muni skila lyklunum af heimilum sínum sem ráða við af greiða af lánum sínum. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til hraðara verðfalls á húsnæði. En þar með eru gallarnir upptaldir.

Kostirnir eru þeir að fólk er ekki sett í tugþúsundavís í gjaldþrot, eða neikvæða eiginfjárstöðu í áratugi. Fólk hefur það úrræði að skila inn lyklunum ef það telur sig ekki geta greitt áfram vegna stöðu sinnar. Í sjálfu sér er ekki um mikla breytingu að ræða. Hinir gjaldþrota bankar, og Íbúðalánasjóður stjórnvalda - höfundar mestu húsnæðisbólu mannkynssögunnar - lánuðu til fasteignakaupa öðru fremur með veði í húsnæðinu sem keypt var. Forsenda lánsins var kaupin á húsnæðinu. Áhættunni er deilt á sanngjarnan hátt með fyrrnefndri lagabreytingu.
Svo er annað atriði, að kostnaðurinn við að elta eignir og fé uppi í afganginn af skuldunum, þ.e. þegar búið er að taka húsnæðið, er í mörgum tilfellum meiri en ávinningurinn af því. Auk þess er nú ekki víst að fólk muni í umvörpum yfirgefa heimili sín ef það hefur á annað borð möguleika á því að vera þar áfram.

Þetta fyrirkomulag er ekkert nýtt. Í Bandaríkjunum, þar sem bankar og einkareknir íbúðalánasjóðir lánuðu til fasteignakaupa, hefur fyrrnefnt fyrirkomulag verið við lýði árum saman. Þetta er skynsamlegt fyrirkomulag, því lánastofnanir bera stærri hluta af áhættunni heldur en fólkið. Þetta gerir það einnig að verkum að sveiflur á fasteignamarkaði verða sársaukaminni fyrir almenning. Bankarnir fara í þrot í versta falli, en fólkið er ekki sett í nauðungarstöðu eins og verður staðan hér, ef ekkert verður að gert.

Fyrrnefnd breyting er ekki síst mikilvæg hér á landi vegna hinnar séríslensku verðtryggingar sem stjórnmálamenn í landinu hafa litið á sem sjálfsagðan hlut (Því miður þarf maður að taka það sérstaklega fram að Samfylkingarþingmenn eru líka í mengi "stjórnmálamanna". Þeir tóku við viðskipta- og félagsmálaráðuneytinu rétt áður en mesta eignabóla mannkynssögunnar náði hæsta punkti, og skiluðu svo þessum ráðuneytum af sér, úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, þegar allt var sprungið í tætlur. Það virðist full þörf á því að halda þessu til haga). Verðtryggingin hefur étið upp allar mánaðarlegar greiðslur fólks upp í húsnæðislán undanfarin þrjú ár, og að auki hefur hún valdið viðbótarmilljónum ofan á höfuðstól lána, þrátt fyrir greiðslurnar. Eini maðurinn sem ég veit um að er hrifinn af verðtryggingunni er Þorkell Helgason, fyrrverandi orkumálastjóri. Sá hinn sami og samdi kosningakerfið. Hann skrifaði grein til varnar verðtryggingunni í Moggann í vetur. Ég hef ekki fundið neinn annan.

Verðtryggingin getur líka orðið grunnurinn að því að neikvæð eiginfjárstaða verður varanleg staða hjá tugþúsundum Íslendinga út ævina, miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Breytingin á forsendum veðlána gerir það líka að verkum, að afskriftarumræðan, og útfærslan eftir atvikum, verður að mörgu leyti óþörf. Meiri þrýstingur myndast auk þess á lánastofnanir að létta greiðslubyrðina hjá fólki sem þarf á því að halda. Annaðhvort með afskriftum eða öðrum úrræðum. Nóg er að vita til þess að fólk verði ekki sett í gjaldþrot vegna húsnæðislána ríkisins og bankanna, sem hvoru tveggja brugðust almenningi í landinu svo ævintýralega að ekki eru nokkur dæmi um í þróuðu ríki á vesturlöndum eftir seinna stríð.

Saturday, June 20, 2009

Lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun

Í framhaldi af þessu.

Landsvirkjun og íslenska ríkið hafa gert með sér viðbúnaðarsamning til að róa greinendur lánshæfismatsfyrirtækja. Í honum felst að Seðlabanki Íslands er orðinn þrautavaralánveitandi fyrirtækisins. Bankinn leggur fyrirtækinu til allt að 300 milljónum dollara, gegn krónum eða skuldabréfum, komi til þess að fyrirtækið verði í vandræðum með að greiða vexti og afborganir af lánum. Samningurinn gildir til 1. júlí 2011.

Þrennt er nú einkum að valda vandræðum hjá Landsvirkjun. 1. Ekkert aðgengi að erlendu lánsfé, 2. hrun á hrávörumörkuðum sem hefur áhrif á álbransann, stærsta kúnna Landsvirkjunar, og 3. að íslenska ríkið eigi Landsvirkjun.
Hrun álbransans hefur leitt til þess að minni arðsemi hefur verið af sölu á raforku til álveranna en áður. Augljóst er að krafan um 11,9 prósent arðsemi eigin fjár vegna Kárahnjúkavirkjunar, sem var forsenda framkvæmdarinnar, er í uppnámi. Landsvirkjun endurmat arðsemina í byrjun árs í fyrra, þegar álverð var í hæstu hæðum, og var arðsemin þá reiknuð rúmlega 13 prósent. Forsendurnar fyrir endurmatinu, sem leiddu til hækkunar arðsemi, eru allar búnar að skolast burt og reyndar gott betur. Vandamál álbransans er stórt og mikið. Er því spáð að ekki muni ganga á birgðir, sem nema nú tæplega 4,5 milljónum tonna - sexfaldri ársframleiðslu á Íslandi - nema fyrr en framleiðslufyrirtæki hafa náð botninum. Ekkert bendir til þess að það hafi gerst.

Þó er það ekki svo, að viðskiptin séu botnlaust tap í augnablikinu. Landsvirkjun á um 90 milljónir dollara, 11,6 ma., í lausafé sem er dágóður slatti í því árferði sem nú ríkir. Þá hefur fyrirtækið haft til þess svigrúm til þess að borga niður skuldir. Þó ekki nema aðeins lítið brot af heildinni.
Skuldirnar eru kjarninn í áhyggjum matsfyrirtækja. Enda væri raforkusalan ævintýralega góður buisness ef Landsvirkjun skuldaði ekki neitt.

Í lok árs námu langtímaskuldir fyrirtækisins um 3 ma. dollara, eða sem nemur 383 milljörðum króna. Á bak við þessar skuldir eru hins vegar virkjanir og stöðugar tekjur til áratuga. Lánshæfismatsfyrirtækin hafa sagt íslenska ríkið vera ótrúverðugan eiganda fyrirtækisins í því árferði sem nú ríkir. Það muni ekki geta komið Landsvirkjun til bjargar ef allt fer á versta veg; þ.e. ef lánamarkaðir erlendis halda áfram að vera lokaðir fyrir Íslandi og öllu sem því tengist. Reyndar hefur Landsvirkjun aðgengi að 400 milljón dollara veltiláni til að mæta tímabundnum erfiðleikum við að nálgast dollara. Heimskreppan er hins vegar löngu búin sprengja skala yfir tímabundna erfiðleika, og ólíklegt að veltilánið muni ráða úrslitum ef lánamarkaðir verða varanlega lokaðir. Það mun smá saman þurrkast upp.

Því miður er það svo, að áhyggjur lánshæfismatsfyrirtækja eru á rökum reistar. Í versta falli gæti frekari lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar leitt til gjaldfellingar lána, eins og Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur bent á. Þá yrðu góð ráð dýr. 300 milljónirnar frá seðlabankanum myndu duga skammt á móti skuldum sem eru um tíu sinnum meiri. Þá kæmust bestu tekjustraumar á Íslandi í erlendri mynt í eigu erlendra banka. Þetta eru einfaldlega staðreyndir, og tengjast ekkert debate-inu um hvort auðlindir landsins geta verið í eigu útlendinga eða ekki, eins og Össur Skarphéðinsson hefur sagt. Veruleikinn er einfaldlega sá, að lánað var til Landsvirkjunar gegn veðum. Ríkisábyrgðin, sem áður var lykillinn að góðum lánakjörum - og þannig óbeint trygging fyrir reiknaðri arðsemi af orkusölunni - er nú orðin að helsta vanda Landsvirkjunar. Í næstum einni svipan.

Ég hef áður fjallað um hvers vegna það kann að vera óskynsamlegt að láta skattgreiðendur bera Landsvirkjun á herðum sínum. Ætla því ekki að gera það aftur.

En lausnin á þeim mikla vanda sem Landsvirkjun er í - hvað sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja út á við - kynni að vera sú að gera snöggar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar. Með því að selja það til lífeyrissjóðanna. Verðmiðinn; yfirtaka skulda. Sé horft til fyrri debate-a um virði Landsvirkjunar þá kann það verð að vera lágt. Hagsmunamatið er hins vegar það, að algjör nauðsyn er að tryggja stöðu Landsvirkjunar og fastra áratugalangra orkusölusamninga fyrirtækisins í erlendri mynt. Lífeyrissjóðirnir geta eignast fyrirtækið gegn þessu verði og greitt fyrir að hluta með því að færa erlendur eigur sínar heim, svo dæmi sé tekið. Í raun er Landsvirkjun "erlend" eign. Með efnahagsreikning að öllu leyti í dollurum þannig að ef menn hafa það sem prinsipp, að dreifa eignasafni lífeyrissjóða þannig að fyrirtæki sem byggja á erlendri mynt séu ákveðið hlutfall eignasafnsins, þá ætti það ekki að vera vandamál. Til framtíðar gæti þetta leitt til þess að áhrif orkusölunnar á fjárfestingastarfsemi í landinu yrði meiri en nú. Það hefur einmitt verið einn helsti galli þess að þjóðnýta orkusöluna til álvera, að margfeldisáhrifin á nýsköpun og fjárfestingar hafa ekki verið eins mikil og þau gætu verið. Fyrirvararnir eru vitaskuld þeir að arðsemin af orkusölunni haldist eða aukist- það er að lánakjör séu góð - við þessi eigendaskipti. Með þessu móti verður orkusalan áfram í eigu almennings en skuldir sem íslenska ríkið ábyrgist minnka. Hugsanlega væri hægt að grynnka verulega á skuldum Landsvirkjunar með því einfaldlega að borga hluta þeirra upp strax. Þetta gæti haft hliðaráhrif á traust erlendra banka á Íslandi, en meira um það síðar.

Íslenskir stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins hafa undanfarnar vikur setið sveittir við að greina þann gríðarlega vanda sem íslenskur efnahagur er í. Ég óttast að staða Landsvirkjunar hafi ekki verið greind ofan í kjölinn og um hana rætt út frá ólíkum sviðsmyndum. Ég reyndar veit að það hefur ekki verið gert, þar sem önnur atriði hafa haft forgang. Áður en menn taka ákvarðanir um að setja hundruðir milljarða af eignum lífeyrissjóða í byggingu húsa og vega, þá ættu menn að hugleiða eigendabreytingu á Landsvirkjun. Ég er viss um að það er þess virði. Og sú breyting myndi leysa ýmis vandamál, um leið og hagsmunir sjóðsfélaga lífeyrissjóða yrðu hafðir sem leiðarljós út úr vandanum.

Saturday, May 9, 2009

Time is ticking

Þetta birtist í Morgunblaðinu 2. apríl, og var tilvísun á miðopnu skýringu. Nú hefur Standard & Poor´s sett Landsvirkjun á athugunarlista og segir horfur fyrirtækisins neikvæðar. Þetta eru slæm tíðindi því Landsvirkjun þarf að endurfjármagna lán fyrir síðasta fjórðung næsta árs. Time is ticking.

Thursday, April 30, 2009

Meira að segja ekki vændi og dóp

Ég talaði við stjórnanda stórfyrirtækis hér á landi um daginn, þegar ég var að vinna grein um áhrif hárra stýrivaxta á rekstur fyrirtækja í því árferði sem nú ríkti. Hann sagði að aðeins tvær atvinnugreinar gætu þolað 15,5 prósent stýrivexti. Það væru vændi og fíkniefnasala. En í ljósi harðra aðgerða lögreglu gegn fíkniefnasölum að undanförnu, og lagasetningu gegn kaupum á vændi, þá væri ekkert eftir. Þessir háu vextir munu að lokum drepa alla atvinnuvegi, og þvinga okkar flottustu fyrirtæki úr landi.

Wednesday, April 29, 2009

Ég, Thurman, Hitler og Bateman


Ég, Uma Thurman, Michelle Pfeiffer, Daniel Day-Lewis, Jerry Seinfeld og hinn geðþekki írski miðvörður Kevin Moran (!) (Man. Utd. 1978-1988) höldum þennan dag hátíðlegan. As always. Þá koma aðstandendur Alfred Hitchcock eflaust saman í dag og minnast þess að hann dó um leið og ég kom í heiminn (Minnir mig á það, að í einhverjum af mörgum fylleríisgönguferðum úr miðbænum og heim á stúdentagarða í den, barst það í tal hversu gaman væri að sparka gæsum út í Reykjavíkurtjörn. Eins og rúgbý bolta. Koma þeim á óvart, þið vitið. Boom! KVAAAKK! Birds.) Ég hins vegar efast um að einhverjir muni gera sér þann dagamun að minnast 64 ára brúðkaupsafmælis Evu Braun og Adolfs Hitlers.

Ég fór í hádeginu á hádegishlaðborð Vox með konunni. Át fuglakjöt ýmis konar - mest af gæs -, sætar kartöflur, góð salöt, lax og steikta sveppi með lauk og sósu, og einhverju meira gumsi. Svo eitthvað meinhollt kökuhlaðborð eftir ár. Æfingin frá því í morgun fór fyrir lítið, þó ég hafi reyndar étið hóflega þrátt fyrir tegundamagnið. Tók eftir því þegar ég fór út að það var þriggja metra Húsavíkingur - ef kokkahatturinn er meðtalinn - að elda. Bjarni Jakobsson heitir hann. Það hlaut að vera, hugsaði ég. Bulletproof ástæða fyrir góðum mat. Matarbúrið fyrir norðan.

Díalógur dagsins er úr American Psycho, og tengist mat:
Patrick Bateman: I'm on a diet. Jean: What, you're kidding, right? You look great... so fit... and thin. Patrick Bateman: Well, you can always be thinner... look better. Jean: Then maybe we shouldn't go out to dinner. I wouldn't want you to lose your willpower. Patrick Bateman: That's okay. I'm not very good at controlling it anyway.

Tuesday, April 28, 2009

Verðfall á fasteignum

Frá því í lok árs 2007 hef ég skrifað fjöldann allan af greinum um hætturnar á fasteignamarkaði hér á landi. Fyrst í opnugrein í FBL, undir fyrirsögninni; Ballið búið, og einnig opnugrein síðastliðið vor í 24 stundir undir fyrirsögninni; Óveðurský í augsýn. Þá settu við Raxi saman greinaflokk fyrir Morgunblaðið fyrr á þessu ári, um eftirstöðvar fasteignabólunnar, ástæður hennar og afleiðingar.

Í öllum tilvikum stóð ekki á því að fasteignasalar höfðu samband og kvörtuðu yfir því að þetta væri neikvætt fyrir markaðinn. Einnig hringdu verktakar og kvörtuðu yfir of mikilli neikvæðni. Rangt stöðumat þeirra á fasteignamarkaðnum hér er ein af ástæðum fyrir mestu eignabólu sem myndast hefur nokkru sinni í heiminum.

Fasteignamarkaðurinn er grunnurinn af vandamálum í heiminum. Eignabruninn á rætur þar. Nytimes.com gerir frábærlega grein fyrir stöðunni í USA á vef sínum. Þar hefur verið gríðarlegt verðfall á skömmum tíma. Leiða má af því líkum, að það geti orðið meira hér.

Tuesday, April 21, 2009

Viðbjóður í Kambódíu

Í kvöld var maður minntur á hversu léttvæg vandamál er tengjast efnahagsþrengingum geta verið í samanburði við aðra hluti í útlöndum. Heimildarmyndin Börn til sölu, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu, var Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur blaðamanni og myndatökumanninum sem var með henni til mikils sóma. Og RÚV einnig. Þessi mynd verður eflaust seld til alþjóðlegra sjónvarpsstöðva, ef það verður reynt. Hún er að minnsta kosti þess virði.

Kambódía er ein katastroffa, frá a til ö, eins og myndin sýnir. Ég hafði heyrt af þessu með mansals-viðbjóðinn í landinu, sem myndin fjallaði um, frá félaga mínum sem hafði farið til landsins sem bakpokaferðalangur. Veruleikinn slær mann hins vegar hálfpartinn útaf laginu. Það eina sem er hægt að segja um þetta barnavændi og þennan stórfellda mansalsiðnað sem fær að viðgangast í landinu, er að þetta er djöfulsins viðbjóður. Sameinuðu þjóðirnar virðast þurfa að taka landið yfir til þess að koma í veg fyrir a.m.k. hluta þeirra mörg hundruð þúsund mannréttindabrota gagnvart börnum sem framin eru þarna á hverju ári.

Dig dagsins

Lag þriðjudagsins. Dig. Incubus. Vinnur á. Fínt lag.

Moll fyrir starfsmenn í kreppunni

Þó Microsoft hafi skorið niður eins og öll önnur stórfyrirtæki er fjárhagur fyrirtækisins ótrúlega góður. Mágur minn, Hjalti Þórarinsson, hefur unnið í höfuðstöðvum Microsoft síðan hann lauk MBA námi í MIT fyrir nokkrum árum. Hann henti á mig frétt um að moll væri að rísa fyrir starfsmenn Microsoft í Seattle. Með öllu. "Brjáluð kreppa" stóð í póstinum. Microsoft hefur sýnt því áhuga að kaupa orku af Orkuveitu Reykjavíkur, með hugsanlegt netþjónabú - og jafnvel eitthvað meira - í huga. Stjórnmálamenn sem stýra OR hafa auðvitað ekkert hugsað út í það geti skipt máli að fá þetta stærsta nýsköpunarfyrirtæki heims til landsins. Frekar er orkan seld til álvera og hitt ekki skoðað að neinu marki. Google hefur líka sýnt því áhuga að starfa hér. Það er líklega dínamískasta nýsköpunarfyrirtæki heims. Núna er grundvallarmunur á stöðu álframleiðenda í heiminum, einkum þeim sem starfa hér á landi - Alcoa og Rio Tinto -, og síðan nýsköpunarrisa eins og Microsoft og Google. Álframleiðendurnir eru skuldugir upp fyrir haus, eftir offjárfestingar í bólu-skeiði á heimsvísu. En Þannig er ekki beint staðan hjá Microsoft og Google. Þau fyrirtæki skulda ekkert. Ekki einn dollar.

Sunday, April 19, 2009

Bókabúð ríkisins, Paulson og börn

Ég kom við í bókabúð ríkisins, Eymundsson í Austurstæti, fyrir páska og keypti eintak af Forbes frá 30. mars. Dótturfyrirtæki íslenska ríkisins, Nýja Kaupþing, rekur búðina. Þar var meðal annars fjallað um hvað ríkustu menn heims hafa grætt og tapað í kreppunni. Flestir hafa tapað miklu. En nokkrir hafa grætt. John Paulson, forsprakki vogunarsjóðsins Paulson and co., hefur grætt um 3 milljarða dollara á kreppunni. Hann sjortaði bandarískan húsnæðismarkað og græddi ævintýralega. Það sama gerði hann árið 2007 en hann var þá launahæsti forstjóri í Bandaríkjunum. Þá græddi sjóðurinn 3,7 milljarða dollara.

Í Forbes-ritinu var leiðari þar sem skattahækkanir Obama voru harmaðar. Skrifin voru afar grunnhyggin og vitlaus, svo ekki sé meira sagt. Leiðarinn endaði á orðunum. And children will die, far away. Þetta átti að undirstrika að skattahækkanirnar myndu að lokum drepa börn í fátækustu ríkjum heims. Ég veit ekki hvað þessi leiðarahöfundur myndi segja ef hann kæmist að því að íslenska ríkið væri nú að stuðla að bættum hag Forbes í bullandi samkeppni við einkareknar bókaverslanir. Líklega myndi hann brjálast, en samt sleppa þessu með börnin.

Friday, April 17, 2009

Konur eru líka menn

Þessi frásögn nytimes.com er merkileg. Hrikalegur glæpur. Í vægast sagt sæmilegri einfeldni er hægt að segja að morðinginn hafi komist að því að konur geti líkað verið menn. Og brjálast síðan.

Tuesday, April 14, 2009

Fasteignaverðið undirstaðan

Það var ágætt viðtal hjá Jay Leno við John McCain á dögunum, sem sýnt var á Skjá einum í kvöld. Þar spurði Leno út í efnahagsvandann og hvort hann treysti Obama til þess að leysa hann. McCain sagði: "Ég geri það, og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hann geri það. Þó ég sé ósammála honum um margt." Þetta var heiðarleg nálgun hjá McCain og auðvitað rétt við þær aðstæður sem eru í landinu. Hann veit, að þverpólitísk samheldni er það eina sem getur hjálpað Bandaríkjamönnum út úr vandanum. Íslenskir stjórnmálamenn mættu hafa það bak við eyrað nú þegar gjaldmiðillinn er ekki lengur markaðsvara og 80 prósent fyrirtækja í landinu eru með neikvætt eigið fé, það er tæknilega gjaldþrota.

Greiningin hjá McCain var líka skörp. Hann sagði augljóst að efnahagur Bandaríkjanna, og heimsins, muni ekki batna fyrr en stöðugleiki einkennir fasteignamarkaði. Hann var ekki tilbúinn að spá neinu um bata en sagði augljóst að viðspyrna yrði ekki almennileg, fyrr en fasteignaverðið hætti að lækka. Þar hefðu vandamálin byrjað og þar myndu þau leysast endanlega.

Þetta þurfa menn að hafa í huga hér á landi. Fasteignamarkaðurinn er drifkrafturinn á lánamarkaði. Á meðan hann er í lamasessi eftir sprungna bólu þá verða vandamál fyrir hendi. Fasteignaverð er nú að lækka mun hraðar en spár gefa til kynna. Fimm prósent nafnverðslækkun frá febrúar til mars var gríðarlega mikil lækkun, og í sjálfu sér ágætlega falin stórfrétt. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir um 25 prósent lækkun að nafnvirði út næsta ár. Ég held að verðlækkunin geti orðið meiri, einkum vegna offramboðs á vissum svæðum og síðan bágri stöðu verktaka. Íbúðir munu seljast á slikk á endanum, sem mun keyra verðið niður. Þá verður sú staða uppi, að tugþúsundir fjölskyldna verða með skuldir langt umfram eignir. Þá mun ekki duga að lengja lán úr 40 í 70 ár. Það mun þurfa meira til.

Saturday, April 11, 2009

Stjórnmál og fjölmiðlar

Ef að The Guardian myndi flytja fréttir af því að Royal Bank of Scotland, sem margir segja að hafa verið rekinn eins og vogunarsjóður - líkt og íslensku bankarnir - , hefði styrkt breska Verkamannaflokkinn um eina milljón punda, þá finnst mér líklegt að flokkurinn myndi minnka um að minnsta kosti helming og hrökklast frá völdum. Reyndar held ég að það yrði allt brjálað í Bretlandi. Og bara hvar sem er í hinum vestræna heimi, svo maður grípi nú til þeirrar algengu alhæfingar.

Fréttirnar um styrkina til Sjálfstæðisflokksins, frá FL Group og lánveitanda þess Landsbankanum, verða að skoðast í þessu ljósi. Stjórnmálamenn hafa að undanförnu sagt að fjölmiðlar hafi brugðist í bólunni sem að stjórnmálamenn bjuggu til að stóru leyti, með verstu hagstjórnarmistökum sem gerð hafa verið í vestrænu ríki. Ég held að það sé nokkuð til í því að fjölmiðlar hafi brugðist. En það er léttvægt í samanburði við að stærstu stjórnmálaflokkum landsins, ekki bara Sjálfstæðisflokknum, hafi verið haldið gangandi fjárhagslega, án þess að nokkur vissi, af bönkum og fjárfestingafélögum. Þeim sem sumir segja, meðal annars finninn sem rannsakaði orsakir bankahrunsins, að eigi 70 til 80 prósent af sökinni á því að bankakerfið í landinu hrundi á einni viku.

Cover

Píanóleikarinn Adam Monroe er nú orðinn frægur um allan heim. Hann sló í gegn á youtube með cover-um af rokklögum. Gott stuff meira og minna. Hann tekur Everlong með Foo Fighters flott, og líka Pardon Me með Incubus.

Thursday, April 9, 2009

Millivegalengdahlaupari með réttlætiskennd

Sveinn Margeirsson, hlaupari og doktor í iðnaðarverkfræði, hefur með málefnalegum hætti komið af stað umræðu um viðskipti er tengjast Byr Sparisjóði sem eru vafasöm, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Hluti stjórnar Byr hefur sent frá sér yfirlýsingu sem staðfestir það sem Sveinn hefur sagt, frá a-ö. Kona hans, Rakel Gylfadóttir, á mikinn heiður að þessu einnig. Ágætlega var gert grein fyrir málunum á smekkfullum fundi sem haldinn var á Grand Hóteli í gær og sagt er frá í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Meira að segja á forsíðu þess.

Ég hef stundum hugsað um millivegalengdahlaupara sem skrýtna menn. Menn sem fara sjálfviljugir í það keyra sig út í 800 og 1500 metra hlaupum. Eitthvað að, hef ég stundum hugsað. En Sveinn er augljóslega hnífskarpur náungi með réttlætiskennd. Það dugar kannski ekki í millivegalengdunum en stofnfjáreigendur Byr njóta nú góðs af því. Respect.

Tuesday, April 7, 2009

Oh, ohh.. what a wonderful feeling

Topp tíu, lög á fyrsta bjór þegar mikið stendur til. Ég veit að þetta er sértækt. En snilldin liggur yfirleitt þar.
1. Smile - Pearl Jam
2. Man in me - Bob Dylan
3. Phantom of the Opera - Iron Maiden
4. Slide Away - Oasis
5. Razor's Edge - ACDC
6. Warmth - Incubus
7. Alive - Pearl Jam
8. Paranoid Android - Radiohead
9. Wandering Star - Portishead
10. How I Could Just Kill a Man - Rage against the machine og Cypress Hill.

Ekki bara Bretland

Robert Peston lýsir í dag, því sem er að gerast í smækkaðri mynd hér á landi. Bankarnir geta ekki þjónustað Bretland, segir Peston. Eitt er víst; að ríkisbankarnir, sem ekki eru með efnahagsreikning og hafa ekki hugmynd um hvernig "eignir þeirra" - sem eru samt ekki þeirra - verða verðmetnar, geta ekki þjónustað Ísland. Óskiljanlegt er að þeir séu að eyða peningum skattgreiðenda í að auglýsa hvers kyns nýjungar á meðan ekkert liggur fyrir um stöðu þeirra. Fullkomlega óskiljanlegt.

Sunday, April 5, 2009

Topparnir fljóta á tapinu

Þrátt fyrir ævintýralegt tap bandarískra stórfyrirtækja, finna topparnir í fyrirtækjunum ekki of mikið fyrir því. Þeir virðast alltaf fljóta ofan á, hvað sem rekstrinum líður. Frábær interaktív umfjöllun hjá nytimes.com gefur manni góða mynd af stöðu mála.

Saturday, April 4, 2009

Samkeppnin við ríkið

Mest upplýsandi umfjöllun um áherslumál flokkanna sem bjóða fram í kosningunum 25. apríl, hafa verið góðar fréttaskýringar Björns Jóhanns í Morgunblaðinu undanfarna daga. Þær hafa verið kjarnyrtar, ekki of langar, og vel fram settar. Í dag er fjallað um áherslur er varðar endurreisn fjármálakerfisins. Þar koma fram að mestu sjálfsagðar áherslur; auka eftirlit, tryggja dreifða eignaraðild í bönkum til framtíðar, og þess háttar. Áherslumunur er þó milli flokka, sem fróðlegt er að sjá í skýrri töflu.

Eitt sértækt atriði finnst mér að stjórnmálaflokkarnir mættu útlista betur, og við blaðamenn þá kannski spyrja meira út í. Það er, hvernig endurreisa skuli íslenskan efnahag án þess að afsláttur sé gefinn á nauðsynlegum samkeppnissjónarmiðum. Tvö dæmi koma upp í hugann.
- Það er undarlegt að fylgjast með forsvarsmönnum ríkisbanka - sem enn er ekki að starfa skv. endanlegum efnahagsreikningi og hefur ekki fengið eigið fé frá ríkinu - rífast opinberlega við forsvarsmenn einkafyrirtækis sem nú reynir að bjóða upp á valkost í einstaklingsþjónustu í samkeppni við ríkisbankanna. Nýja Kaupþing fékk þúsundir nýrra viðskiptavina með stjórnvaldsákvörðun - sem áður voru hjá SPRON -, á meðan einkafyrirtækið MP banki tók áhættu með því að kaupa vörumerkið SPRON á 800 milljónir, og reyna síðan að fá fólk til sín í viðskipti frá Nýja Kaupþingi. Þetta er virðingaverð áræðni hjá fyrirtæki sem er tilbúið leggja mikið á sig til að byggja upp íslenskt bankakerfi, innan frá.
- Það sama má segja um fjölmörg fyrirtæki sem nú starfa á grundvelli íhlutunar frá ríkinu. Þar á meðal Eimskip - sem er með 30 milljarða neikvætt eigið fé - og Icelandic Group, sem hefur verið með neikvætt eigið fé í meira en eitt ár. Ég hitti fisksala hér á Húsavík í gær sem sagði mér að fyrirtæki sem hann vinnur hjá væri í mikilli samkeppni við Icelandic Group um að koma fiski inn á erlendan markað. Icelandic Group taldi sig geta undirboðið keppinaut sinn, þrátt fyrir að vera haldið lifandi af ríkinu. Hitt fyrirtækið hafði hins vegar verið rekið skynsamlega og passað upp á að lenda ekki í skuldafeni, á meðan uppgangstímarnir á höfuðborgarsvæðinu lögðu grunninn að hruninu. Það þarf nú að glíma við fordæmalausa niðursveiflu á fiskmörkuðum á eigin forsendum, á meðan Icelandic Group virðist starfa áfram á grundvelli tilslökunar frá ríkinu. Þessi tilslökun felur í sér afslátt á samkeppnislögunum. Það gefur auga leið.
-- Á endanum mun þessi staða, valda stórfelldu tjóni fyrir íslenskt atvinnulíf. Mikilvægt er að brjóta þessa stöðu upp strax, hvar sem hún myndast.

Friday, April 3, 2009

Dagblaðið er bíó

Ég sé að pressan.is, sá ágæti vefmiðill, segir að vefurinn sé framtíðarmiðillinn. Í mörg ár hefur legið fyrir að möguleikar á vefnum eru nánast óendanlegir þegar kemur að fjölmiðlum. Umræðuþátturinn á mbl.is, Zetan, sýnir það ágætlega. Það er allt hægt. Grafíska snilldin á flottasta fréttavef heims, nytimes.com, sýnir svo hvernig hægt er að flétta saman ýmis form blaðamennskunnar. Myndir og texta, hreyfimyndir og grafíska framsetningu.

Mér leiðist sá háttur blaðamanna að segja dagblaðið dautt. Ef menn trúa því, þá er lítið eftir. Í fyrsta lagi er það ekki rétt og í öðru lagi ber það við álíka skammsýni, og þegar allir voru sammála um að bíóið myndi drepast vegna videó tækninnar. Annað hefur heldur betur komið í ljós. Þrátt fyrir flatskjái, dvd og hátalara kerfi. Sem meira að segja er kallað heimabíó.

Möguleikar áskriftardagblaðsins til framtíðar felast einkum í þrennu. 1. Sjarmanum af því að fletta dagblaðinu og 2. síðan að einblína á gæði, frískleika og dýpt. 3. Aðgreiningu á efnistökum vefsins og dagblaðsins.

Thursday, April 2, 2009

Peston á G20

Það væri skemmtilegt verkefni að covera G20 fundinn í London. Sumir segja að þetta verði afdrifaríkasti fundur leiðtoga ríkja heims í áratugi. Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, segir skemmtilega frá stemmningunni á bloggi sínu.

Tuesday, March 31, 2009

Tipping point

Robert Wade, prófessor í hagfræði, sagði í fyrirlestri hér á landi í byrjun árs að íslensk stjórnvöld yrðu að hafa hraðar hendur og koma sínum mál í skjól, áður en heimskreppan dýpkaði enn meira. Hann nefndi síðan að annað "tipping point" í kreppunni, svipað og varð við fall Lehman Brothers 15. september í fyrra, yrði á bilinu mars til maí. Af fréttaskýringum í The New York Times að dæma þá virðist sem þessi spádómur Wade sé nærri lagi. Bílaiðnaðurinn, sem hefur hangið í lausu lofti síðan í fyrra, fær nú mikinn skell. Þvingaðar sameiningar eru framundan og uppsagnir á hundruðum þúsunda starfsmanna. Afleidd áhrif á ýmsan iðnað, sem bílaframleiðsla nærist á, verða óhjákvæmilega gríðarlega mikil.

Monday, March 30, 2009

Legend

Ólíkt flestum öðrum íslenskum bloggurum, ætla ég ekki að fjalla um Bjarna Ben eða Dag B. eftir helgina, heldur Matthew Le Tissier. Youtube geymir vel hversu fáranlega góður maðurinn var í fótbolta. Reyndar húðlatur og seinn, en með töts dauðans og síðan er hann besta skytta í sögu enska boltans. Held að það sé nokkurn veginn óumdeilt. Eiginlega öll mörkin í þessu myndabandi eru once in a lifetime. Svo er hann auðvitað enn meira legend en margir aðrir, fyrir að spila alltaf með skítaliði Southampton og fórna þannig alvöru landsliðsmöguleikum. Neitaði stórliðum á færibandi eftir hvert tímabil. Og hélt síðan áfram að troða boltanum án tilhlaups í skeytin langt utan að velli. Alltaf í bullandi botnbaráttu með local-klúbbnum. Respect.

Friday, March 27, 2009

Of gott til að vera satt

Jæja, þetta með Vedder og Borgarfjörð eystri reyndist rugl. Páll Óskar og Þursaflokkurinn verða aðalnúmerin. Þetta var auðvitað of gott til að vera satt.

Wednesday, March 25, 2009

Móment í Borgarfirði eystri

Ég hef verið að heyra orðróm þess efnis undanfarna mánuði að einhver sé að reyna fá Eddie Vedder til þess að halda tónleika í Borgarfirði eystri í sumar. Þá með sóló-efnið sitt fyrst og fremst. Vonandi er það rétt þó ég leyfi mér að efast um það. Það væri til að mynda stórkostlegt að sjá þetta lag live. Óskiljanlegt að það hafi ekki ratað á soundtrack plötuna úr hinni stórgóðu kvikmynd Dead Man Walking með meistara Sean Penn, í ljósi þess að lagið var samið fyrir myndina.

Hver veit nema að það verði til viðlíka móment og þetta hér, ef Vedder kemur í Borgarfjörðinn.

Saturday, March 21, 2009

Extra góður

Verð að vekja athygli á því, hversu góður Sunnudagsmogginn er í dag. Hann er reyndar búinn að vera gríðarlega þéttur og góður undanfarna mánuði. Í dag er hann extra góður. Legendary stuff hjá Dodda um einkavæðinguna á Landsbankanum.

Thursday, March 19, 2009

"Margt hefur breyst"

Eins og alltaf þegar og ævintýraleg offjárfesting á fasteignamarkaði er gagnrýnd, grípa einhverjir til varna. Í fréttatilkynningu frá félaga meistara-iðnnema í Hafnarfirði segir meðal annars: "Mánudaginn 16. mars birtist grein í Mbl. þar sem stuðst var við talningu Ara Skúlasonar sem er frá mánaðamótum júní/júlí 2008. MIH telur alveg fráleitt að svo gömul talning stýri umræðunni um stöðu íbúðamarkaðarins. Margt hefur breyst á þeim tæplega níu mánuðum sem liðnir eru." Þetta er alveg rétt hjá MIH. Þessar tölur stýra ekki umræðunni, og gerðu það alls ekki í Morgunblaðinu. En þær eru nákvæmasta rannsókn sem gerð hefur verið á markaðnum, og til þess að varpa ljósi á hvernig staðan var áður en mestu efnahagshremmingar Íslandssögunnar gengu yfir, eru þær góð heimild. Það sem hefur í megindráttum gerst í millitíðinni er 1. að bankakerfi landsins, sem var tíu sinnum stærra en landsframleiðsla, hrundi í heild sinni á einni viku. 2. Lánsfjármarkaðir lokuðust og 3. gjaldmiðillinn, krónan, hætti að vera markaðsvara og er aðeins varin algjöru hruni með gjaldeyrishöftum. Þessu hefur fylgt nánast fordæmalaus breyting á atvinnumarkaði til hins verra og almenn óvissa um rekstur fyrirtækja. Hvort að þetta er breyting til batnaðar eða til hins verra verður hver og einn að meta. Og ef það er mat einhvers, að um þessa alvarlegu stöðu - sem augljóslega er á fasteignamarkaði - megi ekki tala þá verður sá að eiga það við sjálfan sig. Ég held að flestir séu sammála um að tími alltof lítillar gagnrýni á offjárfestingar á Íslandi - meðal annars á fasteignamarkaði - sé liðinn. Ég er að minnsta kosti á því að hann sé það.

Saturday, March 14, 2009

Óhugnanleg og falleg í senn

Árið 1996 fékk Charles Porter, lánasérfræðingur í Oklahoma City banka, blaðamannaverðlaun Pulitzer fyrir mynd ársins. Hann var enginn ljósmyndari, en var einn af þeim sem var fyrir tilviljun staddur fyrir utan skrifstofubyggingu í miðborg Oklahoma, 19. apríl 1995. Rétt rúmlega níu að morgni, þegar hún var smekkfull af fólki, var hún sprengd í loft upp. Fólk inn í byggingunni dó og einnig fólk sem var á ferð fyrir utan. Samtals dóu um 200 manns og mörg hundruð særðust, margir alvarlega. Porter þessi hljóp til þegar hann heyrði gríðarlegar sprengingar, tók með sér myndavél og smellti af nokkrum myndum. Síðan hljóp hann inn í Wal-Mart í næsta nágrenni og framkallaði myndirnar. Þegar hann fékk myndirnar til baka var allt starfsfólkið í búðinni grátandi. Fyrst og fremst yfir einni mynd. Þeirri sem hér birtist til hliðar.

Porter þessi þræddi sjúkrahús með myndinni í leit að foreldrum barnsins. Hann hafði þá þegar selt myndina til Associated Press, sem síðan varð til þess að ritstjórnir dagblaða í Bandaríkjunum - og um allan heim - notuðu hana á forsíðu. Barnið reyndist vera Baylee Almon, dóttir einstæðrar móður, Aren Almon. Hún taldi sig þekkja dóttur sína af forsíðu The Washington Post. Hún hafði samband við ritstjórn blaðsins. Spurði hver hefði tekið myndina, og hvert hefði verið farið með Baylee. Ritstjórnin aðstoðaði konuna við að fá upplýsingar. Baylee lést skömmu áður en hún komst undir læknishendur. Þær fréttir fékk Aren frá ritstjóra The Washington Post.

Þetta var í annað skipti í sögu Pulitzer-verðlaunanna sem amatör ljósmyndari fékk verðlaunin. Það hafði áður gerst 1974. Með spontant mynd af vettvangi mannráns í LA.

Heimild: Bókin Moments. Frábær blaðamennskubók um nákvæmar sögur að baki myndum sem hafa verið verðlaunaðar og birst á forsíðum út um allan heim. Þá er einnig farið yfir debate-in sem áttu sér stað á ritstjórnum blaða vegna þeirra.

Friday, March 13, 2009

Lag dagsins: Baba O'Riley

Meistarinn Pete Townshend á lag dagsins. Baba O'Riley með The Who.

Thursday, March 12, 2009

Vonandi

Rannsóknarnefnd Alþingis ætlar að kanna tengsl eigenda fjölmiðla við starfsmenn fjölmiðlafyrirtækja. Þar á meðal blaðamenn, og sérstaklega hvort þeir kunni að hafa fengið einhverja fjárhagslega fyrirgreiðslu frá eigendunum. Það er gott að rannsóknarnefndin rannsaki þetta. Það er nauðsynlegt. Ég held að það hafi tekist vel upp með það hvernig rannsóknarnefndin er mönnuð.

Vonandi mun nefndin einnig skoða tengsl Ríkisútvarpsins við þá stjórnmálaflokka sem stýrðu landinu á síðustu árum - Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn þá helst. Ef það kemur í ljós að RÚV hafi ekki notið algers sjálfstæðis þegar kemur að mannaráðningum, t.d. þegar var verið að ráða fólk til þess að segja fréttir, þá er það auðvitað áfall og nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að það gerist ekki aftur. Það er ekki lítið mál þegar ríkisútvarpið, eini fjölmiðillinn sem er skilyrðislaust í eigu almennings og því með innbyggt nánast 100 prósent traust, er misnotað pólitískt. Það hafa lengi verið uppi grunsemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn væri með puttann í því að ráða fólk til að segja fréttir. Fyrrverandi starfsmenn RÚV hafa greint frá þessu opinberlega. Ritgerð sem Ólafur Helgi Kristinsson prófessor birti í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla 2006, sýnir meðal annars að 52 prósent starfsmanna RÚV (bls. 26) voru á því að ekki væri vandað til ráðninga og ekki "fyllstu hlutlægni gætt". Ólafur Helgi segir í ritgerðinni að svo virðist sem stjórnmálamenn álíti það mikilvægt að vera með "pólitískt tangarhald" á RÚV. Það þarf að komast til botns í þessu. Nú er lag.

Tuesday, March 10, 2009

Málþóf vegna deilu um málþóf

Alþingi Íslendinga logaði í gærkvöldi - og að einhverju leyti í nótt - vegna deilna um hvort stjórnarandstöðuflokkarnir stæðu fyrir málþófi eða ekki. Vinstri græn gagnrýndu menn harðlega fyrir málþóf. Það er sami flokkur og beitti því sem röksemd gegn breytingum á þingsköpum, sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stóðu fyrir, að ekki væri hægt að beita málþófi með sama árangri og áður næðu breytingarnar fram að ganga.

Á meðan þessar deilur eiga sér stað heldur atvinnulífið áfram að safna fyrir næstu mánaðarmótum, þegar það þarf að borga 25 prósent vexti af lánum í því sem næst eftirspurnarlausu hagkerfi. Og þá nálgast gjalddagar á jöklabréfum óðum, á sama tíma og Sparisjóðabankinn bíður þess að verða leystur upp, eins og reyndar Icelandair, Eimskip og fleiri fyrirtæki. Þá eru bankarnir auðvitað án efnahagsreiknings. Sem er þokkalega mikilvæg forsenda þess að stýra bankastarfsemi.

Monday, March 9, 2009

Nokkur atriði um afleiðuviðskipti

Rannveig Rist segir að umræðan - og gagnrýnin - um raforkusölu hins opinbera til álvera - í skjóli skattaafslátta - hafi verið drifin áfram á trúnni á því að hér gæti ekki skapast atvinnuleysi, verðbólga og skuldasöfnun hins opinbera. Ég held að þetta sé að hluta til rétt hjá Rannveigu. Það er hins vegar áhyggjuefni að ekki hafi verið hægt að ræða raforkusöluna á vitrænum grunni öðruvísi en að vera stimplaður Vinstri grænn, Framsóknar- eða Sjálfstæðismaður. Ástæðurnar fyrir því eru einkum tvær. 1. Skortur á upplýsingum sem skipta höfuðmáli þegar framlegðin er til umfjöllunar. 2. Öfgakennd viðbrögð álfyrirtækja, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar, og Samorku í næstum hvert einasta skipti sem það birtist gagnrýnin umfjöllun um þessi mál.
------ Áhyggjuefnin eru nokkur.
Skattgreiðendur bera ábyrgð á raforkusölunni sem í reynd eru afleiðuviðskipti. Þessi viðskipti eru að vissu leyti í uppnámi vegna heimskreppunnar. Áliðnaðurinn í heiminum er hruninn og heimsmarkaðsverðið, sem stýrir framlegð raforkusölunnar, hefur tekið fordæmalausa dýfu niður á við. Um 70 prósent á sjö mánuðum. Þá er talið að offramboð á áli í heiminum sé á þriðja milljón tonn, sem nemur allri framleiðslu hér á landi í meira en fimm ár. Í fréttaskýringu í The Economist fyrir skemmstu var því haldið fram að stærstu álfyrirtæki heims, Alcoa og Rio Tinto, sem bæði eru með starfsemi hér, væru að grípa til hagræðingaraðgerða sem væru svo umfangsmiklar að ekki væri hægt að líta á þær öðruvísi en sem neyðaraðgerðir til að bjarga félögunum.

Orkusalan frá Kárahnjúkavirkjun var - svo dæmi sé tekið - talin geta skilað 11,9 prósent arðsemi eigin fjár miðað við að heimsmarkaðsverð á áli væri um 1.550 dollarar á tonnið að meðaltali. Lögin um hana voru samþykkt á þeim grunni. Það var reyndar miðað við að kostnaður við virkjunina væri 96 milljarðar. Kostnaðurinn er þó töluvert hærri en áætlað var, meðal annars vegna miklu meiri kostnaðar við að bora göng. Umframkostnaðurinn nemur tugum milljarða. Þá er ekki ljóst enn hversu mikið Landsvirkjun skattgreiðenda þarf að borga eigendum vatnsréttinda á Kárahnjúkum mikið fyrir þau. Um það var ekki samið fyrir fram. Sem er séríslenskt og ætti að meðhöndla sem afglöp hjá stjórn Landsvirkjunar. Opinber rannsókn væri viðeigandi. Að lágmarki mun Landsvirkjun þurfa að greiða vel á annan milljarð, sem skattgreiðendur ábyrgjast.
Það er mér gjörsamlega hulið, hvers vegna hörðustu hægri menn landsins berjast oft með kjafti og klóm gegn því að það sé rætt á eðlilegum forsendum hvort þessi afleiðuviðskipti á ábyrgð skattgreiðenda séu skynsamleg eða ekki. Vinstri mönnum hættir síðan til að tala ekki um það sem máli skiptir.

Eitt er þó óumdeilt. Þessi afleiðuviðskipti eru bæði áhættusöm, og fara fram á samkeppnismarkaði skv. lögum. Með öðrum orðum; þá er ekki nauðsynlegt að skattgreiðendur taki á sig áhættuna af afleiðuviðskiptunum heldur gætu einkarekin fyrirtæki gert það gegn auðlindaleigu. En pólitísk umræða um auðlindanýtingu er ekki komið þangað enn. Hún liggur í skotgröfunum. Fyrir vikið þurfa íslenskir skattgreiðendur ekki aðeins að hafa áhyggjur af almennri niðursveiflu, heldur einnig af sértækum vandamálum sem The collapse of manufacturing - svo vitnað sé í forsíðufyrirsögn The Economist - getur haft á auðlindanýtingu.

Þá hef ég áhyggjur af einu enn. Og þá helst vegna þess að um það er ekkert talað. Stærstu lánveitendur Landsvirkjunar hafa að undanförnu verið þjóðnýttir, eða bjargað með öðrum hætti af skattgreiðendum annarra ríkja. Meðal þeirra eru Citigroup, Barclays og Sumitomo. Á svipstundu hefur áhættan á lánum þessara banka verið færð á herðar skattgreiðenda í Bretlandi, Bandaríkjunum og Japan. Póltíkusar í þessum löndum standa því frammi fyrir spurningum sem í besta falli eru óþægilegar fyrir okkur. Þær eru: 1. Getum við lagt áhættuna af afleiðuviðskiptunum á Íslandi, sem tengd eru áliðnaðinum, á herðar skattgreiðenda? 2. Getum við gert það, í ljósi þess að íslenskir skattgreiðendur - sem nú eru með þeim fátækustu í hinum vestræna heimi - eiga fyrirtækið sem stendur í þessum viðskiptum?

Þessar spurningar eru ekki síst óþægilegar, þegar horft er til þess að eigendur Landsvirkjunar hafa aldrei lagt fyrirtækinu til eigið fé. Heldur hefur það fjármagnað sig að fullu með erlendum lántökum. Aðgangur að þeim er enginn. Allra síst fyrir íslenska skattgreiðendur. En meira um það síðar.

Friday, March 6, 2009

Tækni

Þessi gutti er með fína tækni.

Thursday, March 5, 2009

Tvö augljósustu lögbrotin í bankahruninu virðast vera...

...
1. Færsla á 30 milljörðum króna frá almenningshlutafélaginu Bakkavör til Kaupþings rétt fyrir hrun bankanna. Lýður Guðmundsson, annar Bakkabræðra, hefur beinlínis upplýst um að hann hafi beitt sér fyrir því að millifærslan hefði átt sér stað í ljósi þess að hann átti hagsmuna að gæta í Kaupþingi. Markaðsmisnotkun 101.
2. Kaup fjárfestingafélagsins Giftar á bréfum í Kaupþingi fyrir á annan tug milljarða, sem lánað var fyrir að öllu leyti með veðum í bréfunum sjálfum, í desember 2007. Bréfin voru áður í eigu Gnúps sem varð gjaldþrota í desember 2007. Inn í lánasamningi Kaupþings og Giftar, vegna kaupanna á bréfunum í Kaupþingi, var ákvæði um að Kaupþing ætti lokaorðið um alla eignaumsýslu Giftar sem í fælust umsvif sem væru yfir 15 prósent af heildareignasafni félagsins. Heildareignasafnið var um 50 milljarðar á þessum tíma. Bréf í Exista, Landsbankanum, Straumi og fleiri félögunum voru þannig óbeint í höndunum á Kaupþingi sem réðu því hvort þau "mætti" selja eða ekki. Markaðsmisnotkun 103.

Monday, March 2, 2009

Topp tíu: Kreppan endurvekur

Topp tíu yfir atriði sem kreppan getur endurvakið til lífs:
1. Sveitaböllin. - Sé fyrir mér þéttsetna Ýdali. Helgi Björns. "Mér finnst rigningin góð..."
2. Þungarokkið. - Kreppan fær menn til að hlusta á skilyrðislaust þungarokk. Sepultura kemur upp í hugann.
3. Landsbyggðina. - Höfuðborgarsvæðisbólan er náttúrulega sprungin. Um að gera að fara út á land, sem lengst og oftast. Þar er landsframleiðsla á mann miklu meiri en hér. Það er til dæmis ekkert sérstaklega mikil landsframleiðsla í Úlfarsárdal.
4. Landsmótin, með öllu tilheyrandi. - Keppt í pönnukökubakstri og þrautum á Traktor. Kreppa í því.
5. Ungmennafélögin. - Allir krakkar æfa frjálsar. Ég ætla ekki að útskýra af hverju það er kreppa í því. Þetta er meira svona huglægt mat hjá mér.
6. Fjöruhlaup. - Engin yfirbyggð knattspyrnuhús. Bara fjaran, hvernig sem viðrar.
7. Pajero og Patrol. - Einu sinni voru þetta flottustu jepparnir. Vaxtamunarviðskiptin færðu okkur mörg hundruð Range Rover-a, og Audi jeppa og BMW-jeppa.
8. Gildi þess að standa á sveitajörðum, óháð því hvað þær kostuðu þegar Jóhannes í Fons keypti þær. - Verðmæti sveitajarða má helst ekki berast í tal aftur. Sumt verður ekki metið til fjár.
9. Rútuferðir milli landshluta. - Frábær skemmtun. Staðarskáli er Ísland, og það allt. Örnefni og hvar er maðurinn. Jafnvel Sjálfstætt fólk og Góði dátinn Sveijk.
10. Skiptimarkaðir. - Notuð gasgrill, skíði og skór. Allir á markaðina. Habitat er í sölumeðferð. Sem er ellefta orðið á listanum.

Sunday, March 1, 2009

Skotheld klósettferð og White Russian

Árshátíðarræður forstjóra eru yfirleitt skotheld ástæða fyrir því að fara á klósettið. Stoppa jafnvel töluvert lengi. Þetta er þó ekki algilt. Einar Sigurðsson, fráfarandi forstjóri Árvakurs, náði að sanna það í gær. Ekki nóg með að ræðan hafi verið fín. Á meðan hann fór yfir árangur síðustu mánaða, og bjarta tíma framundan (þið vitið, same shit - different day), þá blandaði hann tuttugu lítra af White Russian. Fram að þessu hef ég alltaf tengt White Russian við The Dude í Big Lebowski. Núna breytist það. Eftirleiðis mun Einar dúkka upp þegar White Russian berst í tal.

Friday, February 27, 2009

Lag dagsins: Warning

Lag dagsins. Warning með Incubus. Nú er ég farinn að dauðsjá eftir því að hafa ekki farið á tónleika þeirra í Laugardalshöll. Þeir hafa vafalítið verið góðir.

Thursday, February 26, 2009

Bólur hér - bólur þar

- Eftirfarandi gerðist allt á sama þriggja ára tímabilinu, 2001 til 2004, hjá rúmlega 300 þúsund manna þjóð.
1. Krónan - minnsta mynt í heimi - var sett á flot.
2. Bankarnir voru einkavæddir, og seldir mönnum sem aldrei höfðu rekið eða átt banka.
3. Ráðist var í risaframkvæmd sem kostaði þriðjung af fjárlögum. Hún var að fullu fjármögnuð með erlendu lánsfé. Lesist sem yfir hundrað milljarða "stöðutaka" með krónunni. Hún ofstyrktist enda fíluðu hana allir á þessum tíma.
4. Lánshlutfall ríkisins á íbúðalánum var hækkað í 90 prósent.
5. Ríkið lækkaði vexti á íbúðalánum í bullandi samkeppni við nánast stjórnlausa útlánaviljandi banka.
6. Til varð fasteignabóla, par exelans.
- Á meðan, út í hinum stóra heima: Í júlí 2003 lækkaði seðlabanki Alan Greenspan í Bandaríkjunum, stýrivexti niður í 0,5. Það var þá lægsta vaxtastig í meira en hálfa öld. Eftir þetta gjörsamlega flaut allt í ódýrum peningum í heiminum. Bólur hér. Bólur þar. Bólur alls staðar.

Gáta dagsins: Hver sagði?

Hver ritaði grein þar sem eftirfarandi texti kom fyrir, 16. marz 2006?

"Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 56% af landsframleiðslu í árslok 1990 upp í 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og 300% í árslok 2005. Skuldirnar stefna enn hærra, því að hallinn á viðskiptum við útlönd er enn mikill og verður mikill áfram enn um sinn samkvæmt spám fjármálaráðuneytisins svo sem jafnan fyrr. Skuldirnar skiptast þannig, að hið opinbera hefur stofnað til 6% af skuldunum, bankarnir 83% og aðrir 11%. Bankarnir njóta í reynd ríkistryggingar í þeim skilningi, að allir virðast gera ráð fyrir því, að ríkið kæmi þeim til bjargar, ef á skyldi reyna. Bankarnir hafa notið góðra lánskjara í útlöndum eftir einkavæðingu bæði fyrir eigið ágæti og vegna þessarar óbeinu, undirskildu ríkisábyrgðar. Reynslan sýnir, að ríkið hleypur iðulega undir bagga með einkabönkum, ef þeir komast í kröggur, því að ella yrðu of margir saklausir vegfarendur fyrir of miklum og óverðskulduðum skakkaföllum. Ríkisvaldið kýs því að skakka leikinn, ef svo ber við, og dreifa skaðanum á skattgreiðendur. Þetta gerðist til dæmis í Bandaríkjunum 1986-89 og á Norðurlöndum nokkru síðar. Erlendir lánardrottnar íslenzkra banka hljóta að reikna með því, að ríkisstjórnin hér heima hefði sama háttinn á, ef í harðbakka slægi, þótt landslög kveði ekki lengur á um ríkisábyrgð eins og þau gerðu á fyrri tíð, þegar bankarnir voru ríkisbankar. Bankarnir eru því á bankamannamáli stundum kallaðir kerfisbankar til aðgreiningar frá ósviknum einkabönkum [...] Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 hefur að miklu leyti verið knúin áfram með erlendu lánsfé, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið 1994 ruddi braut inn í landið og lántakendur eiga eftir að standa skil á. Innflutningur erlends vinnuafls í krafti sama samnings öðrum þræði kom í veg fyrir, að lánsfjárinnstreymið leiddi til mikillar verðbólgu eins og áður, en verðbólgan hefur samt langtímum saman verið yfir settu marki Seðlabankans. Langvinn uppsveifla án verðbólgu er nýjung í íslenzku efnahagslífi og virðist hafa slævt áhuga stjórnvalda á frekari umbótum í efnahagsmálum. Enn býst ríkið til að ráðast í risaframkvæmdir fyrir erlent lánsfé til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, þótt áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna. Munstrið er kunnuglegt frá fyrri tíð (og öðrum heimsálfum): innstreymi lánsfjár er ætlað að örva atvinnulífið um stundarsakir, en minna er hirt um það, hvort framkvæmdirnar séu líklegar til að skila viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg til langs tíma litið. Vaxtagjöld þjóðarinnar umfram vaxtatekjur námu 4% af landsframleiðslu í fyrra (2005). Þessi hluti viðskiptahallans er viðvarandi. Slagsíðan mun aukast á næstu árum, ef vextir hækka úti í heimi."

Vísbendingar: 1) Z-an auðvitað. 2) Sá sem skrifaði pistlinn var búinn að starfa sem doktor hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í fimm ár þegar hann var þrítugur.
3) Margir sjálfstæðismenn hata hann, held ég að sé óhætt að segja.

Uppfært: Rétt hjá Pétri. Höfundur textans er Þorvaldur Gylfason. Pistillin er hér. Hann er stórkostlega skörp greining á skuldhlið einhverrar verstu hagstjórnar vestræns ríkis.

Tuesday, February 24, 2009

Eric Roberts is the fucking man

Þvílík ræða hjá meistara Rourke. Ég hló mig máttlausan þegar ég horfði á þetta. Og síðan í marga klukkutíma á eftir, í hljóði. Maðurinn er snillingur. Ég meina. Bara að segja í acceptance ræðu fyrir verðlaunum; Eric Roberts is the fucking man, er óeðlilega fyndið.

Gleymir - eða sleppir - mómentinu

Eyjan.is birti í gær frétt um bloggskrif lektors Háskólans í Reykjavík, sem varpaði fram þeirri spurningu hvort sex mánaða uppgjör Glitnis á síðasta ári hafi verið tóm blekking. Í því kom fram að Glitnir hefði aðgang að 8,1 milljarði evra með litlum fyrirvara. Lausafjárstaðan átti því að vera nokkuð trygg, þó gáleysileg ofþensla íslenskra banka í minnsta mynthagkerfi heims hafi vitaskuld verið búin að koma þeim í vanda.
Síðan í lok september, þremur mánuðum síðar, gengu forsvarsmenn Glitnis inn í seðlabankann vegna lausafjárerfiðleika. The rest is history, eins og sagt er. Lektorinn segir meðal annars: “Hvernig má það vera að banki sem hafði fullyrt að lausafjárstaðan væri svo sterk ætti í svo miklum vandræðum með afborgun sem nemur 7,4% þess lausafjár sem sagt var aðgengilegt skömmu áður? Vandræðin voru svo mikil að hann þurfti að leita til Seðlabankans um þrautarvaralán?”
Það er skemmst frá því að segja að lektorinn sleppir því að nefna afdrifaríkasta gjaldþrot mannkynssögunnar, sem er raunveruleg ástæða þess að millibankamarkaður hrundi á heimsvísu og þurrkaði upp lánalínur, hér eins og annars staðar. 15. september varð Lehman Brothers gjaldþrota og lokaðist þá fyrir lánalínur banka sem áður höfðu verið opnar með litlum fyrirvara. Þannig lokuðust áður aðgengilegar línur til Glitnis. Lánalínur til Seðlabanka Íslands lokuðust og greip hann meðal annars til þess að tengja til sín línur sem áður höfðu staðið Glitni til boða. Allir bankar heimsins urðu fyrir áhrifum af hruni millibankamarkaðarins og ef ekki væri fyrir seðlabankanna, og vasa skattgreiðenda, væri vestrænt fjármálakerfi raunuverulegar rústir en ekki aðeins næstum lamað eins og nú. Lektorar og fræðimenn, ættu að kynna sér betur hvað gerðist áður en þeir fara að lesa ársreikninga fyrir 15. september 2008 og draga ályktanir. Sá dagur er þegar orðin að svipuðu momenti og 11. september 2001. Nema að þeir vilji vísvitandi koma fram með upplýsingar sem standast ekki gagnrýni. Ég geng út frá því að þannig sé það ekki.

Monday, February 23, 2009

Lag dagsins

Frábær live útgáfa Weezer af Tired of Sex. Hoppandi glaðir Japanir setja skemmtilegan svip á þetta allt saman. Þeir eru reyndar vafalítið ekki hoppandi glaðir þessa dagana. Allt í steik í Japan.

Sunday, February 22, 2009

Sort it out outside?

Það hefur enginn Íslendingur komist hjá því að fylgjast með deilum Jóns Geralds og Jóns Ásgeirs undanfarin ár. Svo fyrirferðamiklar hafa þær verið. Margir héldu að deilurnar myndu róast eftir að þeir voru báðir dæmdir í Hæstarétti fyrir lögbrot. En nei. Allt kom fyrir ekki. Nú er Jón Gerald farinn að upplifa sig sem alþýðuhetju vegna bankahrunsins. Öskrar I told you so í tíma og ótíma. Í beinni frá Florida þar sem hann hefur búið undanfarna tvo áratugi. Á meðan reynir Jón Ásgeir að fría sig ábyrgð á hruninu, um leið og eignir hans sogast ofan í skulda-svarthol Baugs. Svona getur þetta verið þegar konur eru í spilinu. Deilurnar einfaldlega leysast aldrei. Það verður einhver að taka að sér hlutverk kúrekans við barinn og segja: Can´t you just sort it out outside? Á meðan þeir lemja hvorn annan getum við hin haldið áfram að drekka. Þessu tuði verður að linna.

Friday, February 20, 2009

Landflótti og Bonham

Ég sé í afar þéttu Morgunblaði dagsins að Bjössi í Mínus er að fara flytja til Danmerkur, og verðurþví eitthvað minna viðriðinn íslenskt tónlistarlíf en undanfarin misseri. Landflóttinn er því byrjaður að valda beinum skaða. Bjössi er sá trommuleikari sem mér finnst vera með mesta groove-ið hér á landi. Hvað á ég við með groove-i? John Bonham, mesti trommuleikari sögunnar, var til að mynda með groove. Þetta er oft nefnt flottasta trommusólo sögunnar. 21 árs að aldri í Royal Albert Hall. Gjörsamlega tapar sér í Moby Dick.

Meistarinn orðinn afi

Lang besti knattspyrnumaður allra tíma er orðinn afi. Aguero, leikmaður Atletico Madrid, er tengdasonur meistarans. Eitthvað segir mér að barnið muni geta eitthvað í fótbolta.

Thursday, February 19, 2009

Know the rest

Ef marka má nýjustu fréttir af bankamálum í Sviss þá gæti landið verið í vondum málum. Eitt land í heiminum var - áður en Lehman Brothers féll 15. september - með stærra bankakerfi miðað við landsframleiðslu en Ísland. Það var Sviss sem í gegnum aldir hefur verið eins konar peningaskápur hinna ríku í heiminum. Bankakerfið var um tólf sinnum stærra en landsframleiðsla. Ef allt fer á versta veg þá er augljóst mál að stjórnvöld í Sviss munu þurfa að lýsa því yfir að þau ætli ekki að borga skuldir óreiðumanna. Einfaldlega vegna þess að landið hefur ekki efni á því. Svo byrjar bardaginn. You know the rest.

Wednesday, February 18, 2009

Nýtt fyrir Mastercard

Viðskiptavildin verður ekki metin til fjár. Mastercard er fyrir allt annað.

Gáta: hver sagði?

Hver sagði: "Íslenskir fjárfestar virðast undanfarin ár flestir hafa hugsað á allt öðrum nótum en Buffett. Áhersla margra íslenskra fjárfesta á að reyna að ná skjótfengnum gróða með því að veðja á verðhækkun á mörkuðum og magna uppsveifluna með því að nota lítið eigið fé en mikið lánsfé er eins fjarri hugmyndum Warren Buffett og hugsast getur."

Vísbending: Orðin eru lokaorð inngangs að íslenskri þýðingu bókarinnar Warren Buffett aðferðin eftir Robert G. Hagstrom.

Uppfært í hádegishléi: Í ljós þess hversu leiðinleg spurningin er, þá gef ég svarið fram. Það var Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sem lét þessi orð falla. Buffett-bókin er annars ágæt. Eins skotheld og hún virðist vera hvað fjárfestingarstefnu varðar, þá hefur kreppan þurrkað gríðarlegar fjárhæðir upp úr vösum Buffett. Bregðast krosstré sem önnur.

Tuesday, February 17, 2009

Rourke og Lawless

The Wrestler er besta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Mickey Rourke hlýtur að fá óskarinn. Annað væri skandall. Hreint út sagt stórkostleg skemmtun. Ekki skemmir fyrir að metall og önnur gömul og góð gildi eru áberandi í myndinni, frá upphafi til enda. Held alveg örugglega að ég hafi heyrt í Blackie Lawless, forsprakka W.A.S.P., í upphafi myndarinnar. Er samt ekki alveg viss. Ef þetta var ekki Lawless þá var þetta einhver sem var að augljóslega að stæla hann.

Monday, February 16, 2009

Áfall

Þetta er áfall. Jói er að hætta. Hann vill fá Halla Gum inn. Hrikalegt á fá þetta ofan í efnahagshrunið.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þrjá Eyfirðinga í Frjálslynda flokknum, skömmu eftir að tilkynnt var um að Jói ætlaði sér ekki að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn í firðinum. Eins og sjá má á myndinni þurftu tveir félagar Jóa að halda ritara félagsins en hann brjálaðist þegar Jói hafði tilkynnt félögum sínum um ákvörðunina.

Vöruþróunarforsetinn Obama

Það er ekki annað að sjá en að Obama, og stjórn hans, treysti stjórnendum GM og Ford ekki til þess að þróa vörur. Það er reyndar ekki skrýtið eftir hörmulega stjórn þeirra á fyrirtækjunum undanfarin ár. Spurning hvort það er samt ekki ofmat á eigin ágæti? En menn vilja náttúrulega vera með puttann í fyrirtækjunum eftir milljarða dollara innspýtingu á skattfé í þau.

Sunday, February 15, 2009

"...dregur auðvitað kjarkinn úr fólki..."

Eftirfarandi kom fram í góðri umfjöllun Viðskiptablaðs Morgunblaðsins um fasteignamarkaðinn 12. febrúar síðastliðinn: Verðbólgan er að hjaðna og það hefur orðið verðlækkun á fasteignum, að sögn Ingibjargar Þórðardóttur, formanns Félags fasteignasala. Hún segir að því séu skilyrði til fasteignaviðskipta raunverulega að batna mikið. "Hins vegar þarf árásum á fasteignamarkaðinn að linna," segir hún. "Seðlabankinn er enn að hamra á því að fasteignaverðið eigi eftir að lækka áfram, en það dregur auðvitað kjarkinn úr fólki." Það er átakanlegt að sjá þennan málflutning hjá Ingibjörgu talsmanni fasteignasalastéttarinnar í landinu. Vonandi sjá heiðarlegir fasteignasalar sig tilneydda til þess að stíga fram og mótmæla þessum óforskammaða málflutningi. Tvennt: 1. Það sem Ingibjörg kallar "árásir á fasteignamarkaðinn" eru í raun sjálfsögð viðvörunarorð sem ætti að sem segja á eins áberandi hátt og hægt er, sem oftast. Staðreyndin er sú að botninn er farinn úr fasteignabólunni sem hófst fyrir alvöru haustið 2004 með innkomu bankanna á fasteignalánamarkað. Nú eru forsendur breyttar, og það er fullkomlega nauðsynlegt og ábyrgt, að benda á að fasteignaverð er að lækka og á eftir að lækka meira. Orð í þá veru, eru eins langt í frá að vera "árás" og hugsast getur. 2. Eiginhagsmunir fasteignasalastéttarinnar virðast engin takmörk sett, ef marka má orð Ingibjargar. Hún segir að viðvörunarorð seðlabankans, um að verð muni lækka, dragi "auðvitað kjarkinn úr fólki" og gefur í skyn að það sé óheppilegt að seðlabankinn sé að spá fyrir um fasteignaverðslækkun. Fasteignasalastéttin verður að fara vakna, og auðvitað að hætta að taka til sín þóknun sem hlutfallslega er tengd fasteignaverði sem hún finnur út sjálf. Það sem heiðarlegir fasteignasalar ættu að segja við ungt fólk sem er að hugsa um að kaupa íbúð er þetta: - Ekki kaupa íbúð á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. næstu tvö árin. Leiga er að verða hagstæðari með hverjum deginum og hún er miklu öruggari við þær aðstæður sem uppi eru núna. Ef að þið eruð með mikið laust fé, sem nægir jafnvel fyrir öllu kaupverðinu, þá er óskynsamlegt að geyma það í steinsteypu á höfuðborgarsvæðinu. Líklega er engin ávöxtunarleið öruggari farvegur fyrir neikvæða útkomu. Ef þið viljið samt fjárfesta í húsnæði, þá er örugglega best að kaupa eina götu á Raufarhöfn eða Þórshöfn frekar en blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Olían maður. Olían (svo maður detti í smá RE-max gír).

Friday, February 13, 2009

Naaaaaa, na, na na-na-naa, naaaaa.......

Paul McCartney væri líklega af öllum talinn betri lagasmiður en John Lennon ef hann hefði drepist með dramatískum hætti í den. Ég meina, McCartney á bassalínuna í Taxman þó Harrison eigi lagið. Ég ætla einhvern tímann að sjá Hey Jude á tónleikum. Væri ekkert verra ef það væri á Anfield. Helst með þennan tudda á trommunum. Hann er rosalegur.

Gáta: hver sagði?

„Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun – lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán – og nú vita þau ekki hvernig unnt sé að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld."

Vísbending: Bankastjórar Landsbankans sendu frá sér yfirlýsingu eftir að maðurinn sem um er spurt hafði haldið erindi fyrir fullum sal í Háskólabíói, 6. maí í fyrra, og sagt að laumu-áhlaup væri hafið á íslenska bankakerfið. Bankastjórar Landsbankas sögðu hann skorta verulega á þekkingu á íslenskum bönkum.

Uppfært um hádegi: Google-svarið hennar Karenar (:)) er nákvæmast, og rétt vitaskuld. Til viðbótar, þá sagðist Aliber hafa keyrt um höfuðborgarsvæðið og talið byggingarkrana, meðan hann var hérna. Hann hefur lýst því sem hér gerðist sem mestu eignabólu sem myndast hefur í hagkerfi í mannkynssögunni.

Thursday, February 12, 2009

Besta stuffið hjá RÚV

Besta efnið hjá RÚV finnst mér vera þetta:
1. Vikulokin - Ómissandi fyrir fréttafíkla eins og mig. Hefur náð að setja saman góðan hóp viðmælenda í hverjum þætti eftir bankahrunið. Aðalatriðin komast á dagskrá. Stundum kemur gott skúbb út úr þessu.
2. Spegillinn og þar helst pistlar Sigrúnar Davíðsdóttur - Spegillinn hefur legið undir ámæli fyrir að vera vinstri þetta og hitt. Mér finnst það einfaldlega ekki. Góð blaðamennska hjá reyndu fólki. Kannski er ég litaður af því að vera óflokksbundinn og aldrei tekið þátt í pólitísku starfi.
3. Silfur Egils - Ég er alltaf að ná því betur og betur að það var hárrétt hjá Agli að keyra svolítið á þá sem verða fyrir áhrifum af bankahruninu, það er fólkinu í landinu, frekar en þeim sem hafa framkallað hrunið. Bissness-menn, stjórnmálamenn og þess háttar. Viðtalið við Elías Pétursson í síðasta þætti var til að mynda fínt. Stundum er mönnum heitt í hamsi. Þó það nú væri.

Wednesday, February 11, 2009

Simply the best

Vefsíðan hjá The New York Times er án nokkurs vafa besta fréttasíðan á netinu. Ástæðan er meðal annars áhersla vefsins á flottar grafískar lausnir og interactívar nálganir. Þetta er til að mynda flott. Svo verður líka að gefa þessu stórblaði kredit fyrir að þjónusta lesendur 100 prósent, með fullri birtingu á greinum og fréttum blaðsins, á vefnum þrátt fyrir að eiga mest undir með áskriftartekjum. Washington Post gerir það til að mynda ekki. Þetta hugrekki gerir vefinn, eins og Tina Turner (og allir sem stæla hana í karokee) myndi segja; simply the best.

Kristaltær pólitísk afskipti

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra viðurkenndi í fyrradag að henni þætti koma til greina að skipta um forystufólk í bankaráðum nýju bankanna, í ljósi þess að það væru komnir nýir flokkar í ríkisstjórn. Ég man ekki eftir að hafa séð tærari mynd af pólitískum afskiptum af bankastarfsemi í ríkisrekstri. Sérstaklega hlýtur þetta að vekja upp spurningar núna, þegar unnið er að mati á eignum og skuldum gömlu bankanna og gerð efnahagsreiknings fyrir nýju bankanna. Það er mikið í húfi. 385 milljarðar verða lagðir til nýju bankanna af ríkisfé og bankaráðin munu á næstunni þurfa að velja og hafna hvaða fyrirtæki eru lífvænleg og hver ekki. Sú vinna á vitaskuld ekki að vera undir neinum pólitískum þrýstingi. Því miður virðist hún ætla að vera það. Það er mjög vægt til orða tekið að það sé áhyggjuefni.

Tuesday, February 10, 2009

Grillun - Generosity of taxpayers


Ef ekki kemur til 800 milljarða dollara - 89.600 milljarða króna - innspýtingu úr vösum skattgreiðanda í Bandaríkjunum, þá gæti efnahagsvandinn þar í landi orðið að hreinni katastroffu.


Sumir segja að ástandið í Bretlandi sé þegar orðið að katastroffu. Í dag fara fram opinberar yfirheyrslur, ef svo má segja, yfir bankastjórum HBOS og Royal Bank of Scotland. Þetta voru einu sinni virtar fjármálastofnanir en eru núna hálfgerð hræ sem hafa að mestu verið þjóðnýttar af breska ríkinu. Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, reifar á bloggi sínu í dag hvaða spurningar hann myndi leggja fyrir stjórana. Það kannski segir eitthvað um hvað honum finnst að hann kallar þetta grillun.


Peston segir:
"If I had one question for each bank, these would be them:
For Andy Hornby, former chief executive of HBOS, I would ask how on earth he allowed the bank to abandon tried and tested banking risk controls. What I mean by that is that he gave licence to his team to take stakes in big companies as well as lending to them.
That went against all traditional banking practice, because it meant that the banks' judgement about the credit-worthiness of companies wanting to borrow vast sums was clouded by the enticing prospect of making fat profits on shares held in those borrowers.
Or to put it another way, good banking judgement was overwhelmed by at least one of those seven deadly sins.
In the early 1990s, when I was banking editor of the Financial Times, it was regarded as almost a scandal when the so-called clearing banks held shares in corporate customers. Over the past few years, at HBOS and at other banks, this dangerous mixing of lending and investing became commonplace - with disastrous consequences.

So the question to Mr Hornby - who is not a banker by training and yet went on to run one of our biggest banks - is why he didn't spot this danger (among many other dangers - such as the bank's excessive reliance on unreliable sources of funding, inlcluding sales of mortgage-backed bonds).
As for Sir Fred Goodwin, who for years was the supremely confident CEO of Royal Bank, the big question is why, oh why, did he buy the bulk of the toxic giant Dutch bank ABN right at the top of the market.
This deal would have bankrupted RBS, were it not for the generosity of taxpayers. And he can't claim there were no serious voices arguing against this takeover. There were many asking the question whether this was a deal too far.
Doubtless he and Hornby and their respective chairmen will say sorry this morning. But they need to do more.
They need to give a convincing narrative of how they made their egregious errors, so that we can all learn from their mistakes - and make new mistakes next time, rather than repeating these particularly disastrous howlers."

Monday, February 9, 2009

Oh my god

Barack Obama hefur hug á því að fá braskarana á Wall Street með sér í lið við að reisa efnhag heimsins við. Einhverjir segja eflaust oh my god við þeirri hugmynd. Líklega er þó kjarninn sá, að ómögulegt er að koma hlutunum aftur á nægilega mikla hreyfingu einungis með skattfé. Fólk getur ekki farið í vasann endalaust.

Saturday, February 7, 2009

Opnun dauðans

Ég er sérstakur áhugamaður um hvernig hljómsveitir byrja tónleika sína, eða opna prógramið eins og það er stundum kallað. Þessi byrjun, á tónleikum Pearl Jam í Madison Square Garden, er hrikalega svöl. Opnun dauðans, svo maður noti það ágæta áhersluorð.

Friday, February 6, 2009

Forsendur brostnar?

Staðgreiðsluverð á áli er nú 1.408 dollarar. Það fór hæst í 3.300 dollara í júlíu fyrra. Í samningum Landsvirkjunar og Alcoa vegna álvers á Reyðarfirði er miðað við að orkusalan skili 11,9 prósent arðsemi ef heimsmarkaðsverðið er 1.550 dollarar. Lögin um framkvæmdina voru meðal annars samþykkt á þeirri forsendu að kostnaðurinn við framkvæmdina yrði 96 milljarðar og arðsemin 11,9 prósent, eins og fyrr segir. Ljóst er, og hefur verið greint frá opinberlega, að heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun er áætlaður 140 til 150 milljarðar. Miklu hærri en áætlað var í fyrstu.
Sanngjarnt er því að spyrja: Er forsendur fyrir áætlaðari arðsemi brostnar?

Eitt enn: Nú er talið að óseldar birgðir af áli í heiminum séu á milli tvær til þrjár milljónir tonna. Það er nær öll framleiðsla á Íslandi í tvö til þrjú ár. Fyrirtæki hafa verið að loka álverum um allan heim, þar á meðal Alcoa.

Thursday, February 5, 2009

Hard Sun

Tónlistin í hinni frábæru mynd In to the Wild, í leikstjórn meistarans Sean Penn, er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta lag finnst mér njóta sín einna best í myndinni.

Wednesday, February 4, 2009

Ekki gera okkur þetta

Fólk sem vinnur við að setja lög í umboði þjóðarinnar hefur að undanförnu eytt dýrmætum tíma í að rífast um hvort ríkisstjórn sem hefur tveggja mánaða starfstíma eigi að stefna að því að ýta undir nýtt álver eða ekki (Það verið að loka álverum út um allan heim og markaðsverð í lágmarki). Þá hafa þingmenn einnig tekist á um hvort hvalveiðar séu æskilegar. Framsóknarkonan Siv Friðleifs kom fram í sjónvarpsviðtali og sagði framsóknarmenn ekki geta stutt það að veiðileyfi verði dregin til baka. Það verður bara að segjast eins og er, að íslenskir þingmenn eru margir hverjir ófókusaðir, latir og pópúlískir, miðað við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu. Bara það að leyfa sér að nefna eitthvað annað en bráaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki - til þess að reyna að eftir fremsta megni að afstýra þjóðargjaldþroti - er sönnun þess að flokksmenn eru nú farnir að taka hagsmuni sína fram yfir hagsmuni almennings, í ljósi kosninga 25. apríl. Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt annað en: ekki gera okkur þetta. Þingmenn eiga að vinna á sólarhringsvöktum við að bjarga því sem bjargað verður. Ekki síst í ljósi þess að löggjafarvaldið gjörsamlega brást þegar kom að rótum vandans í bankakerfinu.

Tuesday, February 3, 2009

They are not going to pay


Ástandið í Bretlandi er að verða hrikalegra með hverjum deginum. Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, setti fyrir rúmlega 20 mínútum inn þessa færslu, sem mér finnst vera óhugguleg lesning. Sérstaklega þegar tekið er mið af því að bankakerfið í Bretlandi var þegar kreppan skall á 3,5 sinnum stærra en landsframleiðslan, sem er með því mesta í heimi. Nú hafa stærstu bankar Bretlands verið þjóðnýttir að stórum hluta.
Líklega er bara tímaspursmál hvenær Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands þarf að stíga fram og segja: Við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna. Þá stíga fjármálaráðherrar annarra landa fram á blaðamannafundum og segja: Belive or not, they are not going to pay. Og síðan koll af kolli, en það er nú líklega worst case scenario.

Skúbbið ofmetið

Merkilegt sem Thomas E. Ricks, blaðamaður Washington Post gagnvart Pentagon, segir í inngangi að endurútgáfu af Fiasco, frábærri bók hans um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak. Hann segir: Þegar kemur að stórviðburðum þá er skúbbið ekki aðalatriðið. Það er heildarmyndin sem þarf að draga upp; það er follow-up ið sem öllu skiptir. Ricks segir Fiasco vera tilraun til að draga upp heildarmynd af stríðinu í Írak, sem vitaskuld er klúður, fíaskó.

Ég held að það sé mikið til í þessu hjá Ricks, sem stundum er sagður fremsti blaðamaður heims. Margfaldur Pulitzer vinningshafi. Ég held að það sé öllum ritstjórnum hollt á Íslandi að hafa þetta heilræði Ricks bak við eyrað í umfjölluninni um bankahrunið.

Monday, February 2, 2009

Lag dagsins

Ég hef aldrei verið neinn rosalegur Incubus maður, en þetta lag frá sveitinni er einfaldlega frábært. Þó þetta sé orðin klysja þá eru þetta samt pjúra gæði.

Saturday, January 31, 2009

Vonandi og sammála

Ég sé að Vilhjálmur Bjarnason og fleira gott fólk ætlar að reyna að kaupa Moggann. Það væri óskandi að það tækist. Held að það væri fínt fyrirkomulag ef "almenningur" ætti að minnsta kosti stóran hluta í blaðinu. Aðalatriðið er að það verði hægt að setja saman hluthafahóp sem fæli í sér hæfilega dreift eignarhald.

Mattihías Johannessen skrifar mikla grein - að því marki sem hægt er að tala um mikla grein - í Lesbókina. Þar segir að dagblöð eigi að hafa skoðanir. Um það segir hann: “...það kemur frjálsri blaðamennsku ekkert við. Hún getur dafnað vel í skjóli merkilegra hugsjóna sem skipta okkur máli. Upppoppaður samtíningur og einskis nýtur eyðileggur virðingu og áhrif dagblaða, ég tala nú ekki um þetta skolpræsalýðræði sem nú er í tízku (einkum á netinu). Eða alla segulbandsvæðinguna með sinn þunna lopa.”

Ég er sammála Matthíasi, svo lengi sem skoðanirnar eru innan ritstjórnargreina. Þær eiga beinlínis að fela í sér skoðanir. Þannig ég sé ekki að það sé eitthvað nýtt í þessu.

Friday, January 30, 2009

Thursday, January 29, 2009

CDS-markaðurinn bannaður?

Samkvæmt þessari frétt sem birtist í morgun þá er verið að vinna að því að banna viðskipti á markaði með skuldatryggingar eins og þau hafa verið fram að þessu. Samkvæmt bloomberg er markaðurinn í heild um 29 trillionir dollara. Ég ætla ekki að færa það yfir í krónur. Hef ekki tíma.

Wednesday, January 28, 2009

PHANTOM, OF THE OPERAAAAAA...

Þetta finnst mér besta lag Iron Maiden.

Kippa undir

Ég set kippu undir og veðja á að Kastljósið biðjist ekki afsökunar á rangfærslum sínum í þættinum í gær. Og auðvitað reyni ekki að rökstyðja af hverju Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöð 2, ætti að fara eftir skipunum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í starfi sínu.

Stjórnarkreppa

Djöfulsins bull er þetta. Það er komin stjórnarkreppa ofan í efnahagskreppuna.

Tuesday, January 27, 2009

Skytturnar þrjár

Ég hlakka til að lesa bækurnar um bankahrunið. Það verður vafalítið skotið í allar áttir í þeim, allt eftir þeim vinkli sem tekinn verður í hvert skipti. Ég hef heyrt að þrír séu að vinna að bókum um hrunið. Það eru Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander í London, og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Allar þessar bækur verða forvitnileg lesning. Þess má geta til gamans að Ármann, sem er sagnfræðingur í grunninn, hefur skrifað eina bók. Það er saga Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur. Það viðfangsefni er eins ólíkt bankahruninu og hægt er að hugsa sér.

Gullhjartað


Það er nauðsynlegt að taka sér frí frá kreppunni annað slagið. Heart of Gold með Neil Young er það sem færir okkur fjær kreppunni á þessari síðu. Stórkostlegt lag.

Monday, January 26, 2009

Einu sinni í viku

Ég hef minnst á það hérna á síðunni að stjórnvöld verði að mynda beina upplýsingalínu til heimila og fyrirtækja. Tillaga mín var sú að forsætisráðherra myndi senda bréf á öll heimili og fyrirtæki einu sinni í viku þar sem farið væri yfir stöðu efnahagsmála og hvar áætlanir væru staddar.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið, einkum vegna þess hversu djúpstæður efnahagsvandinn er, að ávarpa þjóð sína einu sinni í viku. Í fyrsta ávarpinu, sem birtist á laugardaginn, þá sagði hann efnahagsvanda heimsins fordæmalausan og það þyrfti því að grípa til fordæmalausra aðgerða. Ég hef það stundum á tilfinningunni að Íslendingar viti ekki hvað er að gerast í heiminum. Stjórnvöld bera að hluta til ábyrgð á því.